Umboðsmaður barna

96. fundur
Miðvikudaginn 23. febrúar 1994, kl. 15:24:13 (4413)


[15:24]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Reykv. fyrir hans ræðu og get verið honum sammála um margt. M.a. það atriði sem hann nefndi og ég hafði raunar nefnt líka að alveg á sama hátt og umboðsmaður Alþingis heyrir beint undir Alþingi Íslendinga finnst mér raunar að svo hefði átt að vera um umboðsmann barna. Nú hefur hvorugur þessara umboðsmanna vald. Þeir taka ekki ákvarðanir. En eins og reynslan hefur sýnt okkur þá reyna velflestar stofnanir og flestir aðilar að fara að niðurstöðu umboðsmanns Alþingis og sú er von mín að svo fari með umboðsmann barna.
    Það er jafnframt hárrétt hjá hv. 3. þm. Reykv. að vitaskuld er ekki hægt að skapa neitt sem heitir fjölskyldustefna. Ég frábið mér að aðrir séu að búa fjölskyldu minni eða annarra stefnu. Það er einmitt verkefni m.a. okkar á hinu háa Alþingi og ekki síst umboðsmanns barna, þegar hann tekur til starfa, að skapa fólki þær aðstæður í þjóðfélaginu að fjölskyldur geti þrifist og dafnað eins og þeim sjálfum sýnist en hinar ytri aðstæður séu í lagi. Betur getum við ekki gert. Hinar innri aðstæður verður fólk að skapa sér sjálft.
    Aðeins að lokum, frú forseti. Ég minntist á það við þann forseta sem hér sat áður, án þess að mér þyki það nú mikið mál, en ég hygg að það sé allóvenjulegt að málefni sem hæstv. félmrh. flytur fari til hv. allshn. Nú kann ég ekki eða man ekki dæmi um það. En eðlilegra hefði mér þótt að málið færi til hv. félmn. Það er venjulegri aðferð á hinu háa Alþingi. En ekki skal ég gera neitt meiri háttar mál út úr því.