Stöðvun verkfalls fiskimanna

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 15:40:54 (4268)


[15:40]
     Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er auðvitað með ólíkindum að einn af forsetum þingsins, hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, skuli nota tíma sinn í andsvörum við ræðu mína til að verja ofbeldisaðgerðir sínar á forsetastóli um daginn. Ég held að hv. þm. ætti að biðja um orðið og fara þá yfir það mál en dulbúa ekki vörn sína í andsvari við ræðu mína sem hann kom að öðru leyti ekkert efnislega inn á.
    Það stendur allt óhaggað sem sagt var um ofbeldisathafnir hæstv. forseta á forsetastóli þetta kvöld, þær liggja fyrir og eru komnar inn í þingtíðindin. Í öðru lagi er það þannig að ástæða þess að óskað var eftir frestun umræðunnar var sú að menn vildu leggja spurningar fyrir hæstv. forsrh. og það er enn tækifæri til þess, svo sannarlega. Ég var að mæla fyrir nál. minni hlutans og gerði það út frá þeirri efnisafstöðu sem tekin er til málsins og þar kemur skýrt fram að við erum andvíg setningu bráðabirgðalaganna. En nú vill svo til að hér talar starfandi formaður sjútvn. og ég tek hv. þm. á orðinu og lýsi því hér yfir að við munum taka málið upp milli 2. og 3. umr. í sjútvn. og fara þar rækilega ofan í það mál sem hv. þm. taldi að ekki hefði verið nægilega vel skoðað í sjútvn., þ.e. hvernig staðið var að setningu bráðabirgðalaganna og öll vinnubrögð í kringum það.