Innflutningur á landbúnaðarvörum

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 13:36:11 (3621)

[13:36]

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég sé hér að þeir sitja mér á hægri hönd sem mestu ráða um þessar mundir í landbúnaðarmálum, hæstv. ráðherra Jón Baldvin Hannibalsson og hæstv. ráðherra Halldór Blöndal. Því vil ég inna forseta eftir því hvernig horfir með það frv. sem hefur verið boðað af ríkisstjórninni um breytingu varðandi innflutning á landbúnaðarvörum og eins hitt hvort það hafi verið rætt í forsætisnefnd að flýta því frv. sem ég og hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson höfum lagt fram og að það geti komið til umræðu helst á morgun vegna þeirrar óvissu sem ríkir.
    Nú er það ljóst að kalkúnalæri munu vera á leiðinni, réttaróvissan er mikil og deiluefnin næg á milli ráðherranna í ríkisstjórninni til að verða sér til skammar eins og gerðist á liðnu sumri.
    Hæstv. forsrh. ber ekki meiri virðingu fyrir þessu en svo að hann hefur látið þau orð falla --- segir það að vísu í gríni --- að hér sé um hreinan tittlingaskít að ræða. Þó er hér um réttaróvissu að ræða sem veldur öðrum aðalatvinnuvegi Íslendinga, landbúnaðinum og úrvinnslugreinum hans, mikilli óvissu um þessar mundir. Þess vegna ítreka ég spurningu mínar til hæstv. forseta. Hér sitja þeir sem geta skýrt frá hvort stjórnarflokkarnir hafa náð saman um það sem þeim hefur verið falið og hvernig það frv. eigi að líta út sem hér eigi að koma eða hvort það eigi hreint ekki að sjást hér í vetur.
    Þingið hlýtur að spyrja eftir þessu því í þessum efnum er einn vilji í þinginu um að réttaróvissunni verði eytt.