Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 20:43:29 (3424)


[20:43]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (um fundarstjórn) :
    Frú forseti. Hér hafa tveir hv. þm. borið þá alvarlegu ásökun fram að forseta Íslands hafi verið sagt ósatt. Það er auðvitað fullkomlega órökstutt og fram borið á ósmekklegan hátt. ( ÓRG: Ræða Geirs Haarde staðfestir það.) Það er ein aðferð til þess að skera úr í þessu máli og það er að ganga til atkvæða um þetta frv. Það stendur ekkert á ríkisstjórninni að hraða meðferð málsins svo sem nokkur kostur er og af hennar hálfu er ekkert því til fyrirstöðu að málið fái svo skjóta meðferð að menn geti tekið afstöðu til málsins á morgun og þá kemur þetta í ljós. Af ríkisstjórnarinnar hálfu er ekkert því til fyrirstöðu að leiða þetta í ljós þegar í stað með skjótum vinnubrögðum af þessum hætti og þá fá menn að sjá hvað er satt og rétt í þessu máli og þurfa ekki að vera með meira orðaskak um þetta efni. (Gripið fram í.) Ég vænti þess að hv. þm. sem hér hafa borið fram þessar þungu ásakanir setji sig ekki upp á móti því að vilji þingsins komi þegar í stað í ljós í þessu efni.