Kvikmyndaeftirlit

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 17:54:19 (4086)


[17:54]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Starf Kvikmyndaeftirlits ríkisins að skoðun kvikmynda hefur verið óbreytt þrátt fyrir brottfall ákvæða VI. kafla laga um vernd barna og ungmenna, nr. 53/1966, en í þeim kafla var fjallað um skoðun kvikmynda í kvikmyndahúsum og skipan og hlutverk skoðunarmanna kvikmynda.
    Frá gildistöku nýrra laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992, hefur starfsemi Kvikmyndaeftirlitsins byggst á ákvæðum laga um bann við ofbeldiskvikmyndum nr. 33/1983 og reglugerð um skoðun kvikmynda hjá Kvikmyndaeftirliti ríkisins nr. 614/1989 með áorðnum breytingum.
    Ég hef áður látið í ljós þá skoðun að nauðsynlegt sé að treysta starfsemi Kvikmyndaeftirlits ríkisins en löggjöf um starfsemi þess, skoðun kvikmynda, og bann við ofbeldiskvikmyndum hefur verið í endurskoðun. Nefnd sem annaðist það verkefni skilaði tillögum að nýju lagafrv. síðla árs 1992 og var þáverandi ráðuneytisstjóra í menntmrn. falið að yfirfara þær tillögur. Niðurstöður hans bárust menntmrn. í upphafi þessa árs og mun afstaða tekin til þess innan tíðar í ráðuneytinu hvort lagafrumvarp um þetta efni verður lagt fram á þessu þingi. Ég vonast eindregið til að svo geti orðið.