Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 16:54:55 (3798)


[16:54]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja að spyrja að því hvort ríkisstjórnin sé alveg horfin af vettvangi til þess að fjalla um þessi mál. Hér hafa setið nokkuð við í dag tveir hæstv. ráðherrar, hæstv. utanrrh. og hæstv. landbrh., en nú er hvorugur þeirra í salnum. Mér finnst hálferfitt að ræða þetta mál án þess að fulltrúi ríkisstjórnarinnar sé hér við og helst auðvitað fulltrúar hinna stríðandi afla innan ríkisstjórnarinnar. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort þeir séu ekki í húsinu.
    ( Forseti (KE): Hæstv. landbrh. hefur brugðið sér úr sal. Forseti skal gera ráðstafanir til að kallað verði á hann en upplýst skal að hæstv. utanrrh. er ekki í húsinu.)
    Hæstv. forseti. Ég sagði í upphafi ræðu minnar þegar ég tók til máls eftir framsöguræðu hæstv. landbrh. við frv. sem lagt var fram hér fyrir jólin um breytingar á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum að það hlytu að vera þung spor fyrir hæstv. ráðherra að koma með það frv. upp því að þó að þar sé í upphafi sett fram ákvæði sem annaðhvort við vorum neydd til að lögtaka eða voru jákvæð, þá var síðan í næstu setningum tekið brott það sem jákvætt var, þ.e. forræði landbrh. á þessum málefnum þar sem þriggja manna nefnd ráðuneyta var látin taka af honum völdin og fjalla um málið og hafa það sterkt vald að hann varð að skjóta málinu til ríkisstjórnar ef einhver nefndarmanna, þessara starfsmanna ráðuneytanna hinna, gerði athugasemdir við hans tillögu.
    En þó held ég að steininn taki úr í sambandi við það frv. sem við erum nú hér að ræða. Við heyrðum það í fréttum eftir að dómur Hæstaréttar féll og hæstv. ráðherrar höfðu gefið nokkrar yfirlýsingar að þá væri farið að vinna að nýju frv. En það frv. var ekki unnið í landbrn. Það frv. var sagt vera í vinnslu hjá þremur öðrum ráðuneytum og öllu skýrara dæmi um það hvar frumkvæðið í landbúnaðarmálum raunverulega liggur orðið heldur en slík frétt. Ég held að það sé erfitt að hafa þá mynd öllu skýrari. En því miður er það svo að það er ekki aðeins undirbúningurinn að því og hvernig að því er unnið, heldur er það einnig efni þess. Hér er verið að setja fram takmarkandi heimildir. Það er verið að negla það niður með þeim viðauka sem fylgir þessu frv. að vald hæstv. landbrh. um landbúnaðarmál nái hingað og ekki lengra. Með því að telja upp ákveðin númer í tollskrá sem síðan er á valdi hæstv. fjmrh. að breyta meira og minna, hann getur gert ýmsar efnislegar breytingar á, þar með er auðvitað vald hæstv. landbrh. orðið heldur takmarkað.
    Undirbúningur þessa máls og niðurstaða er slík að það er að sjálfsögðu algerlega orðið óviðunandi. Það hlýtur að vera algerlega óviðunandi vinnuaðstaða fyrir starfsfólk landbrn. að verða að hlíta því að frumkvæði og forræði að breytingum á landbúnaðarlöggjöf skuli vera hjá öðrum ráðuneytum. Og miðað við þau stóru orð sem hv. 3. þm. Austurl. hafði í lok ræðu sinnar hér áðan þá vildi ég beina því til hans, því miður er hann farinn úr salnum, ég vil beina því til hans að taka þetta atriði mjög vel til athugunar í meðferð málsins í landbn., hvernig raunveruleg staða landbrn. er orðin í landbúnaðarmálunum, sífellt varnarstríð þeirra eins og við höfum orðið glöggt varir við í sambandi við samningagerð á erlendum vettvangi þar sem nágrannaþjóðir okkar undrast það hvernig samningamenn utanrrn. halda á málstað Íslendinga þegar kemur að landbúnaðarmálum. Hér er um svo alvarlegt málefni að ræða að ég held að landbn. verði að kryfja það rækilega til mergjar við meðferð sína á þessu máli og sannarlega að gefnu tilefni.
    Hæstv. landbrh. sagði að vonandi færi samþykkt þessa frv. að veita honum starfsfrið til þess að vinna að þörfum málum, eins og hæstv. ráðherra orðaði eitthvað á þá leið að gæfist tóm til að ræða aðra þætti landbúnaðarmála. Það er heldur dapurleg viðurkenning á starfi hæstv. landbrh. að hann skuli telja að hans starfsorka hingað til hafi farið í heldur gagnslitla hluti.
