Heimildarmyndir

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 17:44:35 (3869)


[17:44]
     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka menntmrh. fyrir þessi svör sem sögðu heldur lítið. Nema það að heimildarmyndir eiga að vera fræðslumyndir og það fullvissar okkur um, held ég, að sú mynd sem ég gerði að umræðuefni og er kveikjan að þessari fyrirspurn er ekki heimildarmynd. Væri forvitnilegt að heyra skoðun hæstv. menntmrh. á því ef hann tekur aftur til máls hvort hann telji að þar hafi verið um heimildarmynd að ræða.
    Að það sé svo mikið atriði að persónuleg skoðun höfundar á viðfangsefninu komi fram kemur mér mjög spánskt fyrir sjónir og hefði verið forvitnilegt að vita hver samdi þetta svar hjá þessari virðulegu stofnun.
    Það komu hér upplýsingar um kostnað við þessa mynd. Hann er tæpar 2 millj. kr. en myndir var keypt af Helga Felixsyni, eins og hæstv. menntmrh. sagði. Það segir okkur að hver mínúta kostaði 42 þús. kr. en sú mynd sem hæstv. menntmrh. gerði að umtalsefni, Verstöðin Ísland, kostaði 20 þús. kr. á mínútu. Helmingi ódýrari sú vandaða mynd. En myndin sem kostar upp undir 2 millj. er gerð á þann hátt að það er sendur hópur manna hringferð um landið til að þefa uppi alla þá sem hafa mest gagnrýnt íslenskan landbúnað og taka við þá viðtal. Reyndar er mér sagt að þeir hafi óvænt hitt þjóðgarðsvörðinn í Skaftafelli og var hann gerður að aðalpersónu þáttarins.
    En hvað með það. Mig fýsir að heyra skoðun hæstv. menntmrh. á því hvort hann telur að hér hafi verið um heimildarmynd að ræða. Að allra síðustu, hæstv. forseti, þá ætla ég líka að láta það koma fram að sá umræðuþáttur sem efnt var til í framhaldi af þessari mynd og sendur var út frá Bændahöllinni var náttúrlega hugsaður til að skjóta landbúnaðarkerfið niður úr Bændahöllinni en það mistókst algerlega þar sem bændasinnar höfðu þar yfirburðastöðu.