Skólanefndir

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 17:30:31 (3864)


[17:30]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Spurt er hvort ráðherra hyggist skipa nýjar skólanefndir við framhaldsskóla áður en kosið verður til sveitarstjórna 28. maí 1994.
    Skipunartími flestra skólanefnda við framhaldsskóla rennur út á tímabilinu janúar til mars 1994. Í lögum um framhaldsskóla nr. 57/1988, með innfelldum breytingum laga nr. 107/1988 og laga nr. 72/1989, segir svo í 7. gr., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Menntmrh. skipar skólanefnd við hvern framhaldsskóla til fjögurra ára í senn. Í skólanefnd skulu sitja sjö menn, tveir fulltrúar starfsmanna kosnir á starfsmannafundi, einn fulltrúi kosinn af nemendum skólans, þrír fulltrúar tilnefndir af hlutaðeigandi sveitarfélagi eða samtökum sveitarfélaga í viðkomandi landshluta og einn fulltrúa skipar ráðherra án tilnefningar. Fulltrúi nemenda skal þó kosinn til eins árs. Varamenn skulu valdir með sama hætti. Nefndin velur sér formann til tveggja ára í senn.``
    Þetta er sem sagt úr 7. gr. laganna. Í samræmi við lögin voru skipaðar skólanefndir við flesta framhaldsskóla landsins á tímabilinu janúar til mars 1990.
    26. febr. 1990 gaf þáv. menntmrh. út reglugerð um framhaldsskóla og sú reglugerð tók gildi 1. mars það ár. Í 15. gr. reglugerðarinnar, sem hv. fyrirspyrjandi las upp áðan, er kveðið á um að skipan skólanefnda skuli miða við kjörtímabil sveitarstjórna og jafnframt að fráfarandi nefnd skuli halda starfsumboði sínu þar til ný nefnd hefur verið skipuð. Við lögfræðilega athugun í ráðuneytinu hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að þó fyrrv. ráðherra hafi væntanlega verið heimilt að setja fyrra ákvæðið, þ.e. það sem lýtur að samræmingu við kjörtímabil sveitarstjórna, þá eigi það ekki við lög að styðjast að framlengja starfstíma nefndanna fram yfir fjögur ár. Lögin kveða skýrt á um að nefndirnar skuli sitja um fjögurra ára skeið. Af þessu leiðir að ekki er hægt að fara að ákvæðum reglugerðarinnar um samræmingu kjörtímabils sveitarstjórna án þess að ganga gegn ákvæðum laganna um að setja skuli nýja skólanefnd þegar fjögur ár eru liðin frá skipan fráfarandi nefndar. Því er ekki um annað að ræða en fara að lögunum og skipa í nefndirnar þegar starfstíma þeirra lýkur. Í samræmi við það hefur ráðuneytið þegar óskað eftir nauðsynlegum tilnefningum í nefndirnar.