Flutningur verkefna Vitastofnunar Íslands

86. fundur
Miðvikudaginn 09. febrúar 1994, kl. 14:20:41 (3942)

[14:20]
     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef lagt hér fram frv. til laga um flutning á verkefnum Vitastofnunar til Landhelgisgæslu Íslands.
    Eins og segir í greinargerð þá er með frumvarpi þessu er lagt til að framkvæmd vitamála verði færð frá Vitastofnun Íslands til Landhelgisgæslu Íslands. Þannig taki Landhelgisgæslan við þeirri starfsemi er Vitastofnun hefur haft með höndum, aðallega á grundvelli laga nr. 56/1981, um vitamál.
    Þann 1. des. 1878 var kveikt á fyrsta vita landsins, Reykjanesvita, og var hann að heita má eini vitinn á landinu fram undir aldamót. Árið 1899 voru fyrstu lögin um vitamál sett, lög um afhendingu lóða til vitabygginga o.fl.
    Árið 1910 var landverkfræðingi falin umsjón með vitum landsins en embættisheitið vitamálastjóri var fyrst tekið upp árið 1918. Það var þó ekki fyrr en árið 1933 sem kveðið var á um stofnsetningu vitamálastofnunar með lögformlegum hætti.
    Samkvæmt lögum nr. 56/1981 heyrir Vitastofnun undir samgönguráðherra og fer hún með framkvæmd vitamála. Vita- og hafnamálastjóri veitir Vitastofnun forstöðu. Þá starfar svokölluð vitanefnd á grundvelli laganna og gerir frumvarpið ráð fyrir óbreyttu starfi nefndarinnar þrátt fyrir nýjan samstarfsaðila, þ.e. Landhelgisgæslu Íslands. Vitanefnd er skipuð fulltrúum farmanna, útgerðarmanna og fiskimanna og er hlutverk hennar m.a. að láta uppi álit sitt í öllum stefnumarkandi málum varðandi starfsemi Vitastofnunar, fjalla um vitagjald, nýbyggingar, endurbætur og breytingar á vitum, rekstur vitakerfisins, svo og verulegar breytingar á rekstrarfyrirkomulagi.
    Hlutverk Vitastofnunar á grundvelli gildandi laga er m.a. að sjá sjófarendum fyrir nauðsynlegum leiðbeiningum til öryggis siglingum við Íslandsstrendur og á fiskimiðunum í kringum landið. Þar fellur m.a. undir eftirlit með vitum og öðrum föstum merkjum á landi, fljótandi leiðarmerkjum og radíómerkjum til staðarákvörðunar. Stofnunin skal hlutast til um útgáfu upplýsinga um þau leiðbeiningarkerfi sem fyrir hendi eru og stuðla að útgáfu korta er innihaldi nauðsynlegar upplýsingar fyrir sjófarendur, annast veðurathuganir á vitastöðum og fara með framkvæmd laga og reglna um leiðsögu skipa.
    Nú eru í rekstri 106 vitar, 13 ljósdufl, 7 radarvarar og mörg leiðsögumerki, auk vita, leiðsögumerkja og ljósdufla sem eru rekin af hinum ýmsu sveitarfélögum (höfnum) landsins.
    Það er álit margra þeirra aðila er til þekkja að verkefni þau, er nú heyra undir Vitastofnun, falli vel að starfsemi Landhelgisgæslunnar og muni styrkja rekstur hennar. Þannig hafa Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Sjómannasamband Íslands, Fiskifélag Íslands og fleiri félög sjómanna og útgerðarmanna samþykkt ályktanir um að Landhelgisgæslan yfirtaki verkefni og tekjustofna Vitastofnunar. Sú breyting getur leitt til verulegrar hagræðingar og sparnaðar í ríkisrekstrinum jafnframt því sem öryggi sjófarenda mundi aukast á margvíslegan hátt. Samtök sjómanna hafa einnig deilt á ríkisvaldið fyrir þann samdrátt sem orðið hefur í rekstri og fyrir fækkun úthaldsdaga skipa Landhelgisgæslunnar. Er það ekki óeðlilegt þegar þess er gætt hve öryggismál sjómanna eru ríkur þáttur í starfi Landhelgisgæslunnar. Með fjölgun verkefna Landhelgisgæslunnar og þar með auknum tekjum yrði starfsemi hennar markvissari, úthaldsdagar fleiri og betri trygging fyrir öryggi sjófarenda en nú er.
