Alþjóðavinnumálaþingið í Genf 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 17:46:52 (4480)


[17:46]
     Björn Bjarnason :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. þessa skýrslu og tel mjög mikilvægt það sem kom fram í máli hennar varðandi félagafrelsið og túlkanir á 5. gr. félagsmálasáttmála Evrópuráðsins sem Íslendingar gerðust aðilar að 1975. Það er ljóst af lestri þessarar skýrslu að um langt árabil hafa Íslendingar staðið frammi fyrir því á vettvangi Evrópuráðsins og innan vébanda þeirra stofnana á vegum þess sem vinna að því að framfylgja félagsmálasáttmálanum að verja málstað sem, eins og lýsingarnar bera með sér í þeirri skýrslu sem fyrir liggur, á æ meira undir högg að sækja ef þannig má að orði komast. Málstaðurinn sem íslensk stjórnvöld eru að verja á þessum vettvangi er á undanhaldi á vettvangi Evrópuráðsins og meðal þeirra þjóða sem aðhyllast það félagsmálakerfi sem við gerum og eru aðilar að félagsmálasáttmála Evrópu. Það kemur fram í skýrslunni að sérfræðingar sem eiga að gæta réttinda borgaranna í félagslegum efnum telja að íslenskri löggjöf sé mjög ábótavant. Ýmislegt hefur verið lagað í því efni eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra og má þar sérstaklega nefna réttinn til atvinnuleysisbóta sem tekið hefur verið á á Alþingi og samþykkt lög um.
    Varðandi síðan dóm Mannréttindadómstólsins á síðasta ári í máli Sigurðar A. Sigurjónssonar leigubílstjóra, þá er ljóst að það þarf að breyta lögunum um leigubifreiðir. Það hefur komið fram að frv. um það efni er væntanlegt til Alþingis og þá getum við rætt það mál sérstaklega og hvernig sú löggjöf hefur brotið í bága við 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og einnig 5. gr. félagsmálasáttmálans þar sem fjallað er um rétt manna til þess að vera í félögum og hefur hann verið túlkaður þannig að hann nái einnig til réttar manna til að standa utan félaga.
    Það er rétt sem kom fram í máli hæstv. ráðherra að á það er bent að skylduaðildin að leigubílstjórafélaginu Frama var í lögum og það kann að gilda öðru máli um lögþvingaða aðild, eins og þar er mælt fyrir um, en samningsbundna aðild og forréttindaákvæði eins og gildir hér almennt á vinnumarkaðnum. Ég ætla ekki að fara út í þær deilur um lögfræði en vil aðeins vekja máls á því þar sem hæstv. ráðherra minnti á ráðstefnu sem haldin var í sumar á vegum Evrópuráðsins um þessi málefni að þar kom skýrt fram að ef um skylduaðild að verkalýðsfélögum væri að ræða þá væri hægt að gera og ætti að gera mjög ríkar kröfur til verkalýðsfélaganna um starfshætti þeirra, um það að þau sinntu aðeins því hlutverki að semja um kaup og kjör á hinum almenna vinnumarkaði en væru ekki að sinna pólitískum störfum eða með afskipti af öðrum málum en beinlínis féllu undir starfsemi verkalýðsfélaga eins og þau eru skilgreind með hefðbundnum hætti.
    Það kann einnig að vera að þótt við viðurkennum þetta og skoðum í þessu ljósi þá eru stundum óskýr mörk á milli frjálsrar aðildar, ef við köllum það svo, og skylduaðildar sem kann að vera lögfest og má þar t.d. nefna skyldu manna til að borga í sjóði Bandalags starfsmanna ríkis og bæja þótt þeir séu ekki í þeim félagsskap. Þarna eru því mörg álitamál og nauðsynlegt að ræða þau og ég fagna því að hér gefist tilefni til þess og ástæða að ræða þetta mál með hliðsjón af ræðu hæstv. ráðherra.
