Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 17:19:58 (3803)


[17:19]
     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Öllum er kunnur sá ágreiningur á Alþingi og í ríkisstjórn undanfarnar vikur og mánuði sem staðið hefur við að gera tilraunir til að breyta búvörulögum og færa forræði þessara mála til landbrh. ( Gripið fram í: Utanrrh.) Ekki verður þó hjá því komist að koma aðeins að þessari sögu.
    Við afgreiðslu búvörulaga á vordögum 1993 náði mikill meiri hluti landbn. saman um brtt. við lögin og var hún lögð fram. Að henni stóðu þeir hv. þingmenn Egill Jónsson, Einar K. Guðfinnsson, Árni Ragnar Árnason, Össur Skarphéðinsson, Guðni Ágústsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson og sá sem hér stendur, en þeir þrír síðasttöldu skrifuðu undir nefndarálitið með fyrirvara.
    Hér var um óvenjulegan stuðning við brtt. að ræða þar sem sjö af níu nefndarmönnum stóðu að henni. Mátti því reikna með að hún hefði greiðan byr í gegnum Alþingi. Ekki kom þó til þess að á það reyndi því Alþingi var slitið áður en til atkvæða kom.

    Önnur tilraun var gerð í þessum efnum fyrir síðustu jól. Var það frv. afgreitt með atkvæðum allra stjórnarsinna en með hjásetu stjórnarandstöðu. Mér þykir hlýða þegar við stöndum hér rúmum mánuði síðar í sömu sporum og fyrir jólin að vitna til orða minna við þá umræðu, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á fundi í landbn. sem haldinn var laugardaginn 18. des. sl. voru kallaðir til sérfræðingar til að túlka ákvæði frv. um forræðisrétt landbrh. yfir innflutningi erlendra búvara og álagningu verðjöfnunargjalda. Skýrt var tekið fram af Sigurði Líndal prófessor að landbrh. hafi full yfirráð þessara mála þrátt fyrir ákvæði laganna um eftirlitsnefnd kratanna og um að málið komi að síðustu fyrir ríkisstjórn ef ágreiningur er.``
    Og enn fremur: ,,Til að skýra heimild landbrh. til að leggja á verðjöfnunargjöld samkvæmt 1. gr. lagafrv., fékk landbn. Svein Snorrason hrl. Hans niðurstaða er sú að verði lagafrv. þetta að lögum heimili það landbrh. að leggja jöfnunargjöld á allar landbúnaðarvörur sem innfluttar kunna að verða með hemild í ákvæðum fríverslunar- og milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að án undantekninga. Það á við unnar sem óunnar landbúnaðarvörur hvort sem um er að ræða í líkjaformi, svo sem smjörlíki, ostlíki eða aðrar sem falla í tollflokka í köflum 1--24 í tollskrá að undanteknum fiski og fiskafurðum.``
    Enn fremur sagði ég: ,,Vegna þessa ágreinings sem búinn er að vera um þetta mál allt frá því að það var tekið á dagskrá á hv. Alþingi á sl. vori er það ákaflega þýðingarmikið að þessi lögfræðiálit skuli hafa verið fengin. Á það vil ég leggja áherslu. En þó svo að þessi niðurstaða færi forræði þessara mála innan lands til landbrh. á ótvíræðan hátt eftir þeim skilningi lögfróðra manna um efnisinnihald frv. sem á undan er rakið, má ekki gleyma því á hvern hátt hæstv. utanrrh. hefur unnið að þessu máli. Eigum við eftir að standa frammi fyrir því að hann sé búinn að semja um víðtækar opnanir á innflutningi landbúnaðarvara í fríðindasamingum við önnur ríki eins og hefur gerst ítrekað í EES-samningunum.``
    Svo mörg voru þau orð þegar ég var að lýsa stöðunni fyrir jólin.
    Ég verð að játa nú að bjartsýni mín sem fólst í tilvitnuðum orðum hefur því miður ekki ræst. Ég hélt þá að loksins, loksins, --- loksins væri búið að eyða óvissu í landbúnaðarmálum. Hæstv. ráðherra ákveðinna mála --- hann er nú farinn, ég má ekki segja meira --- væri nú loksins kominn í bönd, að hæstv. --- við skulum kalla hann hæstv. utanrrh. að þessu sinni, væri loksins kominn í bönd en því var ekki að heilsa, því að dómur Hæstaréttar í skinkumálinu féll að loknum jólum og áramótum. Og nú stöndum við enn frammi fyrir nýrri tilraun til að koma böndum á þessi mál en sem fyrr sannast að það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja.