    Frá 1. jan. 1969 sá Landhelgisgæsla Íslands, án endurgjalds og samhliða öðrum verkefnum, um að

þjónusta annesja- og skerjavita og ljósdufl fyrir Vitastofnun og sparaði henni þannig veruleg útgjöld, en því samstarfi lauk 1. jan. 1993. Frá þeim tíma hefur Vitastofnun keypt þessa þjónustu frá hinum ýmsu björgunarsveitum og ferjuútgerðum. Augljóst er að slík framkvæmd skapar mikið óöryggi í rekstri vitakerfisins. Benda má á að ljósdufl, sem oft er komið fyrir vegna skerja, boða eða grynninga, sæfarendum til varnaðar, eru að jafnaði tekin upp árlega og þarf því nákvæma staðsetningu á vegum ábyrgra aðila þegar duflin eru sett út að nýju. Miðað við núverandi framkvæmd er slíkt öryggi ekki eins og best verður á kosið. Þetta eru þó ekki einu rökin fyrir að starfsemi vitamála verði flutt yfir til Landhelgisgæslunnar. Með tilliti til þeirra öryggiskrafna, sem gerðar eru til skipa á grundvelli innlendra reglna, svo og alþjóðasamþykkta sem Ísland er aðili að, er eðlilegt að löggæslumenn og öryggisverðir íslenska hafsvæðisins fari með eftirlit og viðhald vitakerfisins.
    Við Landhelgisgæslu Íslands starfa sem kunnugt er siglingafróðir menn. Þar á meðal eru skipherrar og stýrimenn sem hafa lokið námi við skipstjóradeild Stýrimannaskólans í Reykjavík. Þessir einstaklingar hafa m.a. sérmenntað sig í siglingafræðum sem nýtist einkar vel til staðsetningar ljósdufla og leiðar- og siglingamerkja og mælinga ljóshorna vita og í öðru því er lýtur að siglingalegum öryggisþáttum í sjókortum sem sjófarendur við Ísland verða með fullri vissu að geta treyst. Vegna eftirlits og viðhalds raf- og vélbúnaðar vita, radíóvita og radarsvara hafa flestir vélstjórar á varðskipum lokið 4. stigi í Vélskóla Íslands og hafa því mikla þekkingu og reynslu á sviði véla og rafmagns. Einnig má nefna að innan Landhelgisgæslunnar starfa Sjómælingar Íslands sem, auk sjómælinga, sjá um útgáfu sjókorta og tilkynningar til sjófarenda. Af framansögðu má ljóst vera að sérþekking og reynsla, sem starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa öðlast, kemur vitaþjónustunni til góða og mun verða mjög til hagræðingar á öllum rekstrarsviðum vitaþjónustu við Ísland.
    Stefna núverandi ríkisstjórnar er að leggja niður, hagræða eða sameina ríkisstofnanir. Er það rökrétt markmið þegar harðnar í ári. Mikilvægt er að styrkja stofnanir eins og Landhelgisgæsluna sem gegnir sérstöku hlutverki hvað varðar öryggi sjófarenda hér við land.
    Við afgreiðslu Alþingis á núverandi lögum um vitamál var gert ráð fyrir allróttækum breytingum frá þeirri skipan sem verið hafði. M.a. var gert ráð fyrir þeirri breytingu að vitamál skyldu heyra undir Landhelgisgæsluna. Þessi krafa kom m.a. frá sjómannasamtökunum og einnig tilmæli um að við Vitastofnun starfaði skipstjórnarmenntaður maður.