    Það kom fram í máli hennar að ríkisstjórnin teldi sér skylt að standa við 73. gr. stjórnarskrárinnar eins og hún hefur verið túlkuð af hálfu Hæstaréttar þar sem Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að hún rúmi ekki rétt manna til að standa utan félaga. Þessi niðurstaða Hæstaréttar Íslands brýtur í bága við niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu. Í 11. gr. mannréttindasáttmálans stendur hvergi að menn hafi rétt til að standa utan félaga en dómstóllinn komst að þessari niðurstöðu í máli Sigurðar A. Sigurjónssonar með því að túlka sáttmálann sem lifandi gjörning sem ætti að laga sig að kröfum tímans og þess vegna bæri nú að túlka þetta með þessum hætti. Hins vegar hefur Hæstiréttur Íslands ekki notað sömu aðferðir við túlkun á stjórnarskánni. Komi til þess að mannréttindaákvæðum hennar verði breytt, eins og um hefur verið talað, finnst mér sjálfsagt að líta á þetta ákvæði í 73. gr. og rýmka það þannig að það verði

ekki talið brjóti í bága við mannréttindi eins og þau eru nú skýrð á alþjóðlegum vettvangi og á þeim vettvangi þar sem mannréttindi eru helst í heiðri höfð.
    Varðandi túlkun á 5. gr. félagsmálasáttmálans vil ég láta þess getið að á þingi Evrópuráðsins, það kemur því miður ekki fram í skýrslu ráðherrans --- og raunar er á bls. 51 talað um þingmannanefnd og síðan sagt ,,The Consulative Assembly`` og þar á skýrsluhöfundur væntanlega við þing Evrópuráðsins --- hefur verið samþykkt að 5. gr. félagsmálasáttmálans skuli breytt á þann veg að tekin séu af öll tvímæli í henni um rétt manna til að standa utan félaga. Ég held því að það sjónarmið sem íslenska ríkisstjórnin heldur í á vettvangi Evrópuráðsins þegar að þessum málum kemur stangist á við réttarþróun, eins og hún kemur fram í dómi Mannréttindadómstólsins, og einnig stangist hún á við pólitíska þróun eins og kemur fram í samþykkt Evrópuþingsins. Hún stangast einnig á við túlkanir sérfræðinga og embættismanna sem fjalla um félagsmálasáttmálann því það kemur fram á bls. 55 og 56 að á árinu 1992 hafði þeim ríkjum fjölgað í embættismannanefndinni sem töldu að 5. gr. félagsmálasáttmálans tæki til réttarins til að standa utan félaga. Ákvörðun nefndarinnar frá 1988 um að túlka 5. gr. á þann veg að hún næði ekki til réttarins til að standa utan félaga virðist því ekki lengur njóta meirihlutastuðnings í embættismannanefndinni. Þannig að hvort sem litið er á sérfræðinganefndina, Mannréttindadómstólinn, embættismannanefndina eða þing Evrópuráðsins, þá nýtur það sjónarmið sem fylgt er af íslenskum stjórnvöldum ekki stuðnings meiri hluta manna sem starfa á þessum mannréttindavettvangi. Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga og minnast þessa þegar við ræðum þau mikilvægu mál sem lúta að rétti manna til að standa utan félaga.
    Í umræðum sem fóru fram á Alþingi hinn 11. nóv. sl. um skýrslu forsrh. vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins í Vínarborg vakti ég máls á þessu atriði og benti á það í ræðu minni að Ísland sætti gagnrýni á vegum Evrópuráðsins að því er mannréttindi varðar, hvað félagsleg réttindi varðar og einnig hvað varðar rétt manna sem lokaðir eru inni í fangelsum eða á hælum. Á öllum þessum sviðum starfa eftirlitsnefndir sem hafa litið til Íslands og ég spurði hæstv. forsrh. sérstaklega að því í þessum umræðum hvort hann teldi ekki með hliðsjón af þessari þróun, sem ég hef lýst varðandi túlkun á mannréttindasáttmálanum og félagsmálasáttmálanum, að við Íslendingar þyrftum að huga að afstöðu okkar í þessu máli.
    Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa það sem hæstv. forsrh. sagði í svarræðu sinni. Hann sagði: ,,Ég hygg að með nýgengnum dómi og þeim breytingum sem eru að verða varðandi sjónarmið í þessum efnum þá hljóti menn að skoða mjög nákvæmlega afstöðu sína og hugmyndir sem lúta að þessum þáttum sérstaklega. Við skulum þó gera okkur grein fyrir því að þetta eru vandmeðfarin mál og viðkvæm og það er nauðsynlegt að ræða þau í góðri sátt við til að mynda launþegahreyfinguna og ég held reyndar að það sé líka á þeim vettvangi sem vaknar ríkari skilningur á þessu.``
    Ég tek undir þessi orð forsrh. Að sjálfsögðu ber ekki að fara fram í þessu máli af neinu offorsi en það er nauðsynlegt að við ræðum þau og gerum okkur grein fyrir hver þróunin er. Það fer okkur illa sem þjóð er vill virða lýðréttindi og mannréttindi að dragast aftur úr í þessari þróun.
    Það kom fram á ráðstefnunni sem hæstv. félmrh. vísaði til sl. sumar í máli lögfræðings Alþýðusambands Íslands að hann taldi ástæðulaust jafnvel fyrir alþýðusamtökin að lúta forræði löggjafans þegar kæmi að ákvörðun um þetta efni. Mér þóttu þetta furðuleg ummæli en auðvitað verða alþýðusamtökin eins og aðrir að lúta þeim ákvörðunum sem teknar eru á Alþingi og ég tala nú ekki um ef gengið yrði til þess verks við endurskoðun á mannréttindarákvæðum stjórnarskrárinnar að koma í veg fyrir að 73. gr. hennar verði túlkuð á þann veg að brjóta í bága við niðurstöður þeirra sem fjalla sérstaklega um mannréttindi.
    Það hefur síðast gerst í þessu máli varðandi umræðurnar um stöðu stéttarfélaganna að mjög róttækar yfirlýsingar voru gefnar um þau málefni á fundi Félags frjálslyndra jafnaðarmanna, ef ég man rétt, ég held ég fari rétt með heiti félagsins, sem efndi til fundar á dögunum um stöðu verkalýðshreyfingarinnar. Þar kom fram í máli manna og hefur vakið athygli í fréttum að það var helst talið standa fyrir þrifum eðlilegri þróun á vinnumarkaði hér hve mikið vald verkalýðshreyfingin hefði. Mér finnst að það eigi ekki að draga deilur um slíkt inn í umræður um mannréttindamálefni. Þótt auðvitað sé hægt að setja þar tengingar á milli þá finnst mér ósanngjarnt að draga sjónarmið af þessu tagi um hlutverk verkalýðshreyfingarinnar og stöðu hennar á vinnumarkaði og afskipti hennar af þróun atvinnu- og launamála inn í umræður um mannréttindamál og að það kunni að spilla fyrir því að mannréttindin nái fram. Engu að síður er þetta athyglisvert sjónarmið sem vakið hefur umræður á almennum vettvangi og lýtur að þessu sama máli: Hvaða hlutverki gegna verkalýðsfélögin? Og er það er svo að þau þurfi að starfa í sérstöku skjóli hér á landi sem menn eru sammála um annars staðar að skuli ekki vera fyrir hendi?
    Ég hvet því hæstv. félmrh. eindregið til þess að huga vel að stefnu stjórnvalda í þessu máli. Ég lít þannig á að bréf það sem hæstv. ráðherra ritaði 8. okt. 1992 til framkvæmdastjóra Evrópuráðsins um framkvæmd Íslands á ákvæði 5. gr. félagsmálasáttmála Evrópu sé í andstöðu við þá meginstrauma sem nú leika um Evrópusamstarfið á þessum vettvangi. Ég skora á hæstv. ráðherra að huga að þessum málum í ljósi þeirra breytinga sem eru að verða og hún stuðli að því, ég treysti henni til að stuðla að því, að Ísland sæti ekki ámæli vegna þess að hér hiki menn við að taka ákvarðanir sem miði að því að tryggja sem best mannréttindi og að mannréttindi Íslendinga séu í sem bestu samræmi við það sem gerist meðal annarra þjóða.