Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 15:46:32 (4120)


[15:46]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Hæstv. forseti. Allt frá því að kvótakerfið var tekið fyrst upp við stjórnun botnfiskveiða með lögum frá 28. des. 1983 hefur stjórnkerfi fiskveiða verið í stöðugri endurskoðun allt til þessa dags. Í raun hófst sú saga endurskoðunar sex árum fyrr eða árið 1977 þegar byrjað var á að takmarka þorskveiðar með svokölluðu skrapdagakerfi. Þannig hafa stjórnkerfin þróast og niðurstaða á þróunarferlinu jafnan tekið mið af stöðu sjávarútvegs á hverjum tíma, efnahagslegum skilyrðum í þjóðarbúinu og náttúrulegum aðstæðum í hafinu, ástandi fiskstofna og einnig ástandi og þróun byggðar í landinu og síðast en ekki síst pólitískum málamiðlunum á milli stjórnmálaflokka.
    Það er því ekki nýtt að um jafnmikilvæg og viðkvæm málefni ríki skoðanamunur, bæði á milli stjórnmálaflokka og innan stjórnmálaflokka líka. Frumvörpin sem nú liggja fyrir eru því grundvöllur að málamiðlun á milli stjórnarflokkanna í meginatriðum þótt mikið verk sé óunnið áður en endanleg niðurstaða liggur fyrir í nýjum lögum vonandi fyrir þinglok. Hér er um erfið, flókin og yfirgripsmikil mál að ræða og það þarf að vanda til verksins og sannarlega eru skiptar skoðanir sem hafa á síðustu mánuðum birst í miklum deilum. Það er því ekkert undarlegt þó að tekist sé á um málið, bæði innan stjórnmálaflokka og á milli stjórnmálaflokka og segir mér svo hugur að þær umræður sem hér munu eiga sér stað í dag munu bera þess nokkurt vitni.
    Til marks um þá öru þróun sem á sér stað í sjávarútvegi og sérstaklega við stjórn fiskveiðanna eru stöðugt að koma upp ný vandamál og viðfangsefni sem gildandi lög taka tæplega eða illa á. T.d. á þeim stutta tíma frá því að tvíhöfða nefndin lauk störfum í maí árið 1993 hafa komið upp nokkur mikilvæg viðfangsefni sem ekki voru til lykta leidd í nefndarstarfinu og e.t.v. vegna þess að þau höfðu þá ekki svo mikla þýðingu og þau virðast hafa nú. Má þar nefna stóraukna sókn íslenskra skipa í úthafsveiðar og innflutning og kaup ódýrra en fullkominna togara til slíkra veiða sem lög heimila ekki að skráð séu hér á landi, m.a. vegna aldurs. Þeirri spurningu verður nú að svara hvort slíkt eigi að heimila og tel ég að margt geti mælt með því og að það verði skoðað gaumgæfilega. Við stöndum andspænis því að þessi skip verði keypt af Íslendingum, þau verði gerð út frá Íslandi, þau verði gerð út á fjarlæg mið og það er ekki hægt að horfa fram hjá því að hér er að skapast mikilvæg veiðireynsla sem gæti orðið dýrkeypt fyrir þjóðina að annað ríki gæti notið þegar til framtíðar er horft.
    Þá er einnig rétt að minnast hér á deilur sjómanna og útgerðarmanna sem tóku á sig nýja mynd á síðustu vikum sl. árs. Það kemur í ljós af lestri skýrslu tvíhöfða nefndarinnar að á þetta mál er minnst, þátttöku sjómanna í kvótaviðskiptum, en ekki tekið á því sem slíku.
