Auðlindakönnun í öllum landshlutum

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 12:35:36 (3970)


[12:35]
     Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Norðurl. e. fyrir hans umræðu sem kannski sýnir okkur í hnotskurn hve nauðsynlegt það er að ræða atvinnumál og hinar ýmsu hliðar þess á hinu háa Alþingi. Hann kom með mjög athyglisverðar athugasemdir og upplýsingar og ég tek svo sannarlega undir það að vissulega hefur ýmislegt verið gert, ekki dreg ég úr því og ég get veifað framan í þingheim þessari skýrslu, Stuðningur stjórnvalda við nýsköpun í atvinnulífi, sem reyndar kom fram eftir að þessi tillaga mín kom fram á Alþingi og við höfum dæmin um átaksverkefnin og ýmislegt það sem einstaklingar og stjórnvöld hafa verið að vinna að. Auðvitað er það rétt að sem betur fer hefur fjármagn til rannsókna verið aukið en þó ekki nærri eins og áætlað var. Það var því miður farið að tengja rannsóknarfé við einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar sem eins og við vitum skiluðu sér heldur illa og þarna þarf að gera miklu, miklu betur og ég hygg að við séum sammála um það, við hv. þm. Tómas Ingi Olrich, að það þarf að gera miklu meira. Við stöndum frammi fyrir þessu atvinnuleysi, við óttumst að það verði varanlegt og ef við ætlum ekki að sitja uppi með það þá þarf auðvitað aðgerðir til lengri tíma. Vissulega er verið að vinna að þeim bæði hjá rannsóknastofnunum hinna ýmsu atvinnugreina, í Háskóla Íslands og víðar, og eins og gengur þá skilar sumt árangri og annað ekki og því miður er það þannig að menn virðast eiga svo erfitt með að eiga að átta sig á því hér á landi að tilraunir misheppnast. Menn fá hugmyndir og reyna þær og þær eru ekki raunhæfar. Það er það sem gerist við slíka nýsköpun.
    En það sem ég er fyrst og fremst að hugsa um með þessari tillögu það er einhvers konar heildarsýn, einhver heildarmynd af ástandinu, kannski ekki síst til að gefa fólki eitthvert leiðarljós, upplýsingar, hugmyndir um möguleika. Það þarf ekki endilega að hugsa sér að þessi auðlindakönnun og þá er ég að hugsa um auðlindir í allra víðasta skilningi, ég er að hugsa um að menn setji niður á blað hverjir eru möguleikarnir á hverjum stað, í einstökum sveitarfélögum, á stærri svæðum. Það þarf auðvitað ekki að setja slíka könnun í gang alls staðar á landinu í einu. Það mætti t.d. velja tilraunasvæði eins og menn eru að tala um tilraunasveitarfélög, það mætti auðvitað fara saman. En aðalmálið er auðvitað að við mótum einhverja heildarstefnu um hvað við ætlum okkur í atvinnumálum. Slík stefna er að mínum dómi afar handahófskennd.
    Nú má auðvitað um það deila hversu langt stjórnvöld eigi að ganga í því að móta stefnu en við auðvitað mótum einhverja stefnu í menntamálum. Við mótum stefnu í samskiptum okkar við aðrar þjóðir og ég held að hver einasta þjóð hljóti sífellt að vera að hugleiða möguleika sína í atvinnumálum og hljóti að verða að hafa einhverja stefnu í þeim málum. Og svo ég taki söguleg dæmi þá t.d. tóku bresk stjórnvöld þá stefnu um miðja 19. öld að England yrði iðnaðarríki og breskum landbúnaði var hreinlega fórnað. Það má auðvitað deila um það hversu skynsamlegt það var. Ég get tekið annað sögulegt dæmi: Þjóðverjar, eftir að þeir höfðu sameinað þýsku ríkin, tóku þá ákvörðun að byggja upp einhvers konar hágæðaiðnað, efnaiðnað, og þeir settu gríðarlegt fjármagn inn í þýska háskóla til þess að byggja þar upp raungreinar. Það skilaði sér u.þ.b. 20 árum síðar í mikilli fjölgun frábærra vísindamanna sem komu fram með alls konar nýjungar í bílum og flugvélum og efnaiðnaði og slíku. Það eru kannski slíkar áherslur sem ég er að hugsa um og vekja athygli á að hér vantar alla heildarstefnumótun í atvinnumálum. Við erum fyrst og fremst matvælaframleiðendur og við eigum mikla möguleika á því sviði. Ég hygg að í rauninni hafi t.d. stefna, ef maður færi að skoða það í sögulegu samhengi, þá hafi stefna í sjávarútvegsmálum verið afar handahófskennd. Hver hefur hún verið? Hefur verið stefnt að því t.d. að fullvinna sjávarafla eða hefur það verið fyrst og fremst á valdi útflytjenda sjálfra?
    Eins og ég nefndi áðan má auðvitað deila um það að hve miklu leyti stjórnvöld eiga að skipta sér af einstökum atvinnugreinum. Við höfum dæmi um það að sjávarútvegurinn ræður sér að miklu leyti sjálfur, útvegsmenn og framleiðendur ráða því hvar þeir selja sinn afla. Sumir eru þeirrar skoðunar að það eigi að setja mikil bönd á það. Banna jafnvel frystitogara og fleira slíkt. En á hinn bóginn sjáum við landbúnaðinn þar sem stefna stjórnvalda hefur verið sú að halda mjög fast utan um landbúnaðinn og setja honum endalausar reglur. Landbúnaður hefur náttúrlega verið algjörlega undir pilsfaldi ríkisins um áratuga skeið og við erum kannski einmitt að súpa seyðið af því núna. Þannig að það er mikil umræða sem fram undan er varðandi þessa stefnumótun. Hvað ætlum við okkur? Hvað ætlum við okkur í atvinnumálum? Hvert er okkar svar við því að hafa gengið býsna mikið á auðlindur bæði lands og sjávar og hverjir eru framtíðarmöguleikar svona lítillar þjóðar, ekki síst í ljósi þeirra miklu breytinga sem nú eru að eiga sér stað á okkar mörkuðum og í okkar nágrenni?
    Ég held einmitt að það sé svo mikilvægt að við á hinu háa Alþingi förum að tileinka okkur langtímasjónarmið, að horfa til lengri tíma, móta stefnu til lengri tíma eins og menn hafa reyndar verið að byrja á í vísinda- og tækniþróun. En það þarf líka að gerast í atvinnumálum að menn marki þar stefnu til langs tíma.
    Ég fagna því að nú skuli eiga sér stað hér umræða og hefði óskað þess að fleiri tækju þátt í henni því að mínum dómi er það ákaflega brýnt að ræða þessi mál og hvernig við ætlum að bregðast við því ástandi sem hér er upp komið, ekki bara til skamms tíma heldur einnig til lengri tíma litið.