Stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 17:25:35 (4334)


[17:25]
     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Það er býsna víðtæk umræða sem hér hefur farið fram. Ég hlýt að fagna því að í meginatriðum er hún jákvæð og málefnaleg og það eitt út af fyrir sig hvað sú till., sem hér liggur fyrir, og sú greinargerð sem henni fylgir, þ.e. álit Byggðastofnunar, mælist vel fyrir. Þetta held ég að sé mikilvægt og ekki síst vegna þess að þessar ákvarðanir eru ekki nýjar af nálinni. Ég starfaði í nefnd undir forustu Jóns Helgasonar á fyrra kjörtímabili þar sem menn fundu þá leið vænlegasta til að skipa byggðamálunum fastari sess að koma á áætlanagerð af svipuðum toga og hér er lagt til. Það er grundvallaratriði að festa þetta í sessi og fá virkni í þá starfsemi sem þessi áætlanagerð á að leiða til.
    Það er einkum tvennt sem ég vildi minnast á í sambandi við þessa umræðu. Það er í fyrsta lagi það sem hér hefur verið talað um vaxtarsvæði og hv. þm. Ragnar Arnalds fór ýmsum orðum um. Hann taldi sig hafa náð árangri með því að dregið var út áhrifum þessarar viðmiðunar og taldi sig hafa skilað þar góðu starfi. Málið er hins vegar það að ég held að hann hafi ekki verið á þeim fundi í Byggðastofnun þar sem þessi ákvörðun var loksins tekin. Það var í rauninni eini fundurinn þar sem rætt var málefnalega um þessa skilgreiningu austur á Hvolsvelli. Og með því að Ragnar Arnalds var að lýsa yfir sínum mikla árangri er náttúrlega nauðsynlegt að það komi fram að hann hefur þá náð þeim árangri með fjarvist sinni af þeim fundi. En þar fékkst í rauninni niðurstaða um þessar skilgreiningar og var algjört samkomulag um þau efni.
    Svo ég rétt aðeins minni á hvað að baki þessu hugtaki liggur, þá er það byggðasvæði en ekki t.d. einn sérstakur þéttbýliskjarni. Það gekk illa hjá mönnum, sérstaklega þó hv. þm. Ragnari Arnalds, að losa sig frá hinu gamla heiti, byggðakjarni sem er orðið, eins og menn vita áratuga gamalt. Þar var sérstaklega við það miðað að efla vissa kjarna, draga þangað fólk að og síðan að treysta byggðina út frá þeim.
    Mér finnst líka vert að það komi hér fram að Byggðastofnun hefur nú tekið til umræðu, og er það kannski vonum seinna, ástandið á sauðfjárræktarsvæðunum. Landbn. Alþingis leitaði eftir því við Byggðastofnun að gerð yrði úttekt á því ástandi til hvers samdráttur í sauðfjárræktinni leiddi bæði fyrir byggðirnar og afkomu þeirra sem þessa grein stunda. Á einum fundi sínum fjallaði Byggðastofnun lauslega um þetta mál og mun væntanlega gera betur í framhaldi af þeirri umræðu. Sérstaklega hefur verið litið á það með hvaða hætti sé hægt að treysta önnur atvinnufæri sem sauðfjárbyggðirnar gætu hugsanlega nærst af og leggja grundvöll að því að sauðfjárbyggðirnar hefðu forgang að einhverju tilteknu fjármagni sem gæti orðið til þess að næra atvinnulífið þar. Þetta finnst mér nauðsynlegt að komi hér fram við þessa umræðu.
    Ég vildi líka rétt segja frá því að það hefur verið gerð athugun á því að tilhlutan Byggðastofnunar hvernig byggðin í landinu skipast með tilliti til samgangna. Það er satt að segja afar athyglisvert hvað það kemur greinilega fram í því sambandi að mjög stór hluti af sveitabyggðinni hefur möguleika á því að treysta atvinnu sína með því að sækja vinnu í þéttbýlið þannig að út af fyrir sig er traustur byggðabúskapur, bæði í sveitum og byggðakjörnunum að sjálfsögðu grundvöllur fyrir því að sæmileg afkoma geti verið í sveitum landsins.
    Ég endurtek það sem ég sagði í upphafi að ég fagna þessari umræðu og þeim jákvæðu viðhorfum sem hér hafa komið fram og það tel ég út af fyrir sig gott veganesti inn í framtíð þessara mála.