    Það er heldur ekki tekið á þessu efni í því stjfrv. sem hér liggur fyrir til umræðu og er ljóst að það verður verkefni þingsins núna næstu vikur að leiða til lykta þá deilu eða með öðrum hætti að beita sér fyrir því að sá hnútur verði leystur sem skapast hefur í samskiptum sjómanna og útgerðarmanna og þá sérstaklega með tilliti til þátttöku sjómanna í kvótakaupum. Í þessu sambandi vakti það sannarlega athygli mína og það leggur áherslu á hversu flókin þessi mál eru og hvað erfitt er að meta þróun þeirra þegar horft er til framtíðar, þegar ráðuneytisstjórinn í sjútvrn. kom fyrir sjútvn. og ég spurði hann að því hvort ekki hefði verið séð fyrir árin 1990 þegar lögin um stjórn fiskveiða voru undirbúin og sett að svo mundi fara með kvótaviðskiptin, kvótabraskið í landinu og síðast en ekki síst þátttöku sjómanna í þeim eins og raun ber nú vitni. Ég er hræddur um að ef fulltrúar sjómanna eða forustumenn Sjómannasambands Íslands, sem studdu það á sínum tíma að þessi lög voru sett 1990, hefðu séð fyrir um þá þróun sem hefur átt sér stað síðan, þá hefðu þeir ekki stuðlað að málinu með þeim hætti sem þeir gerðu þá. Ég trúi því að hv. þm. Halldór Ásgrímsson sem hér gagnrýndi Alþfl. fyrir það að vera með stefnu í sjávarútvegsmálum sem e.t.v. er kannski eitthvað nýtt fyrir Framsfl. að þurfa að vera með sjálfstæða stefnu í nokkrum málum, að ekki einu sinni hann hefði getað séð fyrir um það hvernig þessi þróun mundi verða vegna þess að ef hann hefði séð fyrir um þessa þróun í sambandi við kvótaviðskiptin, þá hefði hann stuðlað að því að það hefði verið staðið öðruvísi að setningu laga árið 1990. Og þetta enn og aftur leggur áherslu á það hvað þróunin er ör og að þessi málefni verða og eru í stöðugri endurskoðun. Það vill nefnilega gjarnan verða svo með þá sem tala ákafast fyrir einni leið í málinu að það fer að jaðra við að þeir trúi því að það sé engin önnur lausn til á viðfangsefnum sem koma upp hverju sinni.
    Miklar deilur hafa staðið yfir um kvótakerfið allt frá því að það var fyrst tekið upp við stjórnun botnfiskveiða. Það er rétt að það verður alltaf erfitt að finna kerfi sem fullnægir öllum þeim markmiðum sem við viljum ná fram við stjórnun veiðanna. Afkasta- og sóknargeta fiskiskipastólsins er meiri en fiskstofnarnir þola. Það setur þessu máli öllu skorður og ekki síst nú þegar stjórnvöld hafa neyðst til þess að draga meira úr veiðum á þorski sl. tvö ár en dæmi eru til um áður. Það setur þessari endurskoðun enn þrengri og erfiðari skorður og gefur lítið svigrúm til að fara inn á nýjar brautir við fiskveiðistjórnunina.
    Hæstv. forseti. Það er ekki úr vegi þegar jafnbrýn mál eru til umræðu hér á Alþingi að við horfum til baka og reynum að meta þá reynslu sem við höfum í farteskinu af þeim kerfum sem við höfum búið við við stjórnun fiskveiða að við reynum á grundvelli þeirrar reynslu að horfa til framtíðar. Mér segir svo hugur að sú niðurstaða sem þessi endurskoðun skilar eigi ekki eftir að standa lengi óbreytt áður en aftur verður kallað saman til nýrrar endurskoðunar til að takast á við enn ný viðfangsefni, enn ný vandamál sem ákvarðanir okkar nú í sambandi við þessa endurskoðun munu fela í sér. En hver hefur reynslan af kvótakerfinu verið? Hefur kvótakerfð skilað þeim árangri sem við væntum í upphafi þegar það var sett, þegar byrjað var að hanna þetta kerfi upp úr árinu 1983 og hefur verið að þróast allt til þessa? Og kannski fullhannað árið 1990. Þá er það fyrsta spurningin og fyrsti mælikvarðinn sem verður að setja og standa undir: Hefur þetta kerfi verndað fiskstofnana? Hefur árangurinn af þessu kerfi orðið sá að við stöndum uppi með sterkari fiskstofna í sjónum nú en við gerðum 1983?
