Stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 16:33:12 (4320)


[16:33]
     Pálmi Jónsson :

    Herra forseti. Í framsöguræðu hæstv. forsrh. kom fram hvernig þessi tillaga er unnin og hvaða starf hefur legið að baki því verki. Ég vil aðeins ítreka það að það starf var býsna viðamikið, enda er hér um að ræða frumvinnu í áætlanagerð af þessu tagi sem hlaut að taka tíma að koma saman og ná sátt um. Ég tel að það sé afar mikilvægt að um þessa tillögu, eins og hún var samin í stjórn Byggðastofnunar, tókst pólitísk samstaða þeirra aðila sem þar eiga sæti. Og þó ég heyri að hér séu ýmsir hv. þm. þeirra flokka sem sæti eiga í stjórn Byggðastofnunar að finna ýmislegt að þessari tillögu, þá lít ég svo til að það sé meira að marka þá sem tekið hafa þátt í þessari vinnu og kynnt sér þessi mál niður í kjölinn og miklu betur en ýmsa aðra sem hér hafa talað.
    Ég get tekið undir það sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði áðan að hér væri verið að setja á blað ýmis góð fyrirheit sem mundu ekki út af fyrir sig ein sér bjarga neinu í byggðamálum. Það mun alltaf verða svo að það sem sett er á blað mun ekki bjarga neinu þegar til kastanna kemur ef ekki fylgja aðgerðir. Ef ekki er í því fólgin stefnumótun sem ætlunin er að sigla eftir. Ætlunin var sú að hér væri sett á blað stefnumótun og hvað sem orðunum líður, þá er það stefnan sem á að hafa gildi fyrir stjórnvöld að sigla eftir á komandi árum.
    Í tillögugreininni, þó að hún sé einar þrjár blaðsíður, þá er býsna viðamiklu efni komið fyrir í tiltölulega fáum orðum. Augljóst er að í slíkri tillögugrein verður ekki allt saman skýrt eins og sumir vilja hafa það, en útskýringar eru gríðarlega miklar og ítarlegar í greinargerðinni sem fylgir tillögunni í þeirri bók sem fylgir þskj. Sú greinargerð var að stofni til unnin af starfsmönnum Byggðastofnunar en henni var mjög mikið breytt og í rauninni var hún algerlega endursamin af stjórn Byggðastofnunar og stjórn Byggðastofnunar ber sameiginlega ábyrgð á henni.
    Ég vil vekja á því athygli að í þessu plaggi eru ýmis nýmæli. Þar á meðal að gert er ráð fyrir því að efla svokölluð atvinnu- og þjónustusvæði. Þetta á að gera með því m.a. að bæta samgöngur þannig að atvinnusvæðin geti stækkað, að þjónustusvæðin geti stækkað, að samgöngur verði þannig að íbúar á hverju svæði geti sótt þjónustu sem sé sem líkust því sem gerist annars staðar á landinu, jafnvel þar sem hún er best. Það verður þó að viðurkenna að seint verður þjónusta í öllum greinum í strjálbýli í landinu jafnítarleg og hún er í aðalþéttbýli landsins. Með því að atvinnu- og þjónustusvæðin stækki og eflist er gert ráð fyrir því að aukin fjölbreytni geti orðið í atvinnulífinu og myndi þann stofn sem á að verða til þess að halda uppi lífskjörum fólksins.
    Ég held að ekki þurfi að fara hér orðum um það sem borið hefur nokkuð á í umræðunni að nokkuð hefur verið horfið að því að fastbinda þetta með slíkum hætti og sumir höfðu kannski gert sér í hugarlund með svokölluðum vaxtarsvæðum. Ég vil aðeins taka undir það að það er ekki hægt að gera því skóna með fastbundnum áætlunum hvernig byggð þróast í landinu á næstu árum og áratugum og eru nóg dæmi um það sem ég ætla ekki að taka tíma til að rekja hér. En það vakti athygli mína að þeir hv. þm. Alþb. sem hér hafa talað til viðbótar við einn af stjórnarmönnum stofnunarinnar, hv. 3. þm. Norðurl. v., töluðu þannig að hér væri mjög losaralega tekið á málum. Þetta væru frómar óskir, sagði hv. 3. þm. Vesturl., og sumpart falleg orð en lítið meira. Hv. 4. þm. Austurl. talaði um að þetta væri svo losaralega gert að það hefði þurft að fella þessa áætlun í fastmótað skipulag, rígbundið og fastmótað skipulag bæði í hagrænum efnum og í landfræðilegum efnum. Þetta er alveg þvert gegn því sem stjórnarmaður þessa hv. stjórnmálaflokks hefur starfað í Byggðastofnun að undirbúningi þessarar tillögu. Ég hlýt því að undrast það þegar málflutningur þessara hv. þm. stangast svo gersamlega á sem hér hefur komið fram í þessari umræðu.
    Um framkvæmd þessara mála þarf vitaskuld að hafa mikið samstarf ekki síst við sveitarfélögin í landinu. Í tillögunni er gert ráð fyrir því að flytja í auknum mæli verkefni til sveitarfélaganna og efla þar þjónustu, en þjónustustarfsemi hefur vaxið meira en nokkur önnur starfsemi í landinu á undanförnum árum og áratugum. Það þarf að gera eins og segir í tillögunni og greinargerð með tillögunni og byggjast á því að sveitarfélögin geti tekið við aukinni starfsemi, annað tveggja með sameiningu eða með samningsbundnu samstarfi. Nú hefur sameining verði felld í mjög mörgum sveitarfélögum víðs vegar um land en það lokar ekki fyrir þá leið sem bent er á í þessari tillögu að hægt sé að taka við auknum verkefnum með samningsbundnu samstarfi sveitarfélaganna. Ég lít svo til að það sé nauðsynlegt til þess að sveitarfélögin geti tekið við auknum verkefnum og hægt sé að flytja meira af þjónustu hins opinbera til sveitarfélaganna í landinu og þar með nær fólkinu en nú tíðkast.
    Það var vikið að flutningi ríkisstofnana í umræðu í morgun. Við orðum það svo í okkar tillögu að við viljum flytja starfsemi ríkisstofnana í auknum mæli út á landsbyggðina. Það hafa sumar ríkisstofnanir gert með góðum árangri, m.a. sú stofnun sem hér er til umræðu, þ.e. Byggðastofnun, en það þarf ekki að þýða að það starfsemin sé flutt í einu lagi og í heild á einhvern tiltekinn stað á landinu enda mun það í fæstum tilvikum leiða til þess að það sé auðveldara fyrir fólkið á landsbyggðinni að njóta þjónustu þessara stofnana.