Rekstur lóranstöðvarinnar að Gufuskálum

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 16:13:48 (4514)


[16:13]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Þetta mál er margrætt. Það er búið að ræða þetta mál ítarlega, bæði milli sjútvrn., utanrrn., fjmrn. og samgrn. Þetta mál hefur verið rætt við fulltrúa sjómanna, útgerðarmanna og smábátaeigenda og niðurstaðan er í stuttu máli sú að öllum þykir kannski gott og blessað að við rekum lórankerfið áfram en á hinn bóginn virðist enginn vera reiðubúinn að standa undir þeim kostnaði sem slíku fylgir. Má kannski segja að það sé eðlilegt eftir þeim nýjustu upplýsingum sem fyrir liggja vegna þess að við mundum hafa sáralítil not af því að reka stöðvarnar áfram þar sem ekki er nein móttökustöð á Grænlandi. Við erum því í raun og veru bara að tala um smásvæði vestur af landinu, Breiðafjörð og eitthvað lítils háttar til viðbótar. ( StB: Alla Vestfirði.) Eitthvað lítils háttar út af Vestfjörðum. En á hinn bóginn hafa útgerðarmenn ekki verið reiðubúnir til að greiða fyrir þessa þjónustu. Þannig að það er af þeim sökum ekki ágreiningur um það.
    Ég vil líka segja að það er misskilningur sem fram kom áðan, það er óhjákvæmilegt annað en að endurbyggja lórankerfið. Stofnkostnaður við slíkt yrði um 200 millj. kr. og sjófarendur gætu ekki notað þá viðmiðunarpunkta sem þeir hafa núna sjálfkrafa áfram heldur yrðu þeir að merkja þá upp að nýju þó svo að lórankerfið yrði við lýði. Þannig að í þá fyrirhöfn yrði að leggja undir báðum kringumstæðum.
    Ég vil segja að síðustu, herra forseti, að þetta mál er mjög athugað. GPS-kerfið er talið fullnægjandi. Það er í rauninni enginn á móti því að hér sé rekið varakerfi en eins og málið er allt vaxið þá sjá menn ekki að það kerfi kæmi að haldi sem fælist í því að endurbyggja lóran C eins og það er núna.