    Það er rétt að minnast þess að árið 1983 þegar tekið var til við að undirbúa að setja þetta kerfi á kom út mjög svört skýrsla, ein sú svartasta sem Hafrannsóknastofnun hefur gefið út. Og einmitt á árinu 1983 og 1984 ef ég man einhverjar tölur, þá náðu íslensku fiskiskipin ekki útgefnum aflaheimildum og voru með heildarþorskafla 287 þús. tonn eða undir 300 þúsund tonnum sem taldist hrun á þeim árum og rétt um 300 þúsund 1984. Og þetta var e.t.v. tilefni til þess að menn báru mikinn ugg í brjósti gagnvart framtíðinni. En síðar meir kemur í ljós að þessi sömu ár, 1983 og 1984, eru þau bestu nýliðunarár þorskstofnsins um margra, margra, margra ára skeið og byggja upp þann þorskstofn sem við höfum verið að lifa af út allan síðasta áratug, jafnvel fram á þennan dag í dag. Og þetta vekur sannarlega spurningar, annars vegar um hafrannsóknirnar sem ég ætla að koma frekar að á eftir og hins vegar það hvað því veldur að hlaupið er til og hannað kerfi til að takast á við ofveiði á grundvelli upplýsinga sem ekki eru þó réttari en svo að síðar meir koma nýjar upplýsingar fram sem gefa til kynna að ástandið í hafinu var með því besta sem hafði gerst um nokkurra ára skeið og það besta allt fram á þennan dag. Það er vonandi að slíkt sé að gerast í hafinu umhverfis landið núna. Það er vonandi. En það mundi svo sannarlega koma á óvart ef svo væri vegna þess að okkur hefur verið talin trú um hið gagnstæða að slíkt geti ekki átt sér stað.
    Þeirri spurningu verður að svara þegar þetta mál verður rætt í sjútvn.: Hefur kvótakerfið verndað fiskstofnana? Þegar við lítum yfir tölur um veiði frá árinu 1983 og til ársins 1991 þá sjáum við að það hefur yfirleitt alltaf verið farið fram úr útgefnum heimildum sem Hafrannsóknastofnun hefur lagt til og þegar við höfum búið við þetta kerfi þá stöndum við í þeim sporum 1991 að við þurfum að draga saman þorskveiðina meira en nokkurn tíma áður hefur verið lagt til. Er það kvótakerfinu að kenna? Er það kvótakerfinu að kenna, hv. þm. Stefán Guðmundsson, sem hefur mikla þekkingu á þessum málum? Við getum ekki komist hjá því að svara þeirri spurningu hvort það kerfi sem Framsfl. hefur barist mest fyrir að koma á hér í landi yfir stjórn fiskveiðanna, hvort það sé því kerfi að kenna að fiskstofnarnir standa jafnilla og Hafrannsóknastofnun staðfestir með skýrslum sínum. Það eru ekki mín orð. Ég er að velta hér fram spurningum ( StG: Ertu að biðja mig um að svara því?) sem við þurfum að standa frammi fyrir og eiga svör við.
    Í öðru lagi var sagt þegar kvótakerfið var sett á að það ætti að auka hagkvæmni í rekstri og draga úr skuldsetningu fyrirtækjanna. Og enn og aftur er ég viss um að það eru ekki allir sammála um svörin í þessum efnum heldur að kvótakerfið hafi skilað þeim árangri sem af stað var farið með hvað þetta varðar. Það hefur verið deilt á sjávarútveginn fyrir að auka skuldsetningu sína á sama tíma og lagt er að þeim að draga úr veiðunum. Þá hafa þeir aukið skuldsetninguna, í fjárfestingu meira að segja líka. Það er vonandi ekki kvótakerfinu að kenna. En kvótakerfið kemur hér við sögu af því að það átti að stuðla að hinu gagnkvæma. Það átti að draga úr fjárfestingu í sjávarútveginum. Það kann að vera eins og sumir hafa bent á að ef eitthvert annað kerfi hefði verið þá hefði því tekist langtum verr upp en aflamarkskerfinu og þess vegna hafi kvótakerfið verið betra þegar upp er staðið af því að það er ekki eins vont og önnur kerfi. Það kann að vera að öll kerfin séu vond með einhverjum hætti. En ef við ætlum að spyrja ærlega og heiðarlega og meta reynsluna af því sem við höfum sett upp þá verðum við að geta svarað þessari spurningu líka.
