Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 17:03:00 (3385)


[17:03]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson lýsti undrun sinni yfir því að þingmenn hefðu lýst sig reiðubúna til að afgreiða þetta mál með skjótum hætti hér á Alþingi. Ef hv. þm. á við þau orð sem ég lét falla um þetta atriði, þá vil ég að gefnu tilefni rifja þau upp, en ég sagði:
    ,,Öll rök hnigu í þá átt að kalla ætti Alþingi saman til fundar, enda hefði það átt að vera komið til starfa samkvæmt starfsáætlun þingsins þann 17. janúar. Það lá fyrir að stjórnarandstaðan var tilbúin að mæta til þings og reyndar lýsti því yfir að hún teldi það eðlilegan framgangsmáta eins og málin stóðu þá. Ég trúi því að Alþingi hefði sýnt þá ábyrgð að afgreiða þetta mál á eðlilegan og lýðræðislegan hátt á ekki löngum tíma. Setning bráðabirgðalaganna er neyðarúrræði. Það á ekki að grípa þeirra til nema þegar öll sund virðast lokuð.``
    Þetta voru mín orð. Það hvarflar ekki að mér annað heldur en þingið hefði tekið sér þann tíma sem það eðlilega hefði þurft til að fjalla um þetta mál og eðlilega hefði það átt að fara til sjútvn. og síðan hér til umræðu í þinginu. En þá hefði reynt á þingmenn stjórnarliðanna sem eru að gefa yfirlýsingar úti í bæ, í bak og fyrir um afstöðu sína til þessara mála. Þá hefði líka reynt á þá í atkvæðagreiðslu, að greiða þá atkvæði eins og þeir eru að gefa yfirlýsingar um úti í bæ. Það er kjarni málsins og orðið tímabært að þeir sjálfstæðismenn og alþýðuflokksmenn sem sí og æ eru að lýsa yfir andstöðu sinni við stefnu og gerðir þessarar ríkisstjórnar en þegar þeir hafa réttinn til þess að nota atkvæðisréttinn og beita honum hér, geri það þá í samræmi við þann málflutning sem þeir hafa þegar þeir tala til umbjóðenda sinna úti í bæ.