Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 17:56:43 (4135)


[17:56]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var ágætt að fá loks svar við þeirri fsp. sem ég beindi til hv. þm. í minni ræðu þar sem spurði ég hann um afstöðu til kvótaþings. Það fór ekkert á milli mála hver hún er. Hv. þm.

er neikvæður gagnvart kvótaþingi. Ég hlýt því að hafa tilefni til að spyrja hv. sjútvrh., a.m.k. í umræðunni á morgun, hvað hann meini yfirleitt með því að vera að vísa því málinu um kvótaþingið yfir í þessa umræðu þar sem hann hefur ekki stuðning sinna eigin manna í þessu.
    Í öðru lagi þá verð ég að vera sammála hv. þm. að það er hálf sorglegt að heyra menn vera að ræða hér bráðabirgðalausnir. Nú á sá forseti sem situr í stólnum ekki hægt með að koma og ræða málin og ekki ætla ég að fara að tala fyrir hann en ég bendi á að þarna er ansi mikill áfellisdómur á hæstv. forseta Gunnlaug Stefánsson og fleiri sem eru eða eiga að heita samherjar hv. þm. í þessum málum og eru í Alþfl. Þeir líta á þetta sem bráðabirgðafyrirkomulag og ekkert annað. Það hefur komið glöggt fram í þeirra máli.
    Í þriðja lagi er atriði sem ég get ekki tekið undir með hv. þm. og ég spyr: Hvað í ósköpunum er svona hagkvæmt við kvótakerfið? Heyrði ég rétt? Vissulega hafa ákveðin fyrirtæki hagrætt en það hafa líka önnur fyrirtæki farið á hausinn. Og hvað eru margir milljarðar farnir í súginn með því? (Gripið fram í.) Hvaða hagkvæmni er það þegar í þjóðfélaginu eru margir milljarðar í skuldsetningu og ógoldnum skuldum og gjaldþrotum? Ekki síst vegna þess að kvótakerfið hefur farið misvel með aðila. ( Gripið fram í: Hvað hafa heimildirnar minnkað mikið?)