    En hvað er til ráða? Fyrir liggur nýtt frv. frá ríkisstjórninni um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Þetta nýja frv. er flutt til breytinga á þeim lögum sem við samþykktum rétt fyrir jólin, sem voru staðfest 28. desember og eru því rúmlega mánaðargömul. Það er fljótsagt að mér líst ekki á að það frv. leysi vandann, tel fráleitt að telja í lögum upp tollskrárnúmer til að ákveða vörur sem bannað er að flytja inn í landið. Ég vil í þessu sambandi vitna til greinargerðar sem Magnús Hannesson lögfræðingur hefur unnið fyrir landbn. Hann segir m.a. á einum stað, með leyfi forseta:
    ,,Sú aðferð að telja upp tollskrárnúmer til að ákvarða vörur sem bannað er að flytja inn í landið hefur þann kost að menn vita nákvæmlega hvaða vörur þetta eru. Ókostirnir eru þeir helstir að auðvelt er að breyta tollflokkum hvað síðustu tvo tölustafina varðar og gæti það raskað þeim grundvelli sem bannið var byggt á. Verði þessi leið farin`` segir lögfræðingurinn ,,yrði að koma nákvæmlega fram í lagaákvæðinu að miðað væri við tollskrá eins og hún var á tilteknum degi.`` Svo mörg eru þau orð.
    Virðulegi forseti. Það er hins vegar mikið innlegg í þessa umræðu þær upplýsingar sem komu fram á fundi landbn. 25. janúar sl. Þar skýrðu lögfræðingarnir Tryggvi Gunnarsson og Sveinn Snorrason frá þeirri skoðun sinni að hefði brtt. sjömenninganna, þ.e. fjögurra sjálfstæðismanna, tveggja framsóknarmanna og eins alþýðuflokksmanns sem ég gat um fyrr og lá fyrir á vordögum 1993, verið samþykkt þá hefðu þær sífelldu uppákomur sem verið hafa í þessu máli ekki komið til. Þetta er mikil og athyglisverð staðreynd. Af þessu leiðir að lausn þessa máls sem við erum hér að glíma við felst í því að snúa sér að brtt. sjömenninganna við búvörulögin frá vordögum 1993 sem hér liggur fyrir í frumvarpsformi á þskj. 515 frá framsóknarmönnum. En vegna lagabreytinganna fyrir jólin þarf að fella síðari hluta hennar niður en um leið að taka inn ný ákvæði.
    Þar sem ég á sæti í þeirri nefnd sem mál þetta fer til mun ég leita stuðnings þar við breytinguna en þar er fyrst og fremst um að ræða að fella niður 2. mgr. eins og ég gat um fyrr. Í stað hennar gæti t.d. komið svohljóðandi:
    ,,Heimili ráðherra innflutning samkvæmt 1. mgr. og er honum þá jafnframt heimilt að leggja verðjöfnunargjöld á innfluttar vörur eins og þau eru ákveðin í 72. gr. Sama gildir um unnar búvörur sem fluttar eru inn samkvæmt fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að, enda sé varan jafnframt framleidd hér á landi. Landbrh. setur með reglugerð nánari ákvæði um innflutning búvara, leyfisveitingar og skilgreiningar á hvaða vörur falla undir ákvæði þessarar greinar.``
    Það þarf og að herða á orðalagi í 1. mgr. þar sem m.a. stendur að innflutningur garðyrkjuafurða skuli því aðeins leyfður að innlend framleiðsla fullnægi ekki eftirspurn. Eðlilegt er að þarna komi: Innflutningur búvara. Gera þetta miklu víðtækara.
    Virðulegi forseti. Farsælasta lausnin á þessu vandamáli varðandi búvörulögin sem of lengi er búið að glíma við er að samþykkja endurskoðaða tillögu sjömenninganna frá vordögum 1993. Það er eina frambærilega lausnin í stöðunni.