Atvinnuleysistryggingar

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 16:38:59 (4527)


[16:38]
     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á undanförnum mánuðum hefur atvinnuleysi farið vaxandi hér á landi svo sem spáð hafði verið. Því miður bendir fátt til þess að úr því muni draga á næstunni nema til komi sérstakar aðgerðir. Samkvæmt upplýsingum sem fram hafa komið eru þess mörg dæmi að fólk hafi verið án vinnu í ár eða meira en til skamms tíma var slíkt nánast óþekkt hér á landi. Sá galli er á þeirri löggjöf sem hér er í gildi að fólk missir atvinnuleysisbætur eftir eitt ár nema kostur gefist á námskeiðum, en svo dæmi sé tekið voru í janúar 150 félagar í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur atvinnulausir og án bóta samkvæmt frétt sem birtist í Morgunblaðinu um þessi mál. Þessi frétt og atvinnuástandið hafa vakið hjá mér spurningar um það hvernig staðið er að þeim námskeiðum sem kveðið er á um í lögunum og einnig hvort ekki sé tímabært að endurskoða lögin að nýju, þó auðvitað sé nýbúið að því, horfast í augu við að atvinnuleysi er orðið varanlegt og afnema regluna um bótamissinn. Af þessu tilefni vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. félmrh., sem eru á þskj. 557:
  ,,1. Hversu margt atvinnulaust fólk var án atvinnuleysisbóta í janúar vegna þess að það hafði verið atvinnulaust í ár eða lengur?
    2. Hvar á landinu hefur atvinnulausu fólki verið boðið upp á námskeið þannig að það missi ekki atvinnuleysisbætur í 16 vikur?
    3. Hversu margir hafa nýtt sér námskeið fyrir atvinnulausa eftir að lögum um atvinnuleysistryggingar var breytt sl. vor?
    4. Hvernig hefur verið staðið að kynningu á námskeiðum fyrir atvinnulausa?``