Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 14:30:12 (3763)


[14:30]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra segir að það sé ekki frá tíð þessarar ríkisstjórnar sem það liggi fyrir óvissa um búvörulögin. Það má rétt vera en ég vil benda hæstv. ráðherra á það að þegar ný innflutningslög voru samþykkt á haustdögum 1992, þá lá það ljóst fyrir að það yrði að skoða nánar hvort búvörulögin héldu, hvort 52. gr. héldi sjálfstætt varðandi innflutning búvara. Og til þess að hressa upp á minni ráðherrans þá ætla ég, með leyfi forseta, að lesa hér eina setningu upp úr greinargerð með frv. til laga um breytingu á búvörulögum sem ríkisstjórnin lagði fram á síðasta vetri og allt strandaði hér á í þinghaldinu í vor. En þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Eftir gildistöku laga nr. 88 17. nóvember 1992, um innflutning, er nauðsynlegt að skilgreina upp á nýtt forræði fyrir innflutningi búvara.``
    Þetta vissi ríkisstjórnin og setti inn í lagafrv. á vorþinginu 1993. En hæstv. forsrh. sleit þingi áður en hægt var að hrinda þessari breytingu í framkvæmd þannig að það lá alveg ljóst fyrir að þarna var um að ræða óvissu vegna lagasetningar í tíð þessarar ríkisstjórnar sem varð að eyða.
    Það liggur einnig fyrir að frv. þess eðlis var tilbúið í ráðuneytinu og dagsett 8. sept. í haust. En það kom ekki inn í þingið fyrr en laust fyrir 20. des. Hvað tafði? Menn vissu að það þyrfti að taka á þessu en einhverra hluta vegna hefur ríkisstjórnin ekki komið þessum málum frá sér frekar en öðrum í þessum málaflokki.