Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 21:37:29 (3443)


[21:37]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er gott að samstarf eigi sér stað í fullri vinsemd og það er gott að það skuli skapast aðstæður til þess að takast á við hin erfiðustu mál í vinsemd vegna þess að þegar starfað er saman í vinsemd þá eru meiri líkur á að niðurstaða verði ásættanleg.
    En þetta virðist allt saman koma hv. þm. Stefáni Guðmundssyni mjög á óvart. Í raun og veru er hann ekki að upplýsa um annað en að þegar hans flokkur sat í ríkisstjórn þá hafi þau vinnubrögð verið tíðkuð að þar hafi raunverulega starfað tveir flokkar, annars vegar ráðherraflokkurinn og hins vegar hinir almennu þingmenn. Og þetta vekur aftur upp spurninguna um það hvort það var yfir höfuð haft samband við almenna þingmenn hv. þm. Framsfl. 8. eða 9. maí árið 1986 þegar þá voru gefin út bráðabirgðalög. Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað. ( StG: Henni hefur . . .  ) Ekki að öðru leyti en því að hér hefur hv. þm. Stefán Guðmundsson lýst yfir undrun sinni, lýst yfir undrun sinni yfir því að það voru höfð samráð innan Alþfl. um undirbúning þessa máls. ( StG: Þannig að þú vannst . . .  ) Hér virðast einhverjir falskir tónar hljóma samanborið við þá umræðu sem fór fram áðan þegar hv. þm. Stefáni Guðmundssyni kemur það á óvart að það skuli eiga sér stað samráð í Alþfl. þegar um svo mikið verkefni er að ræða að gefa út bráðabirgðalög. ( StG: Þingmaðurinn sagðist hafa unnið að lagasmíðinni.) Og það er gott til þess að vita að um leið og lögum var breytt árið 1991 að þá skyldi einnig á sama tíma fara fram mjög mikilvæg pólitísk hugarfarsbreyting, afstöðubreyting í Framsfl. í afstöðu til bráðabirgðalaga.