    Samhliða þessari spurningu verður einnig að spyrja að því hvort þetta kerfi hafi dregið úr afkastagetunni. Jú, jú, það má e.t.v. reyna að mæla það með einhverjum ráðum en erfitt er um vik að mæla. Samt 10 árum eftir að þetta kerfi var innleitt er það eitt stærsta vandamálið í sjávarútveginum að mati þeirra sem hafa áhyggjur af ofveiðinni, að afkastagetan sé allt of mikil. Þurfum við að búa við þetta kerfi 10 ár enn til þess að það skili fullum árangri við það að draga úr afkastagetunni?
    Í fjórða lagi, og þá verð ég sérstaklega að snúa máli mínu að hv. þm. Framsfl.: Var þetta kerfi besta lausnin eða málamiðlunin til þess að treysta byggð, treysta búsetuna í landinu og leggja grundvöll að lífskjörum fólks í sjávarbyggðunum? Það vill nú svo til að í minni heimabyggð hafði ég einmitt reynslu af hinu gagnstæða. ( StG: Hvar hefur aukningin orðið mest?) Ég hafði reynslu af hinu gagnstæða. Ég er að tala um mína heimabyggð. ( StG: Hvar hefur aukningin orðið mest, í hvaða kjördæmi?) Já, einmitt. Aukningin hefur orðið mikil á nokkrum stöðum, en það bitnar á öðrum stöðum. ( StG: Í hvaða kjördæmi?) Og ég er ekki viss um að það sé stefna félagshyggjuflokka ef Framsfl. vill enn telja sig til þess hóps í íslenskum stjórnmálum að það sé vogandi að setja atvinnuna á slík markaðstorg. Það er þess vegna sem Alþfl. hefur áhyggjur af því að þetta kerfi þurfi að vera hér við lýði um aldur og ævi. Það er þess vegna sem við höfum áhyggjur af því ef við horfum til þess að þurfa að búa við þetta kerfi um aldur og ævi. (Gripið fram í.) Við höfum áhyggjur af því að þetta raski um of byggð í landinu og síðast en ekki síst að það sé allt of mikil áhætta varðandi atvinnu fólksins fólgin í að það skuli ráðast af því hvernig þeir eigendur

sem eiga kvótann haga sér á markaðstorginu. (Gripið fram í.)
    Í sjötta lagi má aftur spyrja að því hvort kerfið hafi stuðlað að því að aðilar í sjávarútvegi hafi lagt áherslu á að leita nýrra fiskimiða og eflt veiðar sínar í ónýttum tegundum. Það má líka deila um þetta. Alla vega hefur samvinna okkar við útlendinga á úthafsmiðum verið okkur mjög gagnleg þar sem í samvinnu við útlendinga hafa fundist ýmsar nýjar smugur á úthafsmiðum sem við höfum getað nýtt okkur sérstaklega hin síðustu ár og ég er ekki viss um að það sé kvótakerfinu að þakka. Um það getum við deilt líka.
    Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafði áhyggjur af því að frv. sem hér liggur fyrir væri hugsanlega ekki nógu gott. Það er rétt. Málið er vont vegna þess að sannarlega erum við í vondri stöðu. Ef við værum nú að fiska 400 þús. tonn eins og þjóðin er vön að gera og hefur verið vön að gera í gegnum tíðina, 300--400 þús. tonn, þá ættum við ekki við þennan vanda að etja. Og það er það sem setur okkur skilyrðin þröng, gerir það að verkum að það er erfitt að stuðla að mikilli röskun hvað kerfið varðar akkúrat nú á þessum mánuðum. En stefna Alþfl., af því að hún hefur komið hér til umræðu, er skýr. Það var gott hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni að kynna þá stefnu hér. Hann las hana og kynnti hana fyrir hv. þm. Ég ætlaði mér að gera það. En nú hefur hv. þm. Halldór Ásgrímsson gert það og ég þakka honum fyrir það og ég veit að hann mun áfram boða þessa stefnu af því að hann sér að þegar allt kemur til alls er verið að ræða um drög að betri niðurstöðu en við erum neydd til þess að horfast í augu við núna um þessar mundir.