    Miklar breytingar hafa átt sér stað í íslensku efnahags- og atvinnulífi frá því að Vitastofnun var sett á fót. Viðhald og rekstur vitanna er með gjörbreyttum hætti með tilliti til nútímatækni og þeirrar framþróunar sem átt hefur sér stað. Þótt umdeilanlegt megi vera hver sparnaðurinn verði af þeirri lagabreytingu sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir er ljóst að um hagræðingu er að ræða sem jafnframt tryggir öryggi sjófarenda við Ísland betur en nú er og betri nýtingu á fjármagni sem um leið leiðir af sér lengra úthald varðskipanna.
    Til þess að ná því markmiði, er frumvarp þetta stefnir að, að færa verksvið Vitastofnunar yfir til Landhelgisgæslu Íslands, koma fleiri en ein leið til greina. Sú leið er valin hér að breyta lagaákvæðum sem taka til starfsemi og yfirstjórnar Vitastofnunar þannig að Landhelgisgæslan taki við þeim verkefnum er stofnuninni voru áður ætluð með lögum, enda er ljóst að Landhelgisgæslan hefur mjög góðar aðstæður, jafnt á sjó sem á landi, til að sinna þeim verkefnum á sem bestan hátt.
    Í athugasemdum við einstakar greinar frv. segir m.a. um 1. gr.: ,,Lögð er til sú breyting frá gildandi lögum að dómsmrh. taki við yfirstjórn vitamála af samgrh. Þar sem með frv. þessu er lagt til að Landhelgisgæsla Íslands, sem heyrir undir dómsmrn. taki við starfsemi Vitastofnunar Íslands er um eðlilega breytingu að ræða með tilliti til þess að yfirstjórn og framkvæmd vitamála heyri undir sama ráðuneyti.``
    Um 2. gr. segir svo: ,,Greinin felur annars vegar í sér breytingar sem nauðsynlegar eru á lögum nr. 56/1981 með tilliti til þess að Landhelgisgæsla Íslands taki við hlutverki Vitastofnunar og forstjóri Landhelgisgæslunnar fari með framkvæmd vitamála í stað vitamálastjóra. Hins vegar er lagt til að 2.--4. mgr. greinarinnar falli brott þar sem Vitastofnun Íslands mun ekki starfa áfram sem slík verði frv. þetta að lögum.``
    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. sept. á þessu ári og miðað við tímamörk er gert ráð fyrir að viðkomandi stofnanir hafi nægilegt ráðrúm til að gera nauðsynlegar breytingar sem leiðir af lögum þessum.
    Virðulegi forseti. Meðflm. minn að þessu frv. til laga er Eyjólfur Konráð Jónsson. Það er trú okkar að með því frv. sem við höfum lagt hér fram muni nást veruleg hagræðing í þætti þeim sem lýtur að rekstri ríkisins á þeim stofnunum sem hér hefur verið getið um og einkum og sér í lagi þegar litið er til þess vanda sem við hefur blasað nú um nokkuð langan tíma varðandi rekstur Landhelgisgæslunnar, þá er það bjargföst trú okkar að með þeirri hagræðingu sem af hlýst muni Landhelgisgæslan jafnframt styrkja starf sitt og stöðu sína og um leið styrkja það öryggi sem sæfarendum við Íslandsstrendur er mjög mikil nauðsyn á.
    Þess ber einnig að geta að það hlýtur að vera umhugsunarefni í því ástandi sem nú ríkir varðandi mörg erlend kaupskip sem sigla undir svokölluðum hentifánum að eftirlit með ströndum landsins verði hert, einkum og sér í lagi þegar til þess er gætt að Íslendingar lifa á sjávarfangi og þarf ekki mikið til að koma ef erlend olíuskip undir þægindafána með áhöfnum sem kannski hafa vafasama atvinnupappíra, mundu lenda hér í strandi og væri kannski hægt að benda á það að sá þáttur hefði ekki verið nægilega tryggur sem

alltaf skyldi þó vera, þ.e. að leiðarmerki eða ljósvitar landsins hafi villt mönnum sýn vegna þess að þeir sýndu ekki rétt.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og eðlilegt að því sé vísað til samgn.