Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 18:59:38 (3408)


[18:59]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir þá kröfu hv. 8. þm. Reykn. að nú verði þessari umræðu frestað þannig að hægt verði að ganga úr skugga um það á hvern hátt ríkisstjórnin taldi sig hafa ástæðu til að ætla að það væri þingmeirihluti fyrir þessari lagasetningu. Hæstv. sjútvrh. sagði hér áðan að þetta stæðist allt saman stjórnarskrána. Það má vel vera, en ég stend nú í þeirri trú að hér sé verið að brjóta í blað hvað snertir vinnubrögð við setningu bráðabirgðalaga og það sé ekki einungis svo að núv. hæstv. ríkisstjórn telji sig ekkert þurfa að breyta þar um þrátt fyrir breytingar á þingsköpum, heldur virðist hún telja að hún geti farið frjálslegar með bráðabirgðalagaákvæðið heldur en var hefð fyrir áður en þó átti að þrengja þetta ákvæði. Ég vil því fara fram á það og taka undir það að umræðunni verði frestað þannig að hægt verði að ræða þetta við þá aðila sem hv. 8. þm. Reykn. nefndi hér áðan. Mér sýnist að hér séu mál svo komin að það sé komin röðin að mér í þingflokksstjórn Framsfl. að standa vaktina og tel mig þess vegna geta borið fram þessa ósk fyrir hönd þingflokks Framsfl.