Skólaskip

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 17:47:20 (4083)


[17:47]
     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Þarna laukst upp nýr heimur í þessu máli. Það er sem sagt stefna mentnmrn. að

hafa ekki skólaskip. Það er stefna menntamrn. að það eigi ekki að vera til neitt skólaskip á vegum ríkisins. Hins vegar sé ekkert nema gott eitt um það að segja að sveitarfélögin smelli sér í það að hafa eitt og eitt skólaskip. Þetta er náttúrlega satt að segja alveg furðulegt miðað við þær áherslur sem við eigum auðvitað að hafa varðandi sjávarútvegsmál sem undirstöðuatvinnugrein í landinu.
    Það er líka alveg augljóst mál að þetta sjóvinnunám hefur komið sér mjög vel fyrir tiltekinn hóp nemenda sem að mörgu leyti hefur stundum verið erfitt að festa í fari venjulegra námsbrauta í grunnskólum. Þess vegna er það sem skólastjórar fjölmennra skóla í Reykjavík, eins og t.d. í Seljaskóla, hafa lagt á það mjög mikla áherslu að þessi starfsemi verði áfram í gangi.
    Ég tel hins vegar að svar menntmrh. sé því miður með þeim hætti að hann hafi í raun og veru vísað málinu alveg frá ráðuneytinu þó svo að fyrir því séu í sjálfu sér engin rök. Ég bendi á að menntmrn. ber ábyrgð á rekstri Stýrimannaskólans. Menntmrn. ber ábyrgð á rekstri Líffræðistofnunar háskólans. Menntmrn. ber ábyrgð á rekstri Háskólans á Akureyri þar sem sjávarútvegsfræði eru hrygglengjan í náminu. Af hverju skyldu þessir þættir ekki vera tengdir saman og tengdir við sjóvinnunám í grunnskólum í stað þess að ráðuneytið vísi málinu frá sér með þeim hætti sem hæstv. ráðherra gerði áðan og ég gagnrýni harðlega og heiti því ef tími vinnst til að á þessu þingi sjáum við dagsins ljós þingmál sem knýr á um að það verði tryggt að grunnskólarnir eigi eðlilegan aðgang að skólaskipi.