    En er stríðinu lokið, þessu innbyrðis stríði sem hæstv. ráðherra segir að hafi staðið í ríkisstjórninni? Það hefur komið fram, m.a. í máli hans að það þurfi að breyta þessum lögum einu sinni enn áður en GATT-samningur gengur í gildi um næstu áramót og hæstv. utanrrh. eða þeir báðir töluðu þar um 11 mánaða tímabil. Á því tímabili á að breyta þessum lögum eitthvað í samræmi við það sem ríkisstjórnin telur nauðsynlegt og á því að skilja þann frið sem hæstv. landbrh. telur að nú muni verða þannig að hann ætli ekkert að sinna þessum málum eða á að skilja það svo að hann sé sammála orðum hæstv. utanrrh. hér áðan þar sem hann sagði um jöfnunargjöld að vitanlega væri það hæstv. fjmrh. sem hefði forræði á þeim en ekki hæstv. landbrh.? Er hæstv. landbrh. búinn að gefa það frá sér að hafa áhrif á álagningu verðjöfnunargjalda samkvæmt GATT-samningnum? Af orðum hæstv. utanrrh. var ekki hægt að skilja annað en það væri svo sjálfsagður og frágenginn hlutur að hæstv. fjmrh. fjallaði um það.
    Hér er vissulega um merkileg tíðindi að ræða. En ef hæstv. landbrh. ætlar að reyna að klóra í bakkann og hafa þarna einhver áhrif þá er alveg ljóst að það getur ekki orðið friður á þessu 11 mánaða tímabili innan ríkisstjórnarinnar. Svo afdráttarlaus voru orð hæstv. utanrrh. áðan um það málefni. Og það er kannski þess vegna sem hæstv. landbrh. rak eiginlega upp neyðaróp í sinni framsöguræðu þar sem hann

sagði eitthvað á þá leið að landbn. yrði að skoða málið vel svo að tryggt sé að vilji Alþingis komi skýrt fram. Hér er brýning til þingmanna stjórnarliðsins, ég get ekki skilið það öðruvísi, mjög hörð brýning til þingmanna stjórnarliðsins, að láta nú samvisku sína koma fram og hlýða ekki því sem að þeim er rétt. Og ég vonast til þess að stóru orð hv. formanns landbn. sem hann viðhafði áðan um það hvað hann ætlaði að gera rætist svo að fast verði á málunum tekið.
    Ég skal ekki eyða fleiri orðum um þetta atriði. Það hafa aðrir komið hér á undan og lagt áherslu á það í hversu mikilli óvissu málin verða skilin eftir þrátt fyrir þetta frv. að ýmsu leyti og hv. 3. þm. Austurl. benti á að það þyrfti að skoða saman þetta frv. og 72. gr., þá sem samþykkt var fyrir jólin. En þar segir í upphafi, með leyfi forseta:
    ,,Þrátt fyrir önnur ákvæði laga þessara veitir landbrh. heimild til innflutnings á landbúnaðarvörum í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að.``
    Þetta ákvæði kastar í burtu öllu sem er í þessu frv. að því er varðar það sem snertir fríverslunar- og milliríkjasamninga og ég held að þetta atriði þurfi að skoða mjög vel. Það var þetta efni sem hv. 18. þm. Reykv., Kristín Ástgeirsdóttir, talaði um að ekki væri gert ráð fyrir samráði við hagsmunaaðila, þ.e. bændasamtökin eða Framleiðsluráð, ekki í sambandi við innflutning hvað þetta varðar því að þessi grein þurrkar út öll fyrri ákvæði sem varða innflutning alveg afdráttarlaust.
    En mig langar aðeins að spyrja hæstv. landbrh.: Hvert verður svo framhaldið af þessu þegar hann fer að gefa út þær takmörkuðu reglugerðir sem hann má gefa út? Hv. 3. þm. Austurl. sagði að hann væri ekki ánægður með það hvernig fór eftir áramótin þegar hæstv. landbrh. gaf út reglugerð þar sem aðeins voru 10 tollnúmer í sambandi við innflutning á vörum með landbúnaðarhráefni. En hæstv. fjmrh. gaf út reglugerð um sama efni með 36 tollnúmerum. Þannig var nú hlutskipti hæstv. landbrh. um þetta efni. En hvað verður um þessar reglugerðir? Þurfum við svo að senda þær reglugerðir sem snerta samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og tengisamninga hans til Brussel og fá þær staðfestar þar eða uppáskrifaðar? Hvaða ákvæði eru í gildi um það? Hver er tilkynningarskyldan til Brussel í þessum málum? Það er ákvæði um það í samningnum. Nær hún til þessara reglugerða?
    Það hefur komið fram áður að 400 lagabreytingar hafa verið gerðar hjá Evrópubandalaginu síðan 1. júlí 1991 fram til síðustu áramóta þegar samningurinn tók gildi. Hvað mörg þessara mála snerta landbúnaðinn? Veit hæstv. landbrh. það? Eru það einhver ný atriði, sem þar koma inn í og geta haft áhrif á afstöðu til þessa samnings? Ef hæstv. landbrh. getur ekki svarað þessu hér þá vænti ég að hv. landbn. muni taka þau til skoðunar.
    Ég vil því vona það að hv. 3. þm. Austurl., formaður landbn., láti þau orð sín rætast sem hann sagði hér áðan að hann ætli að skoða þetta mál rækilega og betrumbæta í landbn. og þá þarf sannarlega að taka vel til hendinni til þess að ná því markmiði og skapa landbúnaðinum og landbrn. og hæstv. landbrh. viðunandi stöðu.