Sálfræðiþjónusta og félagsráðgjöf

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 18:19:06 (4096)


[18:19]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina. Ég vil vekja athygli á því að það er nokkuð langt til seilst að tíunda þá sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf sem fram fer á heilbrigðisstofnunum þegar verið er að ræða sameiginlega forsjá þó það hafi engu að síður verið dregið inn í umræðuna hér áður en hitt er annað að þetta er mjög nýtileg fsp. af hvaða uppruna sem hún nú er. Og ég legg áherslu á að þarna er í rauninni um mjög brýnt mál að ræða, bæði á sjúkrahúsum og á heilsugæslustöðvum, vegna þess að það er sífellt vaxandi skilningur á því hlutverki sem slík þjónusta gegnir.
    Ég vil líka vekja athygli á þeirri leið sem við Kvennalistakonur höfum bent á að hægt væri að fara á sjúkrahúsum en það er að koma upp trúnaðarmannakerfi fyrir sjúklinga en fyrir þeirri tillögu mun ég mæla nú von bráðar.