    Það má einnig geta þess að í stefnumótun Alþfl. fyrir þremur árum, svo að við leggjum áherslu á samkvæmni málsins, kemur greinilega fram, með leyfi forseta:
    ,,Alþfl. vill gerbreyta núverandi kvótakerfi sem er bæði ósanngjarnt og óhagkvæmt. Breytingarnar sem gera þarf eiga að taka mið af þörfum fólksins í sjávarbyggðunum og koma í veg fyrir óeðlilega samþjöppun veiðiheimilda og óeðlileg viðskipti með þær. Það er lífsspursmál að fiskveiðistjórnin sé sátt við fólkið í landinu.`` --- Ég endurtek: ,,Það er lífsspursmál að fiskveiðistjórnunin sé í sátt við fólkið í landinu.`` ( Gripið fram í: Er hún það ekki núna?)
    Já, eitt er stefna, annað eru gerðir og svo er enn annað málamiðlanir. Ekki trúi ég því að það hafi verið stefna fyrrv. sjútvrh., hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, þegar hann hafði forustu um að lögin um fiskveiðistjórnunina voru sett 1990 þar sem kveðið er á um að smábátar sem þá voru á krókaleyfum skyldu fara á aflamark með 2,2% heildarhlutdeild í aflanum, tæplega 3 þús. þorskígildislestir ef þetta hefði gengið eftir. Og allir sjá að ef þetta hefði gengið eftir 1. sept. 1994, þá hefði það lagt þennan útveg nánast í rúst og ekki bara þá einstaklinga og fjölskyldur sem þennan útveg stunda heldur ekki síður margar þær byggðir sem byggja afkomu sína á smábátaútgerðinni.
    Ég trúi því ekki að það hafi verið sérstakt baráttumál Framsfl. að koma málum þannig fyrir, enda hefur Framsfl. nú skipt um skoðun í málinu. Og ég fagna þeim skoðanaskiptum sem komu fram í máli hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, varaformanns Framsfl., áðan að hann ætlar að stuðla að þeirri lausn sem stjórnarflokkarnir leggja upp með í þinginu um úrvinnslu krókaleyfisbátanna. Já, eitt er stefna, annað er málamiðlun, það kann að vera og fáir ættu að hafa meiri reynslu af því en hv. þingmenn Framsfl. í gegnum tíðina. Það eru ekki mín orð að saka Framsfl. um að það hafi verið stefna hans árið 1990 að loka nánast fyrir smábátaveiðar, smábátaútgerð hér á landi árið 1994. Ég trúi því ekki. Það var hluti af málamiðlun.
    Virðulegi forseti. Í sambandi við veiðar smábátanna, þá hefur hér verið lagður grunnur að útfærslu og samkomulagi. Það er rétt að hér eru lagðir til allmargir banndagar og má víst um það deila hvort þeir séu fleiri en nauðsyn ber til. Eitt vil ég þó nefna í þessu sambandi. Ég tel afar óskynsamlegt að byggja þetta upp á sjö banndögum í lok hvers mánaðar, það mismunar aðstæðum eftir landshlutum. Og síðast en ekki síst held ég að það sé ekki heppilegt fyrir útgerðarmynstur sem þetta að svona samfellt langt bann verði í hverjum mánuði, fyrir utan það að þetta hlýtur að koma illa við vinnsluna í landi sem byggir á veiðum smábátanna. Þess vegna held ég að það verði að skoða mjög gaumgæfilega hvort hægt er að komast af með færri banndaga og í öðru lagi að dögunum verði dreift öðruvísi. Vil ég nefna þá hugmynd að t.d. allir sunnudagar verði teknir inn í banndagafjöldann. Það verður skoðað gaumgæfilega, vona ég, í hv. sjútvn.
