Staðsetning hæstaréttarhúss

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 14:02:42 (3979)


[14:02]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel að þessi tillaga liggi bersýnilega þannig að hún eigi mikinn stuðning hér í þinginu þannig að í sjálfu sér væri hægt að samþykkja hana strax í dag heyrist mér á öllu því hún á stuðning. Ég þakka hæstv. forsrh., sem jafnframt er 1. þm. Reykv., fyrir skörulegar undirtektir við tillöguna. Ég tel alveg augljóst mál að hann hafi í raun og veru tekið undir efni hennar því hér stendur: ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að taka til endurskoðunar áform um staðsetningu nýs Hæstaréttarhúss við Lindargötu 2 í Reykjavík`` o.s.frv. Þannig að það er alveg bersýnilegt að tillagan á hér mikinn stuðning.

    Ég tel mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að ákvörðun um staðsetningu hússins hefur hvergi verið tekin með formlegum endanlegum hætti. Þó að þannig sé litið á málið e.t.v. í dómsmrn. og þó að þessi samkeppni hafi farið fram þá er augljóst mál að Alþingi sem slíkt hefur ekkert formlega með staðsetninguna að gera nema um það sé tekin sjálfstæð efnisleg ákvörðun á Alþingi. Það hefur engin slík tillaga verið lögð fyrir á Alþingi hvar húsið á nákvæmlega að vera. Eina tillagan sem hefur verið lögð fyrir Alþingi um staðsetningu hússins er sú tillaga sem hér liggur fyrir. Það er tillaga um að staðsetningin á Lindargötu 2, sem hefur verið í athugun, verði tekin til endurskoðunar. Það er kjarni málsins. Alþingi hefur enga ákvörðun tekið í þessu máli og ég vísa sjónarmiðum hæstv. dómsmrh. í þeim efnum á bug.
    Ég tel nauðsynlegt að slá því föstu að það er rangt að líta þannig á að þó Alþingi hafi samþykkt tiltekna fjárveitingu þá sé Alþingi þar með búið að taka ákvörðun um staðsetninguna. Það er ekki svo.
    Ég vil láta það koma fram hér, virðulegur forseti, sem mitt sjónarmið að ég hef alltaf talið að þessi staðsetning væri vafasöm. Í raun og veru hvernig svo sem þetta hús lítur út, hvort sem það er stórt eða lítið hvort sem það stendur út á eða út fyrir mörk lóðarinnar jafnvel eða er innan hennar. Ég tel mjög hæpið og það hafi alltaf verið mjög hæpið að ætla húsinu stað nákvæmlega þarna. Þetta hef ég látið kom fram í þingræðum áður, m.a. í umræðum um frv. til laga um breyting á lögum um Hæstarétt sem ég flutti hér ásamt fleiri alþýðubandalagsþingmönnum fyrir áramótin. Þar lét ég koma fram, eins og kom fram í máli hv. 1. flm., að það eru að sjálfsögðu til margir aðrir staðið í Reykjavík, margir aðrir virðulegir og glæsilegir sögulegir staðir sem eru til sóma og yrðu til sóma fyrir Hæstarétt. Ég ætla að nefna einn staðinn núna í þessari ræðu. Það er sá staður að Hæstaréttarhús nýtt verði byggt á baklóðinni á bak við Hegningarhúsið við Skólavörðustíg. Þannig að gamla Hegningarhúsið, sem á sér vissulega langa sögu í réttarkerfi landsmanna, ekki alltaf mjög glaðlega fyrir þá sem þar hafa verið en þó getur það hafa gerst, mundi þá mynda eins konar inngang að nýju Hæstaréttarhúsi sem risi á baklóðinni niður að Laugavegsapóteki. Ég held að það væri að mörgu leyti skemmtilegt að tengja þannig gamla Hegningarhúsið við þessa sögu því það er augljóst mál að húsið mun ekki þjóna sem hegningarhús í mjög langan tíma í viðbót.
    Ég hef einnig sagt úr þessum ræðustól, virðulegur forseti, að ég telji að mörg verkefni séu brýnni akkúrat núna en að fara í að reisa dómhús. Ég veit að það er þröngt á skrifstofum Hæstaréttar en ég veit líka að það á að vera hægt að útbúa vinnuaðstöðu í nágrannahúsum eftir því sem kostur er fyrir starfsmenn réttarins. Ég er því ekki alveg viss um að þetta hús eigi að vera allra fremst í forgangsröðinni einmitt núna á þessum kreppu- og samdráttartímum sem við búum á. Þess vegna var það svo að á síðasta þingi þegar um þetta mál var fjallað þá fluttum við þingmenn Alþb. tillögum um það að fallið yrði frá fjárveitingu til þessa húss og í staðinn yrðu peningarnir notaðir til að koma í veg fyrir niðurskurð á tímum í grunnskólunum. Því miður var ekki fallist á þessa tillögu okkar en ég rifja hana hér upp, virðulegur forseti, til að það komi fram að efnislega höfum við þingmenn Alþb. ævinlega haft spurningarmerki í þessu máli.
    Ég held að það sé líka rétt að rifja það upp hér, hæstv. forseti, að í tengslum við mál þetta hefur aðeins verið rætt um Landsbókasafnshúsið sem slíkt. Hvað á um það að verða? Á árinu 1994 eða 1995 er gert ráð fyrir því að Þjóðarbókhlaðan taki til starfa og þá er ljóst að verulegur hluti af þeim bókum og þeirri starfsemi sem nú er í Landsbókasafnshúsinu hlýtur að flytja þaðan og fara í Þjóðarbókhlöðuna. Þá hafa menn verið að velta því fyrir sér hvað á að vera í Landsbókasafnshúsinu.
    Á Alþingi var fyrir allmörgum árum samþykkt með einu mótatkvæði tillaga um að setja Hæstarétt inn í Landsbókasafnshúsið. Þetta er mér minnisstætt vegna þess að ég var þetta eina mótatkvæði. Ég taldi og tel að Landsbókasafnshúsið eigi að nota fyrir safn. Það eigi að nota fyrir bækur og skjöl. Það mætti auðvitað hugsa sér að ýmislegt af þeim skjölum og gögnum og þeim gersemum sem nú eru geymdar vestur á Melum í húsakynnum háskólans yrðu geymdar í Landsbókasafnshúsinu til frambúðar og yrðu þar gerðar aðgengilegar fyrir þjóðina og erlenda gesti okkar sem vilja skoða þessar gersemar. Ég held að Landsbókasafnshúsið geti myndað glæsilega, virðulega og viðeigandi umgjörð um þessar þjóðargersemar ef menn gætu náð samstöðu um málið. Ef að því yrði horfið hins vegar að byggja dómhús á lóðinni á bak við Landsbókasafnið þá væru menn að þrengja möguleikana við að ákveða það hvað ætti að fara í Landsbókasafnshúsið þegar bækur og önnur starfsemi verður flutt þaðan yfir í Þjóðarbókhlöðu að svo miklu leyti sem þar verður um flutning að ræða.
    Þetta vildi ég segja hér, virðulegur forseti, um leið og ég þakka hv. flm. fyrir frumkvæðið að því að hafa flutt þessa tillögu. Ég þakka einnig hæstv. forsrh. fyrir þær góðu undirtektir sem fram komu í andsvari hans áðan.