Listaháskóli

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 14:07:01 (4242)


[14:07]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það þarf ekkert að hvetja mig til þess að fara varlega. Ég tel mig einmitt hafa sýnt það með því að leitast við að kanna sjónarmið þeirra sem eiga að búa við þennan væntanlega listaháskóla. Það hef ég einmitt verið að gera. Og eins og ég sagði áðan, þá kannast ég við gagnrýnisraddir og efasemdarraddir, einkum úr hópi nemenda Myndlista- og handíðaskólans. Þær komu mjög skýrt fram á síðasta fundinum sem við héldum í lok janúar.
    Hvort þetta stjórnarfyrirkomulag sé hið heppilegasta ætla ég ekki að leggja neinn dóm á hér. Ég veit að það eru skiptar skoðanir um það hvort í stjórn skóla eigi að sitja menn sem hafa bein tengsl, kennarar og nemendur. Það er nokkuð sem við verðum sjálfsagt aldrei sammála um en það er mikill misskilningur ef menn halda að með því séu öll tengsl rofin við hinar einstöku deildir skólans. Það er mikill misskilningur ef menn halda það. Við þekkjum fyrirkomulag ekki óáþekkt þessu, ekki síst í skólakerfinu. Þetta eru ekki allt saman ríkisskólar. Ég nefni nú bara Samvinnuháskólann sem hv. þm. þekkir og situr í stjórn ef ég veit rétt.