    Hæstv. forseti. Ekki verður komist hjá að ræða þessi mikilvægu mál öðruvísi en að minnst sé á Hafrannsóknastofnun. Það eru miklar kröfur gerðar til Hafrannsóknastofnunar og það hvílir sannarlega mikil ábyrgð á þeirri stofnun og í raun skipta áætlanir hennar og niðurstöður svo miklu fyrir afkomu þjóðarbúsins, allra fjölskyldna í landinu og lífskjör að að slíkri stofnun verður að búa vel. Það verður að segjast eins og er að það hefur þessari hæstv. ríkisstjórn ekki tekist, að hlúa að Hafrannsóknastofnun eins og hefði átt að gera. Hún býr við fjársvelti. Hún getur ekki staðið undir þeim miklu kröfum sem til hennar eru gerðar og þar af leiðandi ekki byggt sínar áætlanir og sínar niðurstöður á þeim trausta grunni sem ég veit að æskilegast væri. Þess vegna tel ég afar brýnt að það verði nú skoðað rækilega hvort ekki sé löngu kominn tími til að stórefla Hafrannsóknastofnunina og starfsemi hennar. Það kostar fjármuni og þá fjármuni verður að taka frá öðrum og færa þeim og ég vona að um það geti náðst góð samstaða við fjárlagagerð fyrir næsta ár.
    Þá er ekki heldur hægt að komast hjá þeirri spurningu sem verið hefur til umræðu síðustu daga, hvort ástæða sé til að bæta við heildarþorskkvótann. Ég vil í því sambandi segja að það er náttúrlega algert ábyrgðarleysi að ýta slíkum hugmyndum gersamlega frá sér. Ef nýjar upplýsingar gefa tækifæri til þá eigum við að byggja á þeim upplýsingum þó á miðju kvótaári sé og bæta við kvótann ef þess er nokkur

kostur. Sjómenn tala um meiri fiskgengd í sjónum núna síðustu vikur og sérstaklega síðustu mánuði. Það er meiri loðna í sjónum en verið hefur, sem gefur vonir um að skilyrðin fyrir þorskinn séu betri en oft áður. Síðast en ekki síst verður að horfa til þess hversu lengi sjávarútvegurinn þolir það og atvinnulífið í landinu og ég nefni ekki byggðirnar, þegar útgefinn kvóti verður upp urinn löngu áður en kvótatímabilinu lýkur.
    Ég treysti hæstv. sjútvrh. til þess að fylgjast mjög gjörla og vel með þessu máli. Hér má ekki rasa um ráð fram og hér verður að fara varlega og hér verður náttúrlega að byggja á einhverjum öðrum grunni en tilfinningum. En spurningin er sú og sérstaklega með það í huga ef togararall er fram undan, hvort nýjar upplýsingar kunni að gefa okkur von um að það megi þegar fara að nýta sér afrakstur friðunar síðustu tveggja ára.
    Hæstv. forseti. Ég ætla að fara að ljúka máli mínu. Hér er um mikilvægustu málefni að ræða sem þjóðin stendur frammi fyrir. Ég vil aftur leggja áherslu á að það er trú mín að hér sé verið að skipa málum til stutts tíma. Hér er verið að skipa málum til stutts tíma af því að þróunin í sjávarútvegi er svo ör að það þarf alltaf að grípa inn í með nýjum leiðum og nýjum viðbrögðum. Ég vil einnig láta þá von í ljós að fiskstofnarnir í sjónum muni vænkast og hressast svo fljótlega að þeir muni gefa okkur svigrúm til þess að komast út úr þeim ógöngum sem kvótakerfið hefur sannanlega sett okkur í. Hvort sá tími er nú efast ég um, en ég vona að sá tími verði senn í nánd.