Græn símanúmer

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 15:03:35 (3989)


[15:03]
     Flm. (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. 4. þm. Vesturl. og hæstv. umhvrh. fyrir afar jákvæðar undirtektir við mál mitt og þá þáltill. sem hér hefur verið lögð fram og mælt fyrir. Sérstaklega hlýt ég þó að fagna þeirri tímamótayfirlýsingu hæstv. umhvrh. að hann hafi nú þegar í kjölfarið á þessari þáltill. ákveðið að setja upp græn símanúmer í ráðuneyti sínu og beint því til yfirmanna stofnana sem heyra undir umhvrn. að fara að því fordæmi. Þetta sýnir að í öllum þeim málum sem hæstv. umhvrh. tekur sér fyrir hendur er hann maður vaskur og ég get vel látið það koma fram að eftir því er tekið í málum sem hæstv. ráðherra veitir forustu og ferst jafnan vel úr hendi eins og mörg ágæt tilþrif hans hafa sýnt og sannað á hans stutta en ágæta og farsæla ráðherraferli.
    Ég vil líka taka undir það sem hv. 4. þm. Vesturl. sagði áðan að hér er um að ræða áfanga á langri leið til að jafna kostnað fólks sem býr úti á landi. Við vitum það, eins og kom fram í máli hv. þm. Gísla S. Einarssonar, að kostnaður af ýmissi vöru og þjónustu, orkukostnaður og þess háttar, er hærri og þyngri fyrir fólk á landsbyggðinni en hér á höfuðborgarsvæðinu af ýmsum ástæðum sem oft hafa verið ræddar í þingsölum. Þess vegna er það mikilvægt að við reynum að hrinda því hvarvetna í framkvæmd þar sem við getum komið því við að jafna þennan kostnað og alveg sérstaklega þegar hægt er að beita ráðum sem kosta jafnlítið, þurfa jafnlítinn tæknilegan undirbúningstíma og unnt er að gera með jafnskjótum hætti og hér er verið að leggja til.
    Þetta er í sjálfu sér kannski ekki stórmál en þetta er kannski táknrænt mál um ákveðinn vilja framkvæmdarvaldsins til að standa að því að jafna lífskjörin í landinu á milli dreifbýlis og þéttbýlis sem vonandi gæti síðan orðið fordæmi í ýmsum öðrum málum. Það er út af fyrir sig rétt sem hv. þm. sagði að æskilegt væri ef hægt væri að ganga lengra. En það má hins vegar ekki verða til þess, og ég veit að hv. þm. meinti það ekki, að það dragi úr því að við tökum þau skref sem fær eru og fljótlegust í málum af þessu taginu sem hér er verið að fjalla um.
    Það þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um þetta mál. Það liggur afar vel og ljóst fyrir. Þetta er einfalt mál í sjálfu sér og krefst í sjálfu sér ekki mjög mikillar athugunar við eftir að á það hefur verið bent. Ég hygg að það sé með marga svo sem hæstv. umhvrh. að menn hafi kannski ekki gert sér grein fyrir þeim tæknilegu möguleikum sem í þessu gætu falist. Ég held hins vegar að hæstv. umhvrh. muni hafa af því mikinn sóma að hafa orðið fyrstur ráðherra til að taka upp merkið. Ég þakka honum og öðrum sem hafa tekið undir þetta mál fyrir þeirra viðtökur.