Lögskráning sjómanna

77. fundur
Miðvikudaginn 26. janúar 1994, kl. 15:20:56 (3508)

[15:20]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Í gærkvöld lögðum við þingmenn stjórnarandstöðunnar og þingflokkar stjórnarandstæðinga mikla áherslu á það að umræðunni um bráðabirgðarlögin yrði haldið áfram. Á mínum þingferli man ég aldrei eftir því að stjórnarandstöðuþingflokkum hafi verið neitað um framhald fundar og framhald umræðu með þeim hætti sem gerðist í gærkvöld nema auðvitað við lok þingsins eða rétt fyrir hátíðar. En í upphafi þings á fyrsta eða öðrum umræðudegi mála hygg ég að þess séu engin dæmi. Ég tel því að það að kalla þetta gerræði sé síst of í lagt miðað við þá reynslu sem við höfum af störfum Alþingis á undanförnum árum.
    Hitt er þó kannski sýnu verra að í umræðunni í gærkvöld bar hæstv. sjútvrh. í þrígang lygar og ósannindi á þann sem hér stendur. Hann hélt því fram að þær upplýsingar sem ég hefði um lögskráningu sjómanna í aðdraganda setningar bráðabirgðalaganna væru ósannar.
    Nú vill svo til að strax og þessari umræðu lauk í gærkvöld þá hafði ég samband við forustumenn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, formann reyndar, formann Sjómannasambands Íslands og formann Sjómannafélagsins í Vestmannaeyjum. Og samkvæmt upplýsingum sem ég fékk í hendurnar skriflega frá þessum aðilum í morgun þá kemur það fram að lögskráning í Vestmannaeyjum . . .
    ( Forseti: Forseti verður að trufla mál hv. þm. og biðja hann um að koma að efni málsins sem fjallar um fundarstjórn forseta.)
    Já, nákvæmlega. Ég finn að því, hæstv. forseti, að forsetinn skuli ekki hafa lagst á sveif með lýðræðinu til að halda þeim umræðum áfram sem ég er hér að hefja á ný vegna þess áburðar sem á mig hefur verið borinn. Ég tel að forseti eigi ekki aðeins að vera forseti meiri hlutans og ríkisstjórnarinnar heldur okkar líka.
    Ég er hér með í höndum, hæstv. forseti, upplýsingar frá lögskráningunni í Vestmannaeyjum, sem kom á faxi frá Sjómannafélaginu Jötni til verkfallsnefndar sjómannasamtakanna kl. 17.00, um lögskráningu á tiltekið skip mörgum klukkustundum áður en bráðabirgðalögin voru sett. Og ég er hér, hæstv. forseti, með upplýsingar um lögskráningu á Ófeig VE 324 sem kom líka á faxi frá Sjómannafélaginu Jötni í Vestmannaeyjum kl. 18.00 til verkfallsnefndar sjómannasamtakanna eða mörgum klukkustundum áður en bráðabirgðalögin voru sett.
    Ég tel, hæstv. forseti, að þessar upplýsingar hafi verið rök fyrir því að halda málinu áfram því að þarna er í skjóli dómsmrn. eða embættismanna þess eða lögskráningarskrifstofanna verið að framkvæma verkfallsbrot. Það er verið að brjóta á bak aftur áður en bráðabirgðalögin eru sett löglegt verkfall. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum og ég skora á hæstv. dómsmrh. að svara nú fyrir sig og biðja þann þingmann sem hér stendur afsökunar á lygabrigslunum sem hann flutti úr þessum ræðustól í gærkvöldi.