Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 22:23:39 (4177)


[22:23]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegur forseti. Þau gögn sem nú mynda rammann um umræðu um stjórn fiskveiða eru að sjálfsögðu það frv. sem hér er til umræðu í dag á þskj. 360, frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38 15 maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. En auk þess er hér að finna sem fylgiskjal með frv. grundvallarplagg um þessi mál sem er skýrsla tvíhöfða nefndarinnar svonefndu til sjútvrh. frá því í apríl 1993. Að lokum verður að nefna til sögunnar tillögu sérstakrar nefndar sem samdi skjal sem nú liggur fyrir hæstv. sjútvn. þar sem koma fram hugmyndir um svokallað kvótaþing.
    Ég mun lítillega færa í tal þau atriði frv. sem mér finnst einkum og sér í lagi athugaverð og bera saman við þau atriði í þessari skýrslu tvíhöfða nefndarinnar sem ég lít á sem grundvallarplagg í þessum umræðum og fara síðan nokkrum orðum um kvótaþingið.
    Eftir því sem umfjöllunin í samfélaginu verður meiri um stjórn fiskveiða sannfærist ég betur og betur um það að sú skýrsla sem kennd er við tvíhöfða nefndina taki á stjórn fiskveiða með skynsamlegum hætti og sú gagnrýni sem fram kom eftir að þeirri skýrslu var skilað, sem var allmikil og kom víða fram, hafi ekki leitt til þess að fram hafi komið hugmyndir sem bæta þær sem fram koma í þessari skýrslu.
    Kvótakerfið er eini skynsamlegi grundvöllurinn sem menn hafa fundið til stjórnunar á fiskveiðum hér miðað við ástand fiskstofnanna. Eftir því sem umræðan verður ítarlegri um þessi mál þá kemur það betur og betur í ljós að það er ekki vænlegt til árangurs að vera með ýmsum hætti að vekja til lífsins einhverjar útgáfur af sóknarmarki sem margsinnis hefur komið í ljós að er ónothæft. Það á ekkert síður við hugmyndir sem miða að því að vekja til lífs eða búa til stýrikerfi sem byggir á sóknarmarki innan ákveðins aflamarks. En út á það ganga nú hugmyndir sem hér eru settar fram í þessu frv.
    Þeir gallar sem komu fljótlega fram eftir að kvótakerfið var sett á voru fyrst og fremst tengdir því að ákveðinn hluti flotans var ekki bundinn kvótanum. Það voru göt á þessu kerfi sem áttu eflaust fyrst og fremst rætur að rekja til þess að það var verið að þreifa sig áfram í stýringu á nýtingu auðlindarinnar við aðstæður sem menn þekktu ekki nógu vel. Reynslan hefur síðan smám saman sýnt að þessi frávik frá kvótanum voru skaðleg og opnuðu á ýmislegt í sambandi við kvótakerfið sem veikti það til lengdar. Það eru fyrst og fremst þessi göt og afleiðingar þeirra sem hafa skapað neikvæða umræðu um kvótakerfið síðan.
    Það sem er að finna í þessu frv. er varðar þessi atriði er einkum og sér í lagi þær tillögur sem lúta að útgerð báta sem stunda nú krókaveiðar. Lagt er til að þeim verði heimilt að velja á milli veiðileyfis með aflahlutdeild eða krókaleyfis með banndögum. Þetta kerfi er þó að því leyti til kvótabundið að í 2. gr. frv. segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Hámarksafli skv. 4. mgr. á viðkomandi tímabili næsta fiskveiðiárs skal lækka sem umframaflanum nemur.``
    Það er hámark á þessu sem leiðir til þess að ef farið er yfir hámarkið þá verður banndögum fjölgað á næsta fiskveiðiári og er þannig komið inn bæði tímatakmörkunum á þessar veiðar en einnig hámarksafla. Þetta þýðir í raun og veru að það kerfi sem er lagt til á þessum veiðum er í eðli sínu eins konar skrapdagakerfi þar sem almenn markmið um hámarksafla eru sett en einstökum smábátaútgerðum sem kjósa þetta veiðiform er frjálst að sækja innan þessa ramma. Það eru allir gerðir ábyrgir fyrir því að heildarramminn verði ekki sprengdur. Verði hann sprengdur þá er öllum refsað sem hafa kosið að veiða samkvæmt þessu fyrirkomulagi.
