Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 13:41:16 (3361)


[13:41]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um stöðvun verkfalls fiskimanna. Ríkisstjórninni þótti bera brýna nauðsyn til 14. jan. sl. að setja bráðabirgðalög um stöðvun verkfalls sjómanna. Efni laganna felur það í sér að vinnustöðvanir, hvort heldur verkbönn eða verkföll, sem ná til þeirra sem lögin taka til eru óheimilar á gildistíma laganna og allir síðast gildandi kjarasamningar þeirra félaga sem lögin taka til eru framlengdir til 15. júní 1994 nema aðilar semji um annað. Lögin gera þannig ráð fyrir því ef aðilar ná samkomulagi um aðra skipan kjaramálanna sé þeim frjálst að gera þá samninga hvenær sem er á gildistíma laganna.
    Meginatriðið er þó 1. gr. frv. sem mælir fyrir um skipan þriggja manna nefndar sem á að gera tillögur um það hvernig koma megi í veg fyrir að viðskipti með aflaheimildir hafi óeðlileg áhrif á skiptakjör og undirbúa nauðsynlega löggjöf í þeim efnum. Gert er ráð fyrir því gert að nefndin hafi skilað tillögum fyrir 1. febr. 1994.
    Það er ljóst að eitt meginágreiningsefni sjómanna annars vegar og atvinnurekenda hins vegar í þeirri kjaradeilu sem staðið hefur og kom fram í verkfalli sjómanna í byrjun þessa árs laut að því hvernig sala aflaheimilda hefur haft áhrif á fiskverð og skiptakjör sjómanna og enn fremur framkvæmd á bókun í kjarasamningi um það að óheimilt sé að draga af skiptahlut sjómanna vegna viðskipta með aflaheimildir. Sú yfirlýsing sem gerð var með kjarasamningum aðila 26. apríl 1992 hljóðar svo:
    ,,Samningsaðilar eru sammála um að útgerðarmanni sé óheimilt að draga útlagðan kostnað vegna leigu eða kaupa á aflaheimildum frá heildarsöluverðmæti aflans áður en skiptaverð til sjómanna er reiknað. Yfirlýsing þessi hefur engin áhrif á frjáls viðskipti útgerðarmanna sín á milli með aflaheimildir né samninga áhafna og einstakra útgerðar við fiskkaupendur um fiskverð.``
    Hér kemur mjög skýrt fram að það er bindandi kjarasamningur aðila að óheimilt er að draga útlagðan kostnað vegna kaupa eða leigu á aflaheimildum frá áður en skiptaverð til sjómanna er reiknað. Öll tilvik af því tagi eru því greinilega óheimil í andstöðu við gerða kjarasamninga og um það hygg ég að sé ekki almennur ágreiningur. Hins vegar hafa komið fram skiptar skoðanir um síðari hluta þessarar yfirlýsingar. Atvinnurekendur hafa haldið því fram að hún útilokaði ekki að menn framseldu aflaheimildir og létu aðra veiða þær fyrir sig að öllu leyti eða einhverjum hluta. Hvað sem líður túlkun á þessu ákvæði er það ljóst að sjómannasamtökin hafa talið óásættanlegt að slík viðskipti hefðu áhrif á fiskverð sem er grundvöllur skiptakjara sjómanna og útvegsmanna. Í raun má segja að sá ágreiningur hafi verið uppistaðan í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna. Jafnframt settu sjómannasamtökin fram sérkröfur varðandi sérsamninga um ýmsar veiðar og tefldu þeim fram í þessum samningum. Þegar samkomulag hafði ekki náðst um áramót kom boðað verkfall til framkvæmda.
    Eins og menn rekur minni til töldu atvinnurekendur að kröfur sjómanna væru þess eðlis að þær

fælu í sér óskir um breytingar á gildandi löggjöf og væru því fyrst og fremst þrýstingur á stjórnvöld sem ekki væri í samræmi við gildandi lög um stéttarfélög og vinnudeilur. Þessu höfnuðu sjómenn algerlega og félagsdómur féllst í einu og öllu á sjónarmið sjómanna að þessu leyti og hafnaði því því sjónarmiði atvinnurekenda að sjómenn hefðu með kröfugerð sinni og verkfallsboðun verið að þrýsta á stjórnvöld um breytingar á gildandi lögum. Niðurstaða félagsdóms í þessu efni var býsna skýr.
