Stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 16:47:41 (4325)


[16:47]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um stefnumótandi byggðaáætlun. Er það nýmæli í sögu þingsins að um slíka áætlun sé rætt í þinginu og kemur til af því að lögum um Byggðastofnun var

breytt á síðasta kjörtímabili og álít ég að það sé til bóta eða hef ekki trú á öðru alla vega. Alla vega hlýtur umræða um byggðamál að vera af hinu góða en óneitanlega spyr maður sig: Hvað svo? Hvað gerist svo í framhaldi af því að áætlun sem þessi hefur verið samþykkt? Má búast við einhverjum aðgerðum? Það er náttúrlega það sem skiptir máli.
    Það er búið að fara yfir það hvernig þetta varð til og með bréfi forsrh. til Byggðastofnunar um áherslur er komið inn á eflingu vaxtarsvæða á landsbyggðinni. Ég vil láta það koma fram að í sjálfu sér styð ég það að það séu ákveðin svæði sem við horfum til sem sérstakra vaxtarsvæða. Og ég held að það sé bara einfaldlega þannig með aukinni menntun þjóðarinnar og með aukinni kröfu um þjónustu þá verðum við landsbyggðarmenn að átta okkur á því að við verðum að koma okkur saman um að það séu ákveðin svæði sem við getum talað um sem vaxtarsvæði. Þá er ég að hugsa um það fyrst og fremst að á þau svæði muni fólk flytja innan viðkomandi landshluta frekar en að flytja til höfuðborgarsvæðisins og það finnst mér mikilvægt.
    En hins vegar get ég ekki fallist á það að ef verið er að gerbreyta þannig starfsemi Byggðastofnunar að hún geti ekki lengur styrkt og stutt atvinnulíf á svokölluðum jaðarsvæðum. Mér finnst að það sé of róttækt og það finnst mér ekki hægt að fallast á.
    Ég vil nefna að þannig er með mitt kjördæmi, Norðurl. e., að það er kannski hægt að segja að það sé smækkuð mynd af þjóðfélaginu því að þar höfum við tiltölulega stóran bæ á íslenskan mælikvarða, Akureyri, og síðan höfum við mjög dreifðar byggðir og sérstaklega þá í Norður-Þingeyjarsýslu sem hefur átt í vök að verjast á undanförnum árum. Maður varð dálítið var við það fyrir svo sem einum áratug að það var ákveðin spenna innan kjördæmisins milli norðursýslunnar og Akureyrar, fólki fannst allt vera þar í blóma en aftur á móti erfiðleikar í Norður-Þingeyjarsýslu. Nú er það þannig að þetta hefur bókstaflega snúist við. Í Norður-Þingeyjarsýslu er tiltölulega gott atvinnuástad og það kemur til í og með út af því að það hefur verið mikil drift í sjávarútvegi og þar hefur verið ákveðið frumkvæði í gangi hvað snertir sjávarútveg, bæði Rússafisk og eins veiðar í Smugunnni, sem er svo sem umdeilt mál og ég ætla ekki að fara frekar út í hér, en hefur alla vega veitt þessu svæði mjög mikilvæga atvinnu. En ég ætla líka að geta þess að Byggðastofnun hefur svo sannarlega komið þar að málum með myndarlegri aðstoð við fiskeldisfyrirtæki í Öxarfirði, Silfurstjörnuna, og það ber að þakka það.
    Nú hugsa ég með mér þegar ég sá í dagblöðum í sumar fréttir af áherslum ríkisstjórnarinnar varðandi vaxtarsvæði að Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið hlyti að vera alveg dæmigert vaxtarsvæði. Síðan gerist það í sumar í júlímánuði að hæstv. ríkisstjórn kemur sér saman um átak eða sérstök framlög ríkissjóðs til atvinnuskapandi aðgerða og hvergi var nú atvinnuleysið meira þá en einmitt á Akureyri en Akureyri fékk ekkert af því fjármagni. Það var milljarður sem var til ráðstöfunar og það fannst mér ekki vera vel í samræmi við áður tilkynnta stefnu. Og fleira mætti nefna sem manni finnst að stangist á við þetta og stenst ég ekki að minnast á þá ákvörðun sem tekin var hér með fjárlögum að veita 20 millj. kr. til Vestmannaeyja, til rannsóknastarfs þar á sviði sjávarútvegs sem er þvert ofan í ályktun Alþingis um að Akureyri skuli sérstaklega efld sem miðstöðu rannsókna og fræðslustarfsemi. Þetta verður því að haldast í hendur, hæstv. forseti, að mínu mati og það þarf að vera samræmi í aðgerðum. En það er kannski eins og hv. 5. þm. Austurl. sagði hér á dögunum í umræðum um fiskveiðistjórnunina að stefna væri eitt og gerðir væru annað.
    Mig langar til að koma aðeins inn á annað atriði í ályktun ríkisstjórnarinnar sem er undir 5. lið og þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Óskað er eftir því að Byggðastofnun setji í tillögunni fram hugmyndir hvernig hægt sé að örva fjárfestingu í atvinnulífi á landsbyggðinni, sem og varðandi tilflutning stofnana og verkefna hins opinbera til vaxtarsvæða.``
    Og þarna er ég einmitt alveg sammála að ef verið er að tala um það að flytja stofnanir út á land þá finnst mér að þær eigi að fara til þessara vaxtarsvæða.
    Mér finnst eins og Byggðastofnun hafi ekki gert óskaplega mikið með þessa áherslu hjá hæstv. forsrh. Hann skipaði reyndar nefnd á síðasta ári sem vann tillögur að því að flytja ríkisstofnanir út á land. Ég sat í þessari nefnd og tók starf mitt mjög alvarlega þar og sá ekki betur en allir gerðu það. En í því skipunarbréfi sem hæstv. forsrh. gaf út var einmitt komið inn á það að nefndin skyldi í starfi sínu, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin skal í starfi sínu hafa samráð við þá aðila sem málið varðar og búa yfir sérþekkingu er að verkefni hennar lýtur. Er sérstaklega bent á ráðuneytið og Byggðastofnun í því sambandi.``
    Um það er það að segja að Byggðastofnun er algjörlega á móti því að flytja stofnanir út á land. Ég held að það sé alveg ljóst. Ég sé það að tími minn er alveg að verða búinn en ég vil í lok máls míns spyrja hæstv. forsrh. að því hvort honum var ekki full alvara með þessari nefndaskipun. Ég minnist orða hans þegar við héldum blaðamannafund til að skila af okkur þá sagði hann að nú reyndi á það hvort ríkisstofnanir yrðu fluttar út á land eða ekki. En ég bíð eftir því að verkin tali.