Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 16:48:34 (3666)


[16:48]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir spyr hvar það sé að finna í þessu frv. hvernig lækka eigi kostnað við lyfin. Mestur partur minnar ræðu fór nú raunar í að gera grein fyrir því. Í fyrsta lagi er það á innflutningsstiginu með hliðstæðum innflutningi. Í annan stað með heilbrigðum viðskiptaháttum milli heildsala og smásala. Í þriðja lagi í samkeppni að hluta til hvað varðar lausasölulyf á smásölustiginu.
    Ég lýsti því mjög skilmerkilega áðan að minni hyggju og það er náttúrlega mitt prívat mat að mér finnst álagning vera vel í lögð. Ég horfi líka til þess og sé ekkert að því að menn lækki tilkostnað án þess að slaka neitt á öryggi við stofnun lyfjaverslana. Ég held að það sé mjög gerlegt.
    Fyrir hverja er verið að bæta aðgengi lyfja? Það var akkúrat. Fyrir kaupendurna, fyrir sjúklinga, fyrir þá sem á þeim þurfa að halda.