    Það er ljóst að þetta viðfangsefni hefur legið fyrir um alllangan tíma og sl. vor átti ég viðræður við fulltrúa bæði sjómanna og útvegsmanna um þessi efni. Þá þegar komu fram hugmyndir um hvort það gæti orðið til lausnar í þessum vanda að lögfesta með einum eða öðrum hætti ákvæði kjarasamninganna sem ég hef hér vitnað til.
    Þegar verkfallið hafði staðið í nokkurn tíma kom fram ósk um það að sjómenn fengju fund með forsrh. Þar var farið yfir þessi efni og ítrekuð sú afstaða ríkisstjórnarinnar, sem legið hefur fyrir, að hún væri tilbúin til þess að veita stoð í lögum því ákvæði í samningum aðila að þátttaka sjómanna í kaupum á aflaheimildum væri óheimil. Endurnýjuð yfirlýsing af þessu tagi dugði ekki til að færa aðila nær hvor öðrum við samningaborðið. Skömmu síðar fóru fram mjög ítarlegar viðræður í sjútvn. á milli aðila þar sem reynt var að finna nýjan flöt til viðræðna. Í þeim samtölum komu einkum til álita leiðir sem byggðu á því að aðilar kæmu sér upp einhvers konar samstarfsnefnd eða úrskurðarnefnd til þess að taka á ágreiningsefnum og komið yrði upp skipulagðri skráningu og birtingu upplýsinga um fiskverð frá einum tíma til annars. Það voru vonir manna sem þátt tóku í þessum samtölum að með þeim hefði skapast grundvöllur til áframhaldandi viðræðna. Þar komu upp sjónarmið af hálfu sjómanna um viðmiðunarverð en af hálfu útvegsmanna var því jafnan hafnað að draga fiskverðsákvarðanir inn í þessar umræður.
    Í þessum samtölum mátti einnig ætla að útvegsmenn væru reiðubúnir til þess að ganga í alvöru til viðræðna um sérkjarasamninga. Því miður tókst ekki að leiða deiluna til lykta á þeim viðræðugrundvelli sem menn töldu sig hafa fundið í þessum samtölum. Það var svo enn á ný reynt af hálfu ríkisstjórnarinnar, fyrir milligöngu tveggja ráðuneytisstjóra, að kanna til þrautar 13. jan. sl. hvort unnt væri að finna samkomulagsflöt á þeim grundvelli sem áður hafði verið rætt um. En það má segja að þau atriði sem einkanlega var fjallað um og ekki hafði náðst samstaða um var hlutverk formanns eða oddamanns slíkrar nefndar, hvort annar aðili ætti að hafa einhliða rétt til að kæra ágreining til bindandi gerðardóms og enn fremur hvort styðjast ætti við fast meðaltalsverð til viðmiðunar í úrlausn slíkra ágreiningsefna. Ég hygg að þessi þrjú atriði hafi fyrst og fremst verið þau sem menn höfðu ekki náð saman um á þessu stigi málsins. Þessi úrslitatilraun bar ekki árangur. Það lá fyrir í yfirlýsingu ríkissáttasemjara að hann teldi útilokað að í bráð mætti ná sáttum í deilunni í frjálsum samningum aðila. Það var ljóst að deilan hafði mjög víðtæk almenn efnahagsleg og þjóðfélagsleg áhrif og áframhald verkfallsins gæti leitt til víðtækrar atvinnustöðvunar í landinu. En einkanlega með tilliti til þess að ekki var fyrirsjáanlegt að mati þeirra sem helst höfðu komið að sáttaumleitunum að í bráð væri unnt með frjálsum samningum að ráða deiluna til lykta þótti ríkisstjórninni nauðsynlegt og bera brýna nauðsyn til að binda endi á vinnustöðvunina og það var gert með þeim bráðabirgðalögum sem hér liggja fyrir og óskað er eftir staðfestingu Alþingis á.
    Vitaskuld er neyðarkostur að grípa til bráðabirgðalagasetningar og íhlutunar í kjarasamninga með þeim hætti. Á margt er að líta í því efni. Hér er auðvitað um að ræða mjög mikilvægan rétt samningsaðila á vinnumarkaði, að knýja fram kröfur sínar með vinnustöðvun. Á hitt er að líta að það er aldrei hægt að horfa fram hjá því að deilur sem þessar geta haft miklu mun víðtækari efnahagsleg áhrif en lýtur að deiluaðilum einum og það á auðvitað ekki síst við þegar sjávarútvegur landsmanna stöðvast, sem stendur undir 80% af gjaldeyrisöflun þjóðarinnar.
    Í annan stað þurfa menn að horfa á að það er ekki gert nema í ýtrustu neyð að taka þá ábyrgð, sem á samningsaðilum hvílir, frá þeim með lagasetningu.
