Afskipti ráðherra af málefnum Ríkisútvarpsins, sjónvarps

83. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 15:48:19 (3831)


[15:48]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Mér þykir það miður að innri mál Ríkisútvarpsins, sjónvarps þurfi enn á ný að verða tilefni umræðu hér utan dagskrár á hv. Alþingi. Ég tek heils hugar undir það sem kemur fram í ályktun Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins, að það er alltaf ákveðin hætta á því að umræður af tilefni sem þessu snúist upp í orðhengilshátt um bréfsefni og titla en inntakið gleymist, þ.e. að með efnistökum í dagskrárgerð er stórhætta á því að Ríkisútvarpið, fjölmiðill allrar þjóðarinnar, verði rúinn því trausti sem slíkum fjölmiðli er nauðsynlegt.
    Ég geri mér ekki von um það að umræðan hér í dag breyti nokkru ef satt skal segja um það ástand sem ríkir innan Ríkisútvarpsins og hæstv. forsrh. segir að komi þessu máli ekki við. En það er nú einmitt kjarni málsins. Staðreyndin er nefnilega sú að það ber svo mikið í milli skoðana okkar stjórnarandstæðinga og Sjálfstfl. á því hvernig okkar fjölmiðlaheimur skuli líta út í grundvallaratriðum að þar næst ekkert samkomulag. Það er hins vegar dapurlegt að það skuli vera hlutskipti þessarar stofnunar að verða bitbein pólitískra átaka og því verður að linna ef ekki á illa að fara.
    Það skyldi nú ekki vera að það sé að koma í ljós sem sú sem hér stendur hélt fram í umræðum á Alþingi sl. vor að það sé vilji Sjálfstfl. að eyðileggja Ríkisútvarpið og vinna verkið innan frá. Það verður þó hægt að segja að hæstv. ríkisstjórn hafi komið einhverju til framkvæmda á sínum starfsferli og þeir sjálfstæðismenn ætli ekki að láta þar við sitja. Nei. Landsfundur Sjálfstfl. vill að Ríkisútvarpið útvarpi hljóðvarpsdagskrá á einni rás. Það á sem sagt að selja eða gefa einhverjum íhaldsdrengjum bæði Ríkisútvarpið, sjónvarp og Rás tvö, enda alveg óþolandi að hafa svo sterka fjölmiðla í loftinu sem Sjálfstfl. getur ekki ritskoðað. Það er svo miklu þægilegra í dagblaðaútgáfu þar sem þeir hafa Moggann sem gætir þess dyggilega að segja bara það sem sjálfstæðismönnum er þóknanlegt. Og þessu held ég fram þrátt fyrir broslegar staðhæfingar Morgunblaðsins frá því í gær um að Mogginn sé ekki málgagn Sjálfstfl.
    Vandamál Ríkisútvarpsins eru einstök og þau hafa því miður oft komið til umræðu á hv. Alþingi frá því í apríl síðasta ár. Málið snýst um að samkvæmt skoðanakönnun voru 83% þjóðarinnar ósammála þeirri ákvörðun menntmrh. að ráða Hrafn Gunnlaugsson tímabundið í stöðu framkvæmdastjóra sjónvarps og ég er sannfærð um að skoðanir þjóðarinnar hafa ekki breyst síðan þá. Ástand á stofnuninni er algerlega óviðunandi og má skilja á þeim sem best til þekkja að allt það sem kemur fram í bréfi Arthúrs Björgvins Bollasonar sé rétt. Stundum þarf að segja sannleikann þannig að hann skiljist. Áðurnefndur maður hafði kjark til þess að segja þannig frá að það kemst á framfæri hvernig ástandið er þó að ég viðurkenni að orðalagið í því bréfi sem sent var formanni Stéttarsambands bænda er ekki venjulegt.
    Ég veit að það gefst ekki tími til umræðna eða að rekja þann feril sem settur framkvæmdastjóri sjónvarps hefur að baki hjá stofnuninni en þar mætti margt taka til og margt nefna. Ég vil taka örfá dæmi. Fólki er sagt upp störfum eða haldið frá verkum á sama tíma og vildarvinir eru yfirborgaðir við að vinna sömu störf. Skrifstofa framkvæmdastjóra sjónvarps stundar dagskrárgerð fyrir milljónatugi sem aldrei hefur tíðkast og þegar fulltrúar útvarpsráðs spyrja út í fjármálin, þá segir framkvæmdastjórinn að þeim komi þau ekki við. Einmunalélegir umræðuþættir hafa verið á skjánum og hafa verið nefndir hér og síðast en ekki síst má nefna hinar dæmalausu árásir á bændastéttina. Og ég tek undir það sem kom fram hjá hv. 18. þm. Reykv. að með þessu öllu saman hefur 15. gr. útvarpslaga verið þverbrotin.
    En er mikið þó að fólki sem hefur heiðarlega hugsun hjá þessari ágætu stofnun sé nóg boðið? Afskipti hæstv. forsrh. af þessu máli koma í sjálfu sér ekki á óvart. Það var hans verk að framkvæmdastjórinn var ráðinn til eins árs og nú hefur hann aftur bein afskipti af innri málum sjálfstæðrar ríkisstofnunar sem starfandi menntmrh. Ég ætla ekki að fullyrða að hann hafi skipað útvarpsstjóra að segja bréfritara upp. Hitt er ljóst að það að kalla útvarpsstjóra á sinn fund eru ákveðin skilaboð, skilaboð sem voru skilin af þeim sem í hlut átti. Þetta eru pólitísk afskipti sem eiga ekki að viðgangast. Þetta segir þjóðinni í hnotskurn við hvers konar stjórnarfar við búum. Hver er framtíð þessarar stofnunar? Hennar vegna og þjóðarinnar vegna vona ég að því tímabili sem hófst 1. apríl sl. ljúki 1. apríl í ár. Það er einlæg von mín að þá losni stofnunin undan járnhæl hins pólitíska valds.