    Ég hygg að þarna sé verið að búa til kerfi sem er eins konar frestur á vandræðum en mun vinda upp á sig skjótlega eftir að það fer að virka. Ég er þeirrar skoðunar að þarna sé verið að búa til einhvers konar vítahring sem mun væntanlega opinberast mönnum á tveimur árum eða svo, þ.e. eftir að fiskveiðikerfið er farið að virka til fulls. Þetta kerfi endurtekur því að hluta til þau mistök sem urðu á árunum fyrir kvótakerfið þegar veikleikar skrapdagakerfisins komu í ljós. Ég tel því að miðað við tillögur tvíhöfða nefndarinnar þá sé hér um að ræða afturför, afturhvarf frá hugmyndum tvíhöfða nefndarinnar til eins konar fortíðarvanda í stjórn fiskveiða. Þetta á að sjálfsögðu einnig að talsverðu leyti við um línuveiðarnar, eins og tekið er á þeim veiðum hér í frv., og er ég áhyggjufullur út af því að þessi tvö ákvæði muni grafa undan heildarstjórn fiskveiða og flokkist þar af leiðandi í raun og veru undir frestun á þessum vanda.
    Það var vissulega mikil ögurstund í sögu íslensks sjávarútvegs þegar kvóti var settur á á sínum tíma. Ég hygg að allir séu sammála um að það hafi ekki verið af góðu einu sem það var gert. Það var neyðarúrræði að koma á kvóta og takmarka veiðar með þeim hætti. Það er engu síður mín skoðun að það hafi verið skásti kosturinn sem hægt var að grípa til í erfiðri stöðu þegar kvótinn var bundinn við skip. Og hvers vegna var hann bundinn við skip? Er hægt að segja eins og hefur verið endurtekið hér í þjóðfélaginu, bæði í rituðu máli og töluðu, hvað eftir annað, uns menn eru farnir að trúa ósannindunum, er hægt að fullyrða að kvótanum hafi verið úthlutað á skipin ókeypis? Að sjálfsögðu ekki. Að sjálfsögðu er þar ekki um neina ókeypis úthlutun að ræða. Grundvöllur þess að kvótinn var settur á skip er sá að það var ekki fær nein önnur leið. Þá stunduðu menn sjó vegna þess að þeir áttu skip eða komust á sjó á skipum. Fjárfesting í þessum skipum var á ýmsum stigum, sumir áttu skip sín skuldlaus aðrir áttu skip sem voru hlaðin skuldum. Fjárfestingin í þessum skipum var að sjálfsögðu fólgin í því að þau voru atvinnutæki sem voru notuð til að nýta auðlindina. Ef kvótinn hefði verið tengdur einhverju öðru en fiskiskipunum þegar hann var settur á þá hefði í raun og veru grundvöllur fjárfestinga undanfarinna ára hrunið með öllu. Það var því ekki fær önnur leið en að gera þetta með þessum hætti og það er ekki hægt með neinu góðu móti að halda því fram að þegar eigendum skipa var veitt heimild til þess að sækja sjó og draga afla sem var í samræmi við það sem þeir höfðu dregið undanfarin ár að þá hafi þeim verið veitt eitthvað ókeypis. Að sjálfsögðu eru viðmiðunarárin alltaf álitamál en að öðru leyti en þessu þá tel ég að það hafi ekki verið hægt að feta eðlilegri leið eða binda kvótann við ákveðna aðila en einmitt að binda hann við eigendur skipanna.
