Réttur vörubílstjóra til atvinnuleysisbóta

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 17:00:00 (4061)


[17:00]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir það að koma með þetta mál inn í þingið. Það er full ástæða til þess að taka á þessu og gera breytingu. Það er að sjálfsögðu fáránlegt á tímum atvinnuleysis að banna mönnum að bjarga sér eins og þetta kemur í raun og veru út. Ég þekki dæmi um það sjálfur að maður sem hefur árum saman verið í aukavinnu á sumrin að gera út á grásleppu stóð frammi fyrir því í vor vegna þess að þá var hann orðinn atvinnulaus og kominn á atvinnuleysisbætur að hann yrði að selja bátinn. Hann mætti ekki fara á grásleppu yfir sumartímann vegna þess að þá missti hann réttinn til atvinnuleysisbóta. Svona hefur þetta komið út og það er fáránlegt og hlýtur að vera í fullri andstöðu við það sem menn ræddu á sínum tíma. Ég tel að það sé full ástæða til að taka undir áskoranir til hæstv. ráðherra að beita sér nú þegar í þessu og koma þessu í ásættanlegt horf.