[14:59]
     Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum lið einfaldlega vegna þess að í síðustu ræðu sinni hér sagði hæstv. fjmrh. að við hefðum beðið um þá stjórn á fundum þingsins að það yrði rætt í gær um bráðabirgðalögin. Að stjórnarandstaðan hefði borið fram þá kröfu og bón. Þetta er ekki rétt. Við fórum fram á það margir hér í þinginu að þetta mál yrði rætt á undan frv. til laga um breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða. Það var engin krafa um það að umræðurnar færu fram í gær. Ef forseti hefði kosið að haga því þannig þá hefðu þær umræður getað farið fram síðar. Og ég held að það sé mjög nauðsynlegt að það komist skýrt til skila að það var ekki vegna kröfu stjórnarandstöðunnar að umræðurnar fóru fram og voru settar á þennan tíma, þ.e. í gær og það þyrfti þess vegna til þess afbrigði. Hins vegar féllumst við á það vegna þess að það var komið til móts við okkur í því að ræða það mál á undan breytingalögunum um stjórn fiskveiða.