Viðhald húsa í einkaeign

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 15:40:57 (3588)


[15:40]
     Fyrirspyrjandi (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir greinargóð svör og tel að beiðni hv. formanns iðnn. sé eðlileg. Það er eflaust hægt að ráða ýmislegt út úr þessum tölum sem gæti komið að gagni. Ég vil hins vegar taka fram að mér sýnast þessar upplýsingar benda eindregið til þess að þarna sé um mjög viðamikið verkefni að ræða. Og ef þær upplýsingar eru réttar sem ég gat um hér áðan og tók upp úr könnun á viðhorfi þeirra stétta sem fást við þessi verkefni, að þar væri um verulega vanrækslu að ræða, þá hefði ég mikinn áhuga á að það yrði skoðað með hvaða hætti væri hægt að örva þessa starfsemi, hugsanlega með breytingum á skattalögum. Svo virðist sem endurgreiðsla virðisaukaskatts af viðhaldsframkvæmdum hafi ekki

orðið sá hvati sem vænst var til þess að þessar framkvæmdir færu fram fyrir opnum tjöldum. Ég held að það sé því ástæða til þess að skoða rækilega hvort ekki er hægt að örva byggingariðnaðinn til þess að taka á þessu mikla vandamáli sem viðhaldsverkefnið er, sem eflaust skiptir tugum milljarða að stærð og leita þar með leiða til þess að bæta stöðuna í verkefnum byggingariðnaðarins.