Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 14:52:39 (4257)


[14:52]
     Frsm. 2. minni hluta allshn. (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. formanni allshn. fyrir þá tillögu sem allshn. flytur hér og ég tel að komi að mestu leyti til móts við þá hugmynd sem lá að baki brtt. 2. minni hluta allshn. sem flutt var við 2. umr. málsins og þá var dregin til baka og mun því ekki verða flutt aftur við þessa umræðu. Þetta er að sjálfsögðu gert með þeim skilningi sem ég held að hafi mátt lesa úr orðum hv. formanns að þessi gjafsóknarheimild verði notuð undantekningarlaust til þess að koma í veg fyrir að málsaðili sem ekki á neinn þátt í því að dómari ákveði að leita álits EFTA-dómstólsins verði ekki fyrir útgjöldum af þeim sökum. Það er rétt að starfsreglur liggja ekki enn fyrir. Við inntum eftir því hvað því máli liði og var tjáð að dómsmrn. vissi ekkert enn þá hvenær þeim yrði lokið og hvað þá endanlega mundi í þeim standa. En það er nokkuð augljóst að sú gjafsóknarheimild sem þar er gert ráð fyrir mun ekki nægja til þess að ná því markmiði sem ætlast var til með þeirri brtt. sem við fluttum við 2. umr. Við spurðum einnig nokkurra spurninga um kostnað sem væri líklegur fyrir okkur af þessum dómstóli, hver yrði heildarkostnaður. Okkur var tjáð að það væri engar upplýsingar að hafa um það. Þá vaknaði sú spurning hvernig fer ef eða þegar flestar EFTA-þjóðirnar verða gengnar inn í Evrópusambandið, sem nú mun heita svo, og standa þá ekki lengur orðið að EFTA-dómstólnum. Hversu miklar byrðar verður þá búið að binda okkur Íslendingum með þessari stofnun, hversu lengi verðum við þá að losna út úr þeim kvöðum sem augljóst er að hljóta að standa eftir þegar hin ríkin eru farin. Ég veit ekki hvort hæstv. dómsmrh. getur gefið okkur einhverjar upplýsingar um það, hvort sú hlið hefur verið skoðuð. Það er augljóst að þetta getur farið svo og reyndar heyrum við sagt jafnvel af hálfu fulltrúa utanrrn. að það séu miklar líkur til að breyting verði á EFTA-aðildinni áður en langt um líður.
    Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta hér, en endurtek þakkir mínar til meiri hluta allshn. að taka undir brtt. 2. minni hluta á þennan hátt en vil jafnframt láta það koma fram að enn þá eru inni í frv. ákvæðin um heimild til héraðsdómstóla að leita álits EFTA-dómstólsins sem við teljum óþarft og rangt að hafa inni. Því get ég ekki stutt málið í heild meðan það stendur inni.