Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 15:00:26 (4365)


[15:00]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. minntist hér á hvítbók og þar hefði verið kveðið á um að hafa samráð við sjútvn. um mótun fiskvinnslustefnu. Spurningin er: Var það gert, hæstv. ráðherra?
    Hæstv. utanrrh. hélt áfram og sagði: ,,Samkeppnisstaðan verður jöfnuð.`` Ráðherrann taldi það mjög nauðsynlegt. Það töldu sjálfstæðismenn einnig þegar þeir samþykktu á landsfundi sínum og segja ,, . . .  í því sambandi er nauðsynlegt að jafna samkeppnisstöðu fiskvinnslu á Íslandi til samræmis við fiskvinnslu innan Evrópubandalagsins með tilliti til verndartolla EB auk þess sem höfð verði hliðsjón af ríkisstyrkjum bandalagsins.`` Hefur þetta verið gert, hæstv. ráðherra?
    Auðvitað erum við hér að tala um auðlindaskatt, hæstv. ráðherra, hvaða nafni sem Alþfl. vill gefa þessum skatti. Hér er um auðlindaskatt að ræða. Og ég vil spyrja hæstv. utanrrh.: Það liggur fyrir frá Þjóðhagsstofnun að það mun vera áætlað að veiðar íslenskra skipa muni verða reknar með 6% halla á þessu ári, með 6% halla. Því vildi ég biðja hæstv. ráðherra, ef hæstv. utanrrh. getur ekki svarað því, þá hæstv. sjútvrh. sem örugglega á eftir að tala, hvað er verið að tala hér um marga milljarða kr. í halla á veiðarnar á komandi ári? Á sama tíma og menn eru að taka upp þann þráðinn að skattleggja þessa grein, á sama tíma sem kröfunum ætlar aldrei að linna, á sama tíma þurfi greinin enn þá að hagræða og bæta afkomu í rekstri.
    Og ég spyr að lokum, hæstv. utanrrh.: Er 11. gr. í þessu frv. til þess að auka arðsemi íslenskra fiskvinnslufyrirtækja og tryggja atvinnuöryggi íslensks fiskvinnslufólks?