Samgöngubætur í uppsveitum Árnessýslu

86. fundur
Miðvikudaginn 09. febrúar 1994, kl. 15:12:54 (3948)


[15:12]
     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 1. flm. fyrir glögga og greinargóða ræðu um þessa tillögu sem ég er meðflm. að. Það er litlu að bæta við þessa ágætu ræðu. Þessi tillaga minnir á að ekki er öllu lokið í vegagerð. Hún minnir á að næstu stórverkefni í brúargerð á Suðurlandi er brú á Hvítá hjá Bræðratungu. Tillagan minnir og á að fram úr uppbyggingu landvegar þarf að brúa Þjórsá hjá Þjórsárholti og þannig að tengja Árnes- og Rangárvallasýslu saman að ofanverðu með nýrri brú.    Það er vert í þessu sambandi að draga það hér fram að núv. ríkisstjórn hefur vissulega látið mikið fjármagn í uppbyggingu stofnbrautanna um landið. Þær framkvæmdir hafa staðið yfir með myndarskap í öllum kjördæmum, þar á meðal í Suðurlandskjördæmi. En í vegáætlun undangenginna ára hefur vantað fjármagn fyrst og fremst í hliðarvegina, sveitavegina, hinar svokölluðu þjóðbrautir. Þar vantar að taka á og stórauka við fjármagn. Sem betur fer er hringvegurinn senn að lokast en í því máli, að bæta hliðarvegi í öllum kjördæmum, malarvegina, vantar mjög á.
    Ég sé ekki ástæðu til að segja meira um þessi mál. Þessi tillaga fær væntanlega þinglega meðferð. Eins og hér kemur fram er sumt af þessu þegar í undirbúningi. Þessi tillaga er fyrst og fremst til að minna á og gera tilraun til að hraða verkefnum því að bættar samgöngur eru meginmál fyrir sveitirnar í landinu.