Greiðslur atvinnuleysisbóta til bænda

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 17:11:30 (4068)


[17:11]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. vita var reglugerð um skilyrði þess að sjálfstætt starfandi einstaklingar fái atvinnuleysisbætur sett 1. okt. 1993. Það er því tiltölulega stutt reynsla fengin af þessari reglugerð. Þó er alveg ljóst að fram hafa komið, eins og við höfum rætt í dag, ýmis vandamál sem þarf að skoða varðandi sjálfstætt starfandi, enda var það svo að nefnd sú sem vann þessar reglur gerði ráð fyrir að í ljósi reynslunnar yrði þessi reglugerð endurskoðuð. Ég býst við að flestir geti tekið undir að í þeim reglum sem settar voru eru sett mjög ströng skilyrði fyrir því að sjálfstætt starfandi einstaklingar fái atvinnuleysisbætur. Ég hygg að ástæðan hafi verið sú að menn hafi viljað meta og sjá hvert umfang þetta yrði varðandi það að opna fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga. En mér finnst reynslan sýna okkur þótt stuttur tími sé að fram hafi komið á þessu ýmsir annmarkar þannig að fyrr en seinna þarf að endurskoða alveg þessa reglugerð um skilyrði þess að sjálfstætt starfandi einstaklingar fái atvinnuleysisbætur. M.a. þarf að skoða sérstaklega það sem hv. síðasti ræðumaður nefndi.