    Í þriðja lagi er alveg ljóst að lagasetning getur aðeins stöðvað eða komið í veg fyrir afleiðingar vinnustöðvana, en hún leysir ekki samskiptavanda þeirra sem í hlut eiga á hverjum tíma. Því er ekki gripið til slíkra aðgerða nema mjög mikilvægir hagsmunir séu í húfi og það var samdóma álit ríkisstjórnarinnar að þeir hagsmunir væru svo ríkir í þessu efni að ekki yrði undan því vikist að grípa inn í deiluna með lagasetningu af þessu tagi.
    Lagasetningin felur ekki í sér efnislega niðurstöðu í þeim deilum sem stóðu milli útgerðarmanna og sjómanna. Að því er meginátakaefnið varðar gera lögin ráð fyrir því að sérstakri nefnd sé falið að gera tillögur til úrlausnar í því efni. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að farsælast væri að aðilar gætu sjálfir fundið lausn og mitt mat er að sá rammi sem lá til grundvallar viðræðunum á lokastigi með samstarfsnefnd eða úrskurðarnefnd og hugsanlega með kærurétti til gerðardóms, væri sá farvegur sem best væri að fella þessi mál í og líklegastur til þess að leiða ágreiningsefnin til lykta. Það er hins vegar mjög vandasamt verk að lögfesta slíkan farveg vegna þess að hann byggir í raun á samstarfi aðila og það er ekki einfalt að lögfesta samstarf eða skipa mönnum til samstarfs með lögum. Eigi að síður er ég þeirrar skoðunar að sá farvegur sem þarna var verið að ræða sé heppilegasti grundvöllur til lausnar á þeim flókna vanda sem er til staðar.
    Sú nefnd sem fékk það verkefni að skila tillögum um frambúðarlausn á þessum vanda var skipuð þremur ráðuneytisstjórum. Hefur nefndin þegar skilað tillögum af sinni hálfu og þær verið sendar til umsagnar hagsmunaaðila þessarar kjaradeilu svo og sjútvn. Alþingis. Eins og kunnugt er leggur nefndin til að

komið verði á fót sérstökum markaði þar sem mönnum verður gert skylt að fara með allt framsal á aflaheimildum í gegn. Markmiðið er að fullnægja því ákvæði laganna að koma í veg fyrir að framsal á aflaheimildum hafi með óeðlilegum hætti áhrif á kjör sjómanna og að slíta í sundur tengsl á milli framsals á aflaheimildum og viðskipta með kaup á fiski.
    Enn hafa bara borist formleg svör frá tveimur aðilum, útvegsmönnum og samtökum fiskvinnslustöðva, en við væntum svara alveg næstu daga frá öðrum hagsmunaaðilum í þessari deilu um þetta efni, en höfum heyrt af hálfu sjómanna að þeir telji lausn á þessum grundvelli ekki fullnægjandi. Endanleg afstaða af hálfu ríkisstjórnarinnar verður fyrst tekin þegar formleg svör hafa borist frá deiluaðilum.
    Það er alveg ljóst að hvað eftir annað hefur komið upp í þessum viðræðum, bæði á milli samningsaðila og eins í þeim samtölum sem þeir hafa átt við stjórnvöld, að verðmyndun á sjávarfangi skiptir hér mjög miklu máli og hvað eftir annað hefur verið bent á það af hálfu sjómanna að þeir telji lágmarksviðmiðunarverð nauðsynlegan grundvöll til úrlausnar á þeim deiluefnum sem hér eru fyrir hendi.
    Þá erum við í raun komnir að öðru atriði en beinlínis þeim ákvæðum sem lúta að framsali aflaheimilda. Það er tiltölulega skammt síðan löggjöf um verðmyndun á sjávarfangi var breytt og ákveðið að hverfa frá lágmarksverðsákvörðunum í verðlagsráði til frjálsrar verðmyndunar. En eins og menn muna var það mjög þung krafa sjómannasamtakanna að hverfa frá verðmyndun á fiski í verðlagsráði. Fyrir rúmum tveimur árum átti ég mörg samtöl við forustumenn fiskvinnslustöðvanna, sem voru mjög andvígir þeirri breytingu, til þess að þrýsta á þá að láta undan kröfum sjómanna í þessu efni og að lokum tókst samkomulag um þau atriði með því að veita eins árs aðlögunartíma að því að kröfur sjómanna um þetta efni næðu fram að ganga. Á þeirri skipan hefur verið byggt þó hún sé að sjálfsögðu ekki gallalaus, sem sést m.a. á því að mjög stór hluti okkar fiskiskipastóls er í eigu fiskvinnslustöðva. Eigi að síður var þetta mjög þung krafa, að þessi skipan mála yrði tekin upp, og hún hefur vitaskuld haft mjög víðtæk áhrif á þróun mála í íslenskum sjávarútvegi.
