Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1992

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 12:08:40 (3749)


[12:08]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það hefur greinilega komið fram í þessum umræðum og ekki hvað síst í máli hv. frsm. að sá farvegur sem skýrslur Ríkisendurskoðunar þurfa að hafa í gegnum þingið, gegnum nefndir og inn í þingið þannig að þær ábendingar sem þar koma fram skili sér, er ekki nægilega skilgreindur. Hann hefur ekki verið það og það er auðvitað gott til þess að vita að verið sé að ræða það núna í forsætisnefnd og Ríkisendurskoðun og hjá yfirskoðunarmönnum, en hv. þm. gegnir einnig því embætti. Það er mjög gott til þess að vita að verið sé að reyna að finna einhvern farveg fyrir þetta. Skýrslur um framkvæmd fjárlaga eru auðvitað ræddar í tengslum við ríkisreikning og skýrsla Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna um viðkomandi reikning er þar rædd líka og oft og tíðum teknar þá mjög vel í gegn þær ábendingar, en því miður hefur samt oft verið þannig að þegar verið er að ræða hér ríkisreikning, þá eru mjög fáir þingmenn sem hafa sýnt því áhuga og fylgst með og er leitt til þess að vita. En ég held að það þurfi að finna þessu betri farveg og það eru t.d. ýmsar skýrslur frá síðasta ári sem ég veit ekki til að hafi enn þá verið vísað til þingnefnda. Það þarf einnig að ákveða með hvaða hætti þær ljúka sínum störfum um þá skoðun sem þær framkvæma um skýrsluna, hvort þær vísa því þá til umræðu í þinginu sem ég teldi mjög eðlilegt ef þingnefndirnar komast að þeirri niðurstöðu að þetta sé þörf skýrsla sem þurfi að ræða, virkilega þarfar ábendingar til þingmanna, þá komi þessar skýrslur til umræðu, ekki bara í nefndum heldur einnig í þinginu.