Réttur vörubílstjóra til atvinnuleysisbóta

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 16:51:31 (4057)


[16:51]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :

    Virðulegi forseti. Með reglugerð nr. 389/1993 voru sett skilyrði fyrir því að sjálfstætt starfandi einstaklingar fái atvinnuleysisbætur. Það er ljóst að vörubifreiðastjórar sem fyrir gildistöku þessara reglugerða og lagaákvæða nutu bóta sem launþegar njóta nú bóta sem sjálfstætt starfandi einstaklingar. Í fyrrgreindri reglugerð komu fram skilyrði þess að sjálfstætt starfandi einstaklingar fái atvinnuleysisbætur. Reglugerðin er almenn og nær til allrar atvinnustarfsemi, en engar sérreglur gilda um starfsemi einstakra atvinnugreina eða tegunda reksturs.
    Þá er þess getið að reglugerðin er sett til reynslu þannig að áætla megi þörf og kostnað með tilliti til þess hvort ástæða sé til að þrengja eða rýmka ákvæðin. Ákvæði reglugerðarinnar byggjast á 2. mgr. 1. gr. laganna um atvinnuleysistryggingar þar sem m.a. kemur fram að sjálfstætt starfandi einstaklingar þurfa að vera hættir eigin atvinnurekstri til að öðlast bótarétt, sama bótarétt og launamenn. Þetta orðalag hefur verið túlkað þannig að það geti ekki falið í sér tímabundna rekstrarstöðvun atvinnureksturs. Án þess að það sé orðað sérstaklega í lögunum og reglugerðinni þá hefur túlkunin verið sú að vörubifreiðastjórar þurfi að leggja ökutækjunum. Hins vegar er álitamál hvernig það sé gert, hvort ákvæði reglugerðarinnar beri að túlka svo þröngt að þeir verði að selja ökutækin eða hvort ekki ætti að vera nægjanlegt að sýna fram á að ökutækjunum hafi verið lagt með öðrum hætti eins og t.d. að leggja inn númeraplötur sem að athuguðu máli hefur reynst fær leið til að tryggja að ökutækið sé ekki í notkun. Og Landssamband vörubifreiðastjóra hefur lagt til við mig að þessi leið verði farin.
    Ákvæði reglugerðarinnar um að bætur séu ekki greiddar ef um er að ræða árstímabundna stöðvun starfsemi eða tímabundið hlé eru túlkaðar með þeim hætti að rekstrarstöðvun verði að vera a.m.k. eitt ár. Ef sjálfstætt starfandi einstaklingur hefur rekstur aftur áður en þessi tími er liðinn á hann á hættu að vera krafður um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta. Og það er alveg rétt að það hafa komið fram athugasemdir sérstaklega viðvíkjandi vörubifreiðastjórum og smábátaeigendum að þessar breytingar séu ekki í anda þess að rýmka rétt til atvinnuleysisbóta eins og stefnt var að með breytingum á lögunum. Og það er líka rétt að vörubifreiðastjórar eru verr settir eftir þessar breytingar en áður. Þess vegna hef ég fullan hug á að það verði sérstaklega skoðað hvort ekki sé hægt að breyta þessu þannig að bótaréttur þeirra verði betur tryggður.
    Ég hef átt viðræður við vörubifreiðastjóra um þessi vandamál sem tengjst atvinnurekstri þeirra og með bréfi sem ég sendi Atvinnuleysistryggingasjóði 21. jan. óskaði ég eftir að stjórnin léti meta þörf þess að endurskoða þessi ákvæði, einkum með tilliti til þessara hópa sem ég hef hér nefnt. Mér hefur ekki enn sem komið er borist svar stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs við þessu erindi. Þeir möguleikar sem ég tel rétt að skoða eru í fyrsta lagi hvort stytta megi tilskilið árshlé, í öðru lagi hvort taka beri sérstakt tillit til þeirra hópa sem nutu atvinnuleysisbóta í árstíðabundnu hléi fyrir breytingar en ekki eftir breytingar og í þriðja lagi hvernig hægt sé að taka tillit til tekna sjálfstætt starfandi að öðru leyti við afgreiðslu atvinnuleysisbóta. Á það er að líta að miklu auðveldara er að fylgjast með tekjum launþega en sjálfstætt starfandi. Og síðan tel ég auðvitað sjálfsagt að taka það til skoðunar sem vörubifreiðastjórar í Landssambandi vörubifreiðastjóra hafa sjálfir lagt til varðandi það að þeir legðu inn númeraplöturnar sem sýndu að ökutækin væru ekki í notkun. En ef lögum eða reglugerðum verður breytt til þess að heimila bótagreiðslur til vörubifreiðastjóra í hléum sem ég tel rétt að skoða þá verður að taka afstöðu til þess hvort það eigi að búa til sérreglur sem taka tillit til sérstakra aðstæðna einstakra hópa eða hvort setja eigi almennar reglur sem gilda um alla en taka tillit til aðstæðna eða fjárhags viðkomandi.