Auðlindakönnun í öllum landshlutum

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 12:51:45 (3972)


[12:51]
     Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hefði gjarnan viljað hafa meiri tíma til að ræða þessi mál. Hv. þm. Tómas Ingi Olrich er mikill stuðningsmaður sinnar ríkisstjórnar eins og heyra mátti í hans máli en ég er ekki jafnhrifin af henni og hann. En það breytir ekki því að ég er nánast sammála hverju orði sem hann sagði hér áðan að það er sem betur fer verið að byrja á ýmsum verkum. Stóra spurningin er kannski sú: Hvernig í ósköpunum stendur á því að ekki var byrjað miklu fyrr þegar menn hefðu fyrir löngu mátt sjá þessa þróun fyrir? Og ég þakka því að það er komið mikið af nýju fólki í vísindin og inn á hið háa Alþingi og þar á meðal hv. þm. sem ég þekki úr hv. menntmn. að hefur mikinn áhuga á þessum málum og því hvernig efla megi vísindi og rannsóknir. Ég er innilega sammála því að það er meginmálið í flestu því sem við höfum verið að gera í atvinnumálum á undanförnum árum og áratugum að aðdragandann hefur vantað, uppbygginguna og rannsóknirnar og að vita hvað er verið að gera og hvað á að gera og það gildir ekki síst um ferðamálin. Og það er einmitt kjarninn í minni hugsun í þessari tillögu að það sem við höfum séð hingað til hafa verið skref hingað og skref þangað án þess að kanna málin fyrst. Því er ég að leggja það til að við byrjum á því að kanna heildina. Það er verið að vinna ýmislegt og flest af því vonandi gott þó að reyndar gildi nú um þær breytingar sem fram undan eru í menntakerfinu að þar hefur nokkuð einhæfur hópur komið að verki sem gæti valdið því að það ætti eftir að verða mikil togstreita um þær tillögur sem þar koma fram. Ég held að það hefði verið betra að fá þar breiðari hóp að verki. Við sjáum hvað setur varðandi það en ég held eftir sem áður að meginmálið sé það að við þurfum að hafa heildarsýn á okkar möguleika.