Rannsóknir og þróun í fiskvinnslu

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 15:32:38 (4019)


[15:32]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 526 hefur varamaður minn, hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir, flutt svohljóðandi fsp. til sjútvrh.:
    ,,Hverju sætir að íslenskum fiskvinnslufyrirtækjum eða samtökum þeirra standa ekki til boða sérstök lán eða styrkir til rannsókna og þróunarvinnu við fullvinnslu íslensks sjávarafla?``
    Á það er bent af mörgum að þeir sem vilja kaupa skip geta fengið til þess talsverða fyrirgreiðslu en þó eru að sjálfsögðu alveg nægilega mörg skipi í landinu og þar eru kannski ekki mestu þróunarmöguleikarnir sem fyrir hendi eru í íslenskum sjávarútvegi. Aftur á móti er ekkert fé sérmarkað til þróunarvinnu hjá fiskvinnslunni. Þar er einmitt mjög mikilvægt að við Íslendingar sækjum fram og það er afskaplega óeðlilegt að það kerfi sem við búum við bjóði ekki upp á fyrirgreiðslu til þeirra aðila sem eru að hafa forustu um nýjungar í íslensku atvinnulífi en koma nú alls staðar að lokuðum dyrum vegna þess að það er í raun og veru sáralítið í okkar kerfi sem ætlað er til að örva nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Vissulega hefur Byggðasjóður haft eitthvert fjármagn aflögu í þessu skyni en það er mjög takmarkað og eins mun það þróunarsetur sem sambandsfrystihúsin komu sér upp hafa getað boðið upp á nokkurt fé í þessu skyni. Ég hygg samt að hitt sé langalgengast að þeir sem eru að leita fyrir sér í kerfinu til þess að fá fjármagn til að vinna að rannsókna- og þróunarstarfsemi í fiskvinnslu miðað við þá vaxandi möguleika sem eru á því sviði komi yfirleitt að lokuðum dyrum.
    Þess vegna er eðlilegt að hér sé spurt: Hyggst ríkisstjórnin gera einhverja bragarbót þar á?