Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við atburðunum í Sarajevó

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 14:00:27 (3881)


[14:00]
     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Saga afskipta Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna af hinum hörmulegu deilum í Bosníu-Hersegovínu er saga mikilla vonbrigða. Það er búið að reyna árangurslaust missirum saman að leiða þessi stríðandi öfl að samningaborði með það fyrir augum að ná friðsamlegu samkomulagi um lausn deilumála á þessu svæði. Það hefur ekki tekist. Og það er heldur engum vafa undirorpið hver það er sem er árásaraðilinn í þessu stríði.
    Ég hygg að nú sé svo komið í þessu efni að það sé engra annarra kosta völ en þeirra sem menn standa nú frammi fyrir og eru að ræða þessa dagana á vettvangi Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins og það hlýtur að vera rétt stefna af hálfu okkar Íslendinga sú sem lýst var hér af hálfu hæstv. utanrrh. Við hljótum að standa að baki þeim ákvörðunum sem nú stendur til að taka á þessum vettvangi væntanlega með stuðningi aðalritara Sameinuðu þjóðanna.
    Það er alveg rétt að þetta svæði í heild sinni er skotfærageymsla sem getur sprungið í loft upp, púðurtunna sem getur sprungið í loft upp hvenær sem er. Menn hljóta auðvitað að reyna allar leiðir til þess að ná hinum stríðandi aðilum saman með friðsamlegum hætti, en vissulega er það barnalegt óraunsæi að mínum dómi að láta sér detta í hug að það sé hægt að ná einhverju friðsamlegu samkomulagi við þessa aðila um að afvopnast. Vissulega væri það það albesta en það er bara ekki raunhæft eins og málin líta út

í dag, því miður. Þess vegna verðum við að taka á okkur þá ábyrgð sem því fylgir að starfa í alþjóðlegum samtökum sem hafa tekið að sér það hlutverk að beita sér þarna fyrir íhlutun og þess vegna hljótum við að standa að baki þeirri afstöðu sem kynnt hefur verið af hálfu ríkisstjórnar Íslands.