    Það er deginum ljósara að það viðfangsefni sem hér blasir við er margslungið og engan veginn einfalt úrlausnar. Það verður ekki afgreitt með einföldum slagorðum, það verður ekki afgreitt út í hafsauga með því að segja að fulltrúar sjómanna sem að þessum umræðum koma séu uppi í skýjunum og ekki viðræðuhæfir og það verður heldur ekki afgreitt með fullyrðingum um að öll sú þróun sem átt hefur sér stað í þessu efni lýsi einvörðungu vondum atvinnurekendum sem ætli að níðast á íslenskum sjómönnum.
    Því miður tel ég að það hafi átt sér stað atriði varðandi viðskipti með aflaheimildir og þátttöku sjómanna í þessum efnum sem brjóta í bága við gerða kjarasamninga og þá um leið lög í landinu. En vissulega er það svo að á bak við allar þessar breytingar er mikill skipulagsvandi í íslenskum sjávarútvegi sem er þörf fyrirtækja víða til aðlögunar að nýjum aðstæðum. Við búum ekki lengur við það kerfi að fiskverð sé ákveðið með miðstýrðum hætti og feli í sér að á þriggja mánaða fresti taki menn ákvörðun um fiskverð á einum stað, um verðjöfnun á öðrum stað og um gengi á þeim þriðja. Þetta er kerfi sem við höfum sagt skilið við og það hefur kallað á aðlögun sjávarútvegsfyrirtækja að nýjum aðstæðum. Víða er það svo að sjávarútvegsfyrirtæki sem hafa verið skuldum vafin hafa í aðlögun að þessum vanda selt frá sér fiskiskip að einhverjum hluta eða miklum hluta en haldið eftir aflaheimildum til þess að tryggja áfram vinnslu í viðkomandi byggðarlagi.
    Ég hygg að allir hv. alþm. hafi skilning á því að í byggðarlögum, ekki síst þar sem atvinna þorra fólks er háð afkomu eins eða tiltölulega fárra aðila, sé mikils um vert að fyrirtækin reyni að tryggja áframhaldandi atvinnu heima fyrir. Það þarf ekki að þýða að um sé að ræða óeðlilega viðleitni til þess að hafa hlut af sjómönnum. Á hinn bóginn verða menn auðvitað að skilja að sjómenn eru í erfiðri aðstöðu og það er ekki vandalaust fyrir þá að horfa upp á það að fiskverð sé jafnmismunandi og það er í landinu, m.a. eftir því hver aðstaða fyrirtækjanna er frá einni byggð til annarrar. Þess vegna er það mín skoðun að menn verði að gera sér grein fyrir því flókna og erfiða baksviði sem liggur til grundvallar þessari deilu og að einföld slagorð leysa engan vanda í þessu efni. Auðvitað væri mikilvægast að reyna að leiða aðila sjálfa til sátta um úrlausn á þessum viðfangsefnum því við getum ekki horft fram hjá því að hér er um vanda að ræða og við þurfum að finna á honum lausn.
    Ég vona að það starf sem aðilar hófu sjálfir í viðræðum sín á milli, þó það hafi ekki borið ávöxt, og það framlag sem ráðuneytisstjóranefndin hefur átt með þeim hugmyndum sem hún hefur lagt fram, þó þær hafi mætt mikilli andstöðu, varpi skýrara ljósi en áður á þann vanda sem við er að etja og að við berum gæfu til að finna ásættanlega lausn sem sættir sjómenn við sinn hlut og tryggir eðlilegt svigrúm fiskvinnslufyrirtækjanna til þess að takast á við þann mikla vanda sem þau standa frammi fyrir. En það breytir ekki þeirri niðurstöðu að það var mat ríkisstjórnarinnar að óhjákvæmilegt væri að binda endi á þá vinnustöðvun sem hafin var vegna þess að menn sáu ekki fram á að í bráð yrði hún leyst við samningaborðið. Því voru þessi bráðabirgðalög sett og hér óskað eftir staðfestingu Alþingis á þeim.
    ( Forseti (SalÞ) : Á ekki að vísa til nefndar?)
    Frú forseti. Það er rétt athugasemd að á miklu veltur að málið fá vandaða meðferð og því rétt að leggja til að því sé ekki aðeins vísað til 2. umr. heldur líka hv. sjútvn.