Skráning notaðra skipa

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 15:15:21 (4487)


[15:15]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það er að vísu aukaatriði en ég minnist þess ekki að ég hafi utan einu sinni óskað eftir því að þessu máli yrði frestað þannig að ég skil ekki alveg hvað hv. þm. var að fara í þeim efnum.
    Ég vil jafnframt segja það vegna ummæla hv. þm. að það er ekki nema rétt ár síðan Alþingi samþykkti breytingar á lögum um eftirlit með skipum. Þau lög eru nr. 35/1993 en samkvæmt 2. mgr. 8. gr. þeirra laga má ekki flytja inn fiskiskip sem eldri eru en 15 ára og það var ákvörðun Alþingis að svo skyldi vera og gekk Alþingi þar lengra en samgrn. hafði lagt til.
    Mikið framboð er nú á heimsmarkaði af ódýrum, gömlum togurum og hafa ýmsir aðilar á Íslandi sýnt áhuga á kaupum á slíkum skipum fyrst og fremst til veiða utan fiskveiðilandhelgi Íslands. Ýmis rök má færa með og móti því að rýmka núverandi ákvæði. Ákvæðið hefur valdið því að við endurnýjun á íslenska skipaflotanum hefur fram til þessa ekki komið til greina að kaupa aflóga erlend veiðiskip. Ákvæðið hefur því án efa átt sinn þátt í að íslenski fiskiskipaflotinn hefur í alþjóðlegum samanburði staðið sig vel varðandi öryggismál, aðbúnað áhafnar, aðstöðu til góðrar aflameðferðar og beitingu nýjustu veiðitækni.
    Að því er úthafsveiðarnar varðar hefur því verið haldið fram að með stækkun úthafsveiðiflotans aukist möguleikar Íslendinga til að bæta sér upp aflabrest á heimamiðum. Margt bendir þó til þess að eins og aflaheimildum innan landhelgi er nú háttað sé þegar til ónotuð afkastageta í íslenska fiskiskipaflotanum til að fullnýta alla þá arðbæru fiskveiðimöguleika sem vitað er um á alþjóðlegu hafsvæði í Norður-Atlantshafi. Fjölgun skipa mundi þar aðeins rýra möguleika þeirra sem fyrir eru. Það má benda á að með því að breyta íslenskri löggjöf nú til að gera mögulega fjölgun íslenskra skipa sem ætluð eru sérstaklega til úthafsveiða sé verið að stigmagna þann ágreining sem uppi er milli Íslendinga annars vegar og Norðmanna og Rússa hins vegar um veiðar í Smugunni. Slíkt er óæskilegt í sjálfu sér og rýrir möguleika til hagfelldrar langtímalausnar á deilunum. Að öllum þeim atriðum metnum verður að teljast næsta hæpið að rétt sé að rýmka skilyrði í lögum um skráningu skipa og heimila skráningu fiskiskipa sem eldri eru en 15 ára.