    Frá því að kvótinn var settur á hefur sú staðreynd að binda kvótann við skip og gera kvótann að seljanlegum verðmætum með skipunum og síðan að viðbættum ýmiss konar breytingum sem hafa verið gerðar á því sem hafa gert kvótann enn seljanlegri, enn hreyfanlegri, þá hefur þetta fyrirkomulag verið grundvöllur fjárfestingar í landinu. Það að kvótinn var bundinn við skipin gerði greininni einnig fært að hagræða og ég get fullyrt það hér að kaup á kvóta og viðskipti með kvóta leystu með vissum hætti ýmiss konar fjárfestingarvandamál. Þau leystu líka rekstrarvandamál ýmissa útgerða sem seldu kvótann sinn og komust þannig hjá gjaldþroti. Ég er líka þeirrar skoðunar að með þessari innri hagræðingu greinarinnar hafi bankakerfi þjóðarinnar verið losað við þungar álögur sem ella hefðu lent á því.
    Með öðrum orðum, eins og ég sagði áðan, þá hefur verið fjárfest í kvótanum. Fyrir utan þessa afhendingu aflahlutdeildarinnar á skipin hefur verið fjárfest í kvóta í ríkum mæli af hálfu þeirra útgerða sem best hafa staðið sig og þessi viðskipti hafa verið gerð á grundvelli viðskiptafrelsis.
    Þetta viðskiptafrelsi hefur nú verið talað um að hefta með því að beina þessum viðskiptum á uppboðsmarkað. Það eru að sjálfsögðu viðskiptahöft. Viðskipti geta verið mjög hagstæð á öðrum grundvelli heldur en verðlagsgrundvelli einum. Það getur verið mjög hagstætt fyrir fyrirtæki að tryggja sér viðskipti, jafnvel þó um hærra verðlag sé að ræða, ef því fylgir örugg hráefnisöflun. Allir vita að það mundi hafa veruleg áhrif á markað með notaða bíla ef eigendur þeirra væru skyldaðir til þess samkvæmt lögum að senda þá á uppboðsmarkað og hygg ég að margur bíleigandinn mundi lenda í klónum á glannalegum uppboðsaðilum sem byðu hátt í bílana en væru ekki borgunarmenn fyrir þeim. Að sjálfsögðu getur verið hagstætt að selja bílinn sinn á lægra verði ef kaupandinn er tryggur og það er það sama sem gildir í sambandi við viðskipti með kvóta. Fyrirtækin hafa með kvótakaupum og kvótaviðskiptum tryggt hráefnisöflun sína og þessi aðferð við að tryggja hráefnisöflun er nú hægt og bítandi orðin undirstaða fiskvinnslunnar í landinu, hún er orðin undirstaða þróunarstarfs í fiskvinnslu og hún er orðin undirstaða sölustarfsemi og markaðstengsla.
    Mörg fyrirtæki, og þá kannski einkum og sér í lagi þau sem hafa náð lengst í því að skapa trygg og góð markaðstengsl við erlenda markaði fyrir fullunnar afurðir, hafa komið þessum samskiptum á vegna þess að með kaupum á kvóta og með viðskiptum við þá aðila sem eiga kvóta hafa þau getað komið á mjög tryggum viðskiptasamböndum fyrir fullunnar vörur. Þessi viðskiptasambönd og örugg hráefnisöflun er það sem heldur lífinu í þessum markaðstengslum og það er ekki hægt að sjá að fyrirtækin sem hafa gengið þessa leið hefðu getað tryggt stöðu sína eða sókn á erlendum mörkuðum, ellegar þá fullvinnslu, sem þau hafa nú þegar hafið, öðruvísi en að tryggja það með þessum hætti.
    Það má nefna allmörg fyrirtæki af þessu tagi sem eru nú í fremstu röð þeirra sem bjóða upp á fullvinnslu sjávarafurða og hafa skapað mjög sterk markaðstengsl við erlenda aðila. Ég nefni matvælafyrirtæki í sjávarútvegi og fiskvinnslu á Dalvík sem dæmi um þetta.
    Það má einnig nefna að Útgerðarfélag Akureyringa, sem er á hlutabréfamarkaði, hefur fjárfest mjög verulega í kvóta en stundar auk þess umfangsmikil viðskipti með kvóta og þar á meðal viðskipti sem nefnast tonn á móti tonni. Með þessum hætti tekst Útgerðarfélagi Akureyringa ekki einungis að tryggja eigin starfsemi og eigin útflutningssambönd heldur tekst fyrirtækinu einnig að tryggja rekstur ýmiss konar útgerða. Ég get nefnt það sem dæmi að Útgerðarfélag Akureyringa leggur einni útgerð í Eyjafirði til 900 tonna kvóta en skipið leggur á móti 900 tonn. Án þessa kvóta, sem er í raun og veru fenginn frá Útgerðarfélaginu og Útgerðarfélagið hefur fjárfest í fyrir hönd sinna hluthafa, þá er útgerð þessa skips möguleg. Án þessara viðskipta væri enginn grundvöllur fyrir útgerð skipsins og er ljóst að þeir sem þar starfa mundu sjá atvinnu sína í uppnámi ef þessi viðskipti væru ekki leyfð. Þetta er aðeins eitt dæmi af mjög mörgum um það hversu þessi viðskipti eru orðinn náinn hluti af uppbyggingu sjávarútvegsfyrirtækjanna, bæði útgerðarinnar og einnig fiskvinnslunnar.
    Ég tek annað dæmi um útgerðarfyrirtæki sem hefur fest kaup á rækjukvóta sem fyrirtækið safnar saman út um allt land og lætur síðan þrjú skip veiða. Það er Fiskiðjusamlagið á Húsavík sem gerir með þessum viðskiptum útgerð þriggja rækjuskipa mögulega sem ekki væri annars kleift að gera út.
    Þessi viðskipti hafa ekki einungis staðið undir þróun fiskvinnslu og markaðstengsla erlendis heldur eru þau beinlínis orðinn hluti af þeim grundvelli sem hlutabréfamarkaðurinn er farinn að vinna á. Fyrirtæki eins og Útgerðarfélag Akureyringa er á opinberum hlutabréfamarkaði. Gengi bréfanna rokkar þar eftir því hvernig tekst að reka fyrirtækið. Fyrirtækið hefur lagt út í veruleg kaup á kvóta eftir þeim reglum sem giltu í þjóðfélaginu og verðmæti hlutabréfanna er að sjálfsögðu nátengt því hversu vel hefur tekist til í fjárfestingum þessa fyrirtækis. Það er ekki nokkur vafi á því að ef löggjafinn hróflar við þeirri heimild sem hefur verið ríkjandi hér, að flytja aflahlutdeild og aflamark milli skipa, og stöðvar frjáls viðskipti með þessi verðmæti, þá er verið að grafa undan meiru en einu fyrirtæki. Það er verið að grafa undan meiru en einu skipi út með firði í Eyjafirði. Það er verið að grafa undan meiru en þremur rækjubátum sem veiða fyrir Húsvíkinga. Það er verið að setja í uppnám hlutabréfamarkaðinn að því er varðar útgerðarfyrirtækin sem á annað borð eru komin inn á þennan markað. Þessi hlutabréfamarkaður er ungur hér á Íslandi og veikburða. Meðal sterkustu fyrirtækjanna á þessum markaði eru einmitt ákveðin útgerðarfyrirtæki. Ef það á að stíga þau hæpnu skref hér á Alþingi að afnema heimildir til þess að fjárfesta í kvóta og flytja hann milli skipa þá verða menn að gera sér grein fyrir því hvers kyns skemmdarstarfsemi er verið að vinna á íslensku atvinnulífi.
    Ég sé, virðulegur forseti, að tími minn er útrunninn.
