Hafnalög

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 15:59:21 (3734)


[15:59]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég verð að taka það fram í upphafi að ég var eiginlega hissa á því eftir því sem leið á ræðu hv. þm. hversu jákvæð hún var miðað við það sem venjan er til ef ég flyt hér frv. og virtist mér sem það væri kannski einhver stafur nýtilegur í frv. eftir ræðuna.
    Mér finnst í fyrsta lagi athyglisvert að þingmaður Vestfirðinga skuli amast við því að ríkisvaldið skuli koma duglega til móts við þær hafnir sem þurfa á ytri hafnarmannvirkjum að halda. Það er svo að ég er hér með skýrslu samgrh. um hafnarframkvæmdir fyrir árið 1992. Þar er talað um að lokið hafi verið við byggingu fyrsta áfanga brimvarnargarðs við Brjót. Verkið var boðið út í árslok 1991 og þá var samið við lægstbjóðanda, Gunnar og Guðmund. Verkið hófst í maí og því lauk í nóvember. Samtals voru fluttir í garðinn 82 þús. rúmmetrar af grjóti og kjarna auk þess var framleitt grjótefni á lager um 43 rúmmetrar. Framkvæmdakostnaður var 96,2 millj. kr.
    Ég veit ekki hvort hv. þm. er það kunnugt en skýringin á því hversu rík áhersla hefur verið lögð á hafnarframkvæmdir er einmitt aðstæður eins og í Bolungarvík til þess að koma til móts við þá sjósóknara sem þar eru. Miklir baráttumenn fyrir þessu viðhorfi hér á Alþingi voru menn eins og Sigurður Bjarnason, menn eins og Gísli Jónsson, sem kenndur var við Bíldudal og jafnvel Hannibal. Þannig að þetta er alls ekki nýtt af nálinni heldur hefur þetta verið talið myndarlegt af hálfu alþingismanna að koma til móts við duglega sjósóknara að þessu leyti til að draga úr slysahættu og til að örva byggð út á landi.
    Ég vil gera þessa athugasemd við þetta sérstaka gagnrýnisatriði hv. þm. þar sem nýbúið er að halda veglega veislu og fagna því sérstaklega í Bolungarvík að ytri hafnarmannvirkjum þar skuli lokið.