Hafnalög

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 17:07:51 (3904)


[17:07]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir var samið af nefnd sem m.a. áttu sæti í formaður Hafnasambandsins, fulltrúi útgerðarmanna, iðnrh. og Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Dalvík. Það komu ýmsir að því að semja þetta frv. Ég taldi eðlilegt að þingmenn tækju frv. til athugunar og hef ekki verið með forskriftir að brtt. um það enda hefur oft verið talað um að ráðherrar eigi að vera óhræddir við það að nefndir fjölluðu efnislega um frv. sem mér heyrðist hv. þm. vera að finna að áðan og vera óánægður yfir því að meiri hlutinn skuli fallast á breytingar á frv. Þetta var ekki lagt fram til þess að það yrði endilega samþykkt óbreytt. Það er mikill misskilningur. Þvert á móti hefur verið um það rætt og stóð alltaf til að samgn. tæki frv. til efnislegrar meðferðar. Hið sama á raunar við um frv. til nýrra vegalaga sem liggur fyrir samgn.
    Ég átta mig ekki á því hvernig honum tekst að tala um að vörugjaldið leggist sex sinnum á, held ég að hann hafi sagt. Hann hugsar sér væntanlega að viðkomandi vara komi til Hafnarfjarðar, sé sett upp á bíl og fari með ferju upp á Akranes og ferju yfir Breiðafjörðinn, sennilega svo með strandskipi til Ísafjarðar og svo með ferjunni inn Ísafjarðardjúpið eða eitthvað svoleiðis. Þetta er auðvitað hinn mesti útúrsnúningur og undarlegt að hv. þm. skuli vilja hafa hann í frammi. Óskiljanlegt satt að segja því auðvitað er ekki um það að ræða. Þar að auki eru ferjurnar og rekstur þeirra í mikilli samkeppni við vöruflutninga á landi ef við tökum Akraborgina sem dæmi. Eins og ég sagði áðan þá er hún í samkeppni við Landflutninga og verður að líta á flutningskostnaðinn með það í huga.