    ( Forseti (GunnS) : Nei, aldeilis ekki.) Þá er eitthvert ljósaspil hér í ræðupúlti, ( EKG: Það var verið að gefa út aukinn kvóta.) sem ég geri ráð fyrir að forseti stjórni. ( Gripið fram í: Hann er frír þessi kvóti.) En miðað við að ég hef fengið hér auka kvótatíma þá ætla ég að nýta hann. Ég ætla að nýta hann og ég tek það fram við hv. þm. að þessi kvóti er ekki seljanlegur. (Gripið fram í.)
    Ég vil vekja athygli á þessu atriði málsins, vegna þess að mér finnst að hér hafi verið rætt af nokkru alvöruleysi, um það hversu þessi frjálsu viðskipti með kvóta hafa eiginlega samofist örlögum margra fyrirtækja hér á Íslandi og kannski einkum og sér í lagi þeirra fyrirtækja, sem hafa leikið eftir leikreglunum öðrum fremur, sem hafa lotið stjórn ábyrgra manna sem hafa leitast við að koma þessum fyrirtækjum í gegnum erfiða tímann og hafa laðað til samstarfs við sig sparifjáreigendur meðal einstaklinga en einnig, svo tekið sé dæmi af Útgerðarfélagi Akureyringa, hafa lífeyrissjóðir þar fest kaup á hlutabréfum í stórum stíl. Þannig að fjárfestingin í flytjanlegum kvóta er grundvöllur undir starfsemi þessara fyrirtækja og hlutabréfamarkaðar á Íslandi.
    Ég vil ekki gera lítið úr þeim vandræðum sem ákveðnar útgerðir og ákveðin byggðarlög eru í. Það væri fjarri mér að gera lítið úr þeim vandræðum. En ég vil benda á að menn bæta ekki stöðu þessara landshluta eða þessara byggðarlaga eða þessara útgerða með því að grafa undan grundvelli annarra fyrirtækja sem hafa leikið samkvæmt þeim reglum sem löggjafinn hefur leitt hér í lög. Að þessu leyti til er ég þeirrar skoðunar að grundvallarniðurstaða tvíhöfða nefndarinnar, um að kvótakerfið skuli vera grundvöllur fiskveiðistjórnunar á Íslandi, sé rétt niðurstaða og frávik frá þeirri grundvallarskoðun séu til skaða. Þó svo ég sé ekki að segja hér og nú að ekki megi líta á ýmsa möguleika til að ná sáttum um þetta viðkvæma mál þá tek ég það fram að þetta frv., eins og það lítur hér út, er að vissu leyti gallað. Ég hef gert athugasemdir við það þegar ég hef fjallað um það í mínum þingflokki. Án þess að vera með neinar yfirlýsingar um hvort ég vilji hér og nú segja af eða á um stuðning minn við frv. eða ekki, þá tel ég rétt að það komi hér fram að þarna eru atriði sem ég tel vera heldur til skaða og veiki kvótakerfið í heild, sem þó sé skásti kosturinn sem við höfum til að stýra okkar sókn í auðlindina.
    Ég held að ég fari ekki fleiri orðum um þessi mál að sinni, það gefst tækifæri til að ræða þau aftur og ítarlegar við 2. umr. En ég get þess hér í lokin að mér finnst miður hversu margir hafa í raun og veru sameinast um það að mæla með þessu svokallaða kvótaþingi, sem teljast þó vera málsvarar hagsmuna sjómanna og fiskvinnslufólks, án þess að ég sjái með nokkru móti að hægt sé að verja það að kvótaþingið sem slíkt, uppboðsmarkaður á aflaheimildum, verndi hagsmuni sjómanna og fiskvinnslufólks innan atvinnufyrirtækja í mínu kjördæmi eins og ég þekki það best. Ég held þvert á móti að hugmyndirnar um kvótaþing fari gegn hagsmunum þessa fólks og mig undrar að talsmenn launþegahreyfinga skuli mæla þessu bót.