Tengsl aðila við björgunaraðgerðir hérlendis

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 16:12:43 (3603)


[16:12]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það er rétt að taka fram að þegar óskað er eftir aðstoð björgunarsveitar varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli þá gerist það fyrir milligöngu Landhelgisgæslunnar og ég held að það tryggi öruggari samskipti á milli og komi í veg fyrir misskilning sem upp getur komið ef boðleiðir í því efni eru flóknari eða fara um fleiri hendur.
    Hvað varðar þær almennu reglur sem farið er eftir í þessum tilvikum þá segir í þeim að Landhelgisgæsla Íslands og Slysvarnafélag Íslands reki hvort fyrir sig sjóbjörgunarstöð. Þau fara með stjórn leitar- og björgunaraðgerða, hvort á sínu svæði, samkvæmt nánari ákvæðum. Umráðasvæði stjórnstöðvanna afmarkast þannig að stjórnstöð Slysavarnafélagsins annast aðgerðastjórn meðfram strönd landsins og á svæðum næst henni, en stjórnstöð Landhelgisgæslunnar annast aðgerðastjórn á hafinu þar fyrir utan.
    Þegar stjórnstöð Landhelgisgæslunnar eða Slysavarnafélagsins berst neyðartilkynning skal hún tafarlaust hefja aðgerðir á sínu umráðasvæði eftir því sem við á og gera hinni viðvart. Hvor stjórnstöð um sig skal jafnan láta hina fylgjast grannt með öllum aðgerðum sem hún stjórnar. Jafnframt skal tilkynna hlutaðeigandi lögreglustjóra um atvik.
    Í þessu sambandi er svo rétt að hafa í huga, eins og reyndar kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda, að samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið frá Landhelgisgæslunni þá mun tíðnisvið senditækja björgunarþyrlna varnarliðsins vera með þeim hætti að þyrlurnar eiga í erfiðleikum með að ná fjarskiptasambandi við björgunarsveitir á landi, en geta náð sambandi við þau skip sem í hlut eiga. Því hafa tíðast farið fram skilaboð þarna á milli fyrir milligöngu Landhelgisgæslunnar samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið.
    Yfirstjórn leitar og björgunar hefur ákveðið að taka þetta mál til sérstakrar athugunar því augljóst má vera að gera þarf ráðstafanir til þess að bæta úr í þessu efni þannig að fjarskipti geti farið milliliðalaust á milli björgunarþyrlna varnarliðsins og þeirra björgunarsveita sem í hlut eiga.
    Mér er ekki kunnugt um að nokkuð hafi komið fram í því máli sem hér er sérstaklega gert að umtalsefni sem leiði til þess að gera þurfi breytingar á kerfi Almannavarna. Ég minni á að forstjóri Landhelgisgæslunnar er jafnframt formaður almannavarnaráðs og það kom ekki til álita, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, að kalla Almannavarnir til í þessu tilviki eða hefja framkvæmd samkvæmt þeirra kerfi.