Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 23:27:07 (4188)


[23:27]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hef reyndar heimsótt fyrirtæki í Grundarfirði og meira að segja það fyrirtæki sem hv. þm. er að tala um og ég hef reynt að kynna mér það hvernig er að reka fyrirtæki í sjávarútvegi á Vesturlandi og líka annars staðar. Ég hef gert mér alveg fullkomlega grein fyrir því hvernig menn fara að því að fá þennan gróða sem hv. þm. hefur talað fjálglega um. Og ég tel mjög óeðlilegt að hafa það kerfi í gildi áfram. Ég tel að hv. þm. ættu . . .  ( VE: Finnst þér ekki gróði óeðlilegur?) Nei, ég tel ekki að gróði sé óeðlilegur. En ég tel að hv. þm., sem hefur gengið fram í því sem forustumaður í Verslunarráðinu að reyna að koma á því sem hann kallar eðlilegar leikreglur í verslun og viðskiptum, ætti að skilja svolítið betur hvað það er sem hann er að tala um. Hvers konar kerfi það er sem hann er að verja. Það er einokunarfyrirkomulag sem er ekki hægt að líkja við neitt sem heitir frjáls verslun eða eitthvað því um líkt. Það er einokunarfyrirkomulag og einungis þröngur hópur útgerðarmanna í landinu getur notfært sér það. Það hafa ekki allir haft sömu aðstöðu til þess að komast yfir veiðiheimildir t.d. Það veit hv. þm. Þetta kerfi kemur þannig út að útgerðarmenn í landinu sem eru bara að gera út, hv. þm., þú ættir að velta því svolítið betur fyrir þér, eiga enga möguleika á því að keppa um veiðiheimildir við aðila eins og þá sem verið er að verja í kvöld. Þeir eiga enga möguleika til þess. Það er alveg makalaust að LÍÚ-forustan skuli í sameiningu við sjómenn í vetur hafa látið sig hafa það að berjast fyrir því að annars vegar fengju útgerðarfyrirtæki, sem hafa bæði útgerð og fiskvinnslu á sínum snærum, að kaupa kvóta með þessum hætti og hins vegar ættu útgerðarfyrirtæki, sem eingöngu væru í útgerð, að borga kvótann einir en sjómenn ekki taka þátt í því. Annars vegar börðust þeir fyrir því að sjómenn yrðu látnir borga í tonn á móti tonni viðskiptunum. Hins vegar sögðu þeir við sjómenn: Við skulum standa með ykkur í því að koma í veg fyrir að þið séuð að taka þátt í kvótaviðskiptum þegar útgerðarmaðurinn